Costco vill hætta sölu kjúklings sem alinn er á sýklalyfjum

Photo of the rear of a Costco membership card /American Express credit cardCostco verslunarkeðjan ætlar að hætta að selja kjöt af kjúklingum og öðrum dýrum sem meðhöndluð hafa verið með sýklalyfjum sem einnig eru notuð gegn sýkingum í fólki. Slík lyf eru mikið notuð í landbúnaði vestanhafs. Stöðug inntaka þeirra drepur veikustu bakteríurnar, en þær sterkustu þróa þol gegn lyfjunum. Þannig verða til lyfjaónæmar bakteríur sem ógna heilsu manna. Neytendasamtök og lýðheilsufræðingar um allan heim hafa þrýst mjög á framleiðendur og stjórnvöld að hætta eða banna notkun sýklalyfja í dýrahaldi og með ákvörðun sinni bætist Costco í þann hóp sem vill að þetta gangi eftir.
(Sjá frétt News Daily 5. mars).

Sýklalyf stórlega ofnotuð við hálsbólgu

PillurLæknar eru alltof viljugir að ávísa sýklalyfjum við hálsbólgu og bráðri berkjubólgu ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar vísindamanna við Harvardháskóla í Bandaríkjunum sem sagt er frá í tímaritinu JAMA Internal Medicine. Þarlendis ávísi læknar sýklalyfjum til 60% þeirra sem leita til þeirra vegna hálsbólgu, og þegar um berkjubólgu er að ræða er hlutfallið 73%. Þetta gerist þrátt fyrir að aðeins 10% hálsbólgutilfella og nær engin berkjubólgutilfelli stafi af bakteríusýkingum. Þessi mikla og gagnslausa sýklalyfjanotkun stuðli að vexti lyfjaónæmra baktería, auk þess sem fólk sé þarna að setja eitthvað inn í líkamann sem hann hafi enga þörf fyrir en stuðli þess í stað að aukaverkunum á borð við ofnæmi, sveppasýkingar og ógleði.
(Sjá frétt Science Daily 4. október).