Neysla lífrænna matvæla bætir heilsu og styður við þroska ungbarna, minnkar líkur á sykursýki og offitu fullorðinna og dregur úr hættu á uppvexti lyfjaónæmra baktería að því er fram kemur í skýrslunni Human health implications of organic food and organic agriculture, sem unnin var fyrir Evrópuþingið og felur í sér samantekt á rannsóknarniðurstöðum síðustu ára. Þessi ávinningur byggir m.a. á því að notkun varnarefna er bönnuð í lífrænum landbúnaði, álag vegna kadmíummengaðs áburðar er hverfandi og áhersla á dýravelferð gerir það að verkum að þörf fyrir sýklalyf í húsdýrahaldi er mun minni en ella, auk þess sem strangar reglur gilda um lyfjanotkun. Í skýrslunni kemur einnig fram að neysla lífrænna matvæla dragi úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum, fækki ofnæmisvandamálum og stuðli að minni losun gróðurhúsalofttegunda. Í þessu felst þó ekki sönnun þess að lífræn matvæli séu hollari en önnur, m.a. vegna þess að aðrir þættir í lífsstíl „lífrænna neytenda“ kunna að eiga þátt í betri heilsu þeirra.
(Sjá frétt FoodTank 31. desember 2016).