Loftmengun eykur líkur á offitu

beijingLoftmengun í því magni sem þekkist í Peking truflar starfsemi hjarta- og æðakerfis, lungna og öndunarfæra og eykur auk þess líkur á offitu, ef marka má nýja rannsókn frá Duke University. Rannsóknin var gerð á músum á tilraunastofu þar sem hópur af músum bjó í Peking-lofti og samanburðarhópur í hreinu lofti. Eftir um 20 daga var orðinn mikill munur á líkamlegu ástandi músanna. Mýsnar sem höfðu verið í menguðu lofti voru almennt þyngri en hinar þrátt fyrir sömu matarskammta. Þær höfðu einnig 50% hærra lágþéttnikólesteról, 46% meira þríglýseríð, 97% hærra samanlagt kólesterólmagn og meira insúlínþol, sem er undanfari sykursýki 2. Þessar niðurstöður eru í takt við fyrri rannsóknir sem gefa til kynna að loftmengun auki insúlínþol og breyti efnaskiptum í fituvef. Samkvæmt þessu má ætla að barátta gegn loftmengun geti skipt miklu máli til að sporna gegn offitu hjá fólki, en offita er nú þegar mikil ógn við lýðheilsu.
(Sjá frétt Science Daily 19. febrúar).

2.500 mengandi fyrirtækjum lokað í Peking

Yfirvöld í Peking hafa tilkynnt að þau hyggist loka 2.500 litlum mengandi fyrirtækjum í borginni á þessu ári til að stuðla að bættum loftgæðum. Í desember var öðru sinni lýst yfir rauðu ástandi í borginni vegna loftmengunar, en þá er skólum lokað og bannað að vinna utanhúss. Á árinu 2015 mældist fínt svifryk (<2,5 µm) að meðaltali 80,6 míkrógrömm á rúmmetra í Peking, en það er um 1,3 sinnum meira en landslög kveða á um. Fyrirtækin sem lokað verður eru m.a. veitingastaðir, hótel og verkstæði. Yfirvöld í Kína hyggjast draga úr kolabrennslu og loka mengandi stóriðju, en ólíklegt þykir að landið nái markmiðum sínum um loftgæði fyrr en eftir 2030.
(Sjá frétt Reuters 9. janúar).

Loftmengun dregur úr fæðingarþyngd

beijing_160Börn sem fæddust mánuði eftir Ólympíuleikana í Peking 2008 voru um 23 g þyngri en börn sem fæddust á sama tíma árs árin 2007 og 2009. Í aðdraganda leikanna og á meðan á þeim stóð gripu stjórnvöld til margvíslegra aðgerða til að draga úr loftmengun í borginni, svo sem með því að takmarka umferð, loka stóriðjuverum og stöðva byggingarverkefni. Þessar aðgerðir höfðu í för með sér 60% samdrátt í styrk brennisteinstvíoxíðs (SO2), 48% minni kolsýring (CO), 43% minna köfnunarefnistvíoxíð (NO2) og samdrátt í magni svifryks. Raundæmarannsókn Læknaseturs Háskólans í Rochester benti til að meiri fæðingarþyngd á þessu tímabili væri afleiðing af aðgerðum til að draga úr loftmengun. Loftmengun getur haft mikil áhrif á vöxt og þróun fósturs á síðasta stigi meðgöngu, enda fer mikið af líkamlegum vexti, þróun miðtaugakerfis, hjarta- og æðakerfis og vöðvakerfis fram á þessu stigi.
(Sjá frétt Science Daily í dag).

Rafbílar draga úr hitamyndun í stórborgum

EV_Beijing_160Rafbílar gefa frá sér um 80% minni hita en hefðbundnir bensínbílar og geta því dregið úr hitamyndun í stórborgum samkvæmt nýrri skýrslu um falinn ávinning rafbíla sem Háskólinn í Michigan gaf út á dögunum. Svokallaðar hitaeyjar (e. urban heat islands) myndast iðulega á sumrin í þéttbýlustu hlutum stórborga og hafa slíkar hitaeyjar m.a. verið til vandræða í Peking. Hitabylgjur hafa í för með sér aukinn heilbrigðiskostnað og hækkaða dánartíðni og í því sambandi getur hækkun hitastigs um 1°C skipt sköpum. Í umræddri skýrslu kemur fram að rafbílavæðing Pekingborgar myndi lækka hitastig í hitabylgjum um 1°C, en við það myndi orkunýting vegna loftræstingar minnka um 14,4 milljónir kWh og dregið yrði úr koltvísýringslosun um 11.779 tonn á dag. Rafbílar geta þannig stuðlað að bættum lífsgæðum íbúa í stórborgum.
(Sjá frétt ENN í dag).