Hrun í fiskistofnum vegna skordýraeiturs

Fiskistofnar í japönskum vötnum hrundu á mjög skömmum tíma eftir að bændur í nágrenninu fóru að nota skordýraeitur sem innihélt neónikótínoíð. Þetta kemur fram í grein í tímaritinu Science, þar sem skoðuð voru gögn frá Shinji-vatninu í Japan fyrir og eftir upphaf neónikótínoíðnotkunar á svæðinu. Veiði á vatnaloðnu minnkaði um 90% á nokkrum árum eftir að eiturnotkunin hófst, en hafði áður verið stöðug áratugum saman. Á sama tíma minnkaði álaveiði um 74%. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem neónikótínoíð er tengt við fiskidauða, en fyrri rannsóknir hafa bent til tengsla eitursins við dauða ferskvatnsskordýra, snigla og fugla sem lifa á skordýrum í landbúnaðarhéruðum. Einnig hefur verið sýnt fram á neikvæð áhrif eitursins á ratvísi farfugla. Áhrif á fiska koma þó ekki á óvart þar sem ýmsir ferskvatnsfiskar lifa á smádýrum sem eitrið drepur. Reyndar spáði Rachel Carson fyrir um þessi tengsl í bók sinni Silent Spring árið 1962.
(Sjá frétt The Guardian 31. október).

Horfur á stórfelldum samdrætti í fiskveiðum

Líkur eru á að árið 2300 verði fiskafli í heiminum að meðaltali 20% minni en hann er nú og að í Norður-Atlantshafi verði samdrátturinn um 60%. Þetta kemur fram í grein sem vísindamenn við Háskólann í Kaliforníu rita í nýjasta tölublað Science. Með hækkandi hitastigi sjávar og bráðnun íss á heimskautasvæðunum mun ljóstillífun plöntusvifs við Suðurskautslandið vaxa verulega, sem þýðir að næringarefni (einkum köfnunarefni og fosfór) hætta að berast þaðan til annarra hafsvæða í sama mæli og nú. Þar af leiðandi mun plöntusvifi fara hnignandi á þeim svæðum og sú hnignun mun ganga upp alla fæðukeðjuna.
(Sjá frétt Science Daily 8. mars).

Fiskar í menguðu vatni þurfa að vinna meira

Lyfjaleifar og önnur mengunarefni í vatni neyða fiska til að leggja á sig meira erfiði en ella til að komast af, að því er fram kemur í nýrri vísindagrein eftir sérfræðinga við McMaster-háskólann í Ontaríó í Kanada. Jafnvel fullkomnustu skólphreinsistöðvar ná ekki að klófesta leifar af lyfjum á borð við getnaðarvarnarpillur, þunglyndislyf og beta-blokkera áður en skólpinu er hleypt út í viðtakann. Þessi efni og önnur mengunarefni í vatni gera það að verkum að fiskar leggja á sig u.þ.b. 30% viðbótarvinnu til að losa sig við efnin. Þetta þýðir að minni orka verður afgangs en ella til annarra verka, svo sem til þess að afla næringar, verjast rándýrum og æxlast. Þar með minnka afkomumöguleikar stofnsins, jafnvel þótt efnin drepi ekki fiskana. Þarna er því í raun um falin eitrunaráhrif að ræða. Einn af höfundum rannsóknarinnar líkir þessum áhrifum við það ef fólk þyrfti að ganga í nokkrar klukkustundir á hverjum degi (án þess að fá meiri mat).
(Sjá frétt Science Daily 16. janúar).

Koltvísýringur ruglar fiska í ríminu

160120141525_1_540x360Hækkandi styrkur koltvísýrings í heimshöfunum getur ruglað fiska í ríminu og skert ratvísi þeirra. Þetta samhengi hefur verið þekkt um hríð, en nýjar rannsóknir vísindamanna við Háskólann í Nýja Suður-Wales í Ástralíu (UNSW) benda til að þetta geti gerst mun fyrr en áður var talið. Þannig gætu fiskar á tilteknum hafsvæðum, þ.m.t. í Norður-Atlantshafi, verið komnir í annarlegt ástand vegna koltvísýringshækkunar um miðja þessa öld. Um næstu aldamót gæti um helmingur allra dýra í heimshöfunum verið orðinn ringlaður af þessum sökum. Þessar breytingar munu hafa víðtæk áhrif á lífríki og hagkerfi ef svo heldur sem horfir.
(Sjá frétt Science Daily í dag).

Langtímaáhrif olíumengunar vanmetin

150908082807_1_540x360 (160x211)Olíumengun í sjó getur veikt blóðrásarkerfi fullvaxinna fiska sem komist hafa í snertingu við olíuna á fósturskeiði. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem sagt er frá í vefútgáfu tímaritsins Scientific Reports. Fiskarnir líta út fyrir að vera fullkomlega eðlilegir, en hjörtu þeirra þroskast ekki eðlilega, sem leiðir til þess að þeir synda hægar en ella, hafa minna mótstöðuþrek gegn sjúkdómum og eiga almennt minni möguleika á að komast af en aðrir fiskar. Þessar niðurstöður eru taldar geta skýrt hrun síldarstofna fjórum árum eftir Exxon Valdez olíuslysið við Alaska vorið 1989. Um leið felst í þeim vísbending um að breyta þurfi áhættumati vegna olíuslysa, þar sem tjón af slíkum slysum hafi verið vanmetið fram til þessa.
(Sjá frétt Science Daily 8. september).

Styrkur lyfja í evrópskum ám víða yfir mörkum

river_160Hópur vísindamanna á vegum Evrópusambandins hefur reiknað út styrk þriggja algengra lyfja í evrópskum ám og komist að þeirri niðurstöðu að styrkurinn sé í allnokkrum tilvikum yfir viðmiðunarmörkum Vatnatilskipunar ESB. Lyfin sem um ræðir eru etinýlestradíól, estradíól og díklófenak. Tvö fyrrnefndu lyfin eru notuð í getnaðarvarnarpillur og sem staðgöngulyf fyrir hormón en díklófenak er bólgueyðandi (og má finna m.a. í Voltaren). Öll þessi efni eru talin hafa neikvæð áhrif á vistkerfi vatnasvæða, m.a. vegna áhrifa á hormónastarfsemi fiska, og eru því undir sérstöku eftirliti innan ESB. Niðurstöðurnar benda til að styrkur etinýlestradíóls sé yfir viðmiðunarmörkum í um 12% af evrópskum ám, að styrkur estradíóls sé yfir mörkum í 1,5% tilfella og að styrkur diklófenaks sé sömuleiðis yfir mörkum í 1,5% ánna. Ástandið er talið verst í Þýskalandi, Hollandi, Póllandi og Rúmeníu, þar sem allt að þriðjungur ánna stenst ekki gæðakröfur vatnatilskipunarinnar hvað þetta varðar.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 21. maí).

 

Hlýnun sjávar dregur úr afla í Norðursjó

fishing_northsea_160Draga mun úr þéttleika og stærð mikilvægra nytjastofna í Norðursjó í takt við hækkandi hitastig í sjónum, ef marka má rannsókn Háskólans í Exeter á þróun ýsu, kola og þykkvalúru í breskri lögsögu. Fram kemur í rannsókninni að hlýnunin í Norðursjó hafi verið um fjórfalt meiri en meðalhlýnun heimshafanna síðustu 40 ár. Ýsa, koli og lúra eru einna algengustu fisktegundirnar á matardiskum Breta, en þær eiga það sameiginlegt að kjósa búsvæði í köldum sjó á allmiklu dýpi. Þegar hitastig hækkar leita þessar tegundir á kaldari svæði, en vísindamenn telja að dýpt sjávar á nærliggjandi og norðlægari svæðum sé minni en svo að þessar tegundir ná að aðlaðast búsvæðum þar. Þær séu þannig í raun innikróaðar og þess vegna muni draga úr þéttleika og stærð stofnanna á næstu árum.
(Sjá frétt Science Daily 13. apríl).

Afli tvöfaldaður með sjálfbærum fiskveiðum

fishingUK_160Bretar gætu tvöfaldað sjávarafla sinn á næstu 10 árum ef kvótaheimildir ESB væru í takt við ráðgjöf rannsóknarstofnana. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn frá New Economics Foundation þar sem mælt er með lækkun kvótaheimilda fyrir ákveðna stofna sem hafa verið ofveiddir, þannig að stofnarnir geti náð sér. Með þessu móti gæti breski fiskveiðiflotinn aukið afla sinn úr 560 milljónum tonna í 1.100 milljónir með tilheyrandi aukningu í tekjum og fjölgun starfa. Menn eru hins vegar tregir til að minnka kvótann, þar sem það getur haft mikil áhrif á efnahaginn til skamms tíma. Kvótarnir eru ákveðnir með tilliti til sögu fiskveiða og stærðar fiskveiðiflota í hverju landi, en sjávarútvegsráðherrum ESB ber engin skylda til að taka tillit til sjálfbærrar auðlindanýtingu til að koma í veg fyrir ofveiði. Endurbætur á kvótakerfi ESB eru þó á döfinni á næstu 5 árum þar sem lögð verður áhersla á að kvóti sé ákveðinn út frá sjálfbærum hámarksafla.
(Sjá frétt the Guardian í dag).