Græn svæði draga úr líkum á langvinnum veikindum

treesGrænn gróður í nærumhverfi fólks dregur úr líkum á langvinnum sjúkdómum á borð við sykursýki og háan blóðþrýsting ef marka má nýja lýðheilsurannsókn Háskólans í Miami. Í rannsókninni var farið yfir sjúkrasögu 250.000 einstaklinga 65 ára og eldri og niðurstöðurnar bornar saman við greiningu á gróðurfari út frá gervihnattamyndum NASA. Fram kom mikill munur á heilsufari eldri borgara á svæðum þar sem mikið var um gróður, en þar voru líkur á sykursýki 14% lægri en annars staðar, líkur á háþrýstingi 13% lægri og líkur á of hárri blóðfitu 10% lægri. Þessi munur er talinn stafa af meiri útiveru, líkamlegri áreynslu, meiri samskiptum og streitulosun, en gróður getur einnig haft kælandi áhrif og bætt loftgæði. Mestur munur var í tekjulágum hverfum, en þar hafði gróður enn meiri jákvæð áhrif á heilsuna. Niðurstöðurnar styrkja fyrri rannsóknir og eru til þess fallnar að ýta enn frekar undir áherslu á græn svæði í þéttbýlisskipulagi og til þess að hvetja stofnanir og aðra fasteignaeigendur til að gera ráð fyrir gróðri og grænum svæðum við nýbyggingar.
(Sjá frétt Science Daily 21. apríl).

Rafbílar gætu dregið verulega úr innflutningi eldsneytis

The-BMW-i3-is-representat-160Rafbílavæðing Bretlands gæti þýtt um 40% samdrátt í innflutningi eldsneytis til ársins 2030 á sama tíma og bílstjórar myndu spara um 13 milljarða sterlingspunda (um 2.700 milljarða ísl. kr.) samkvæmt hagrannsóknum Háskólans í Cambridge. Jafnframt myndi þetta þýða um 47% samdrátt í losun koltvísýrings, auk mikils samdráttar í útblæstri köfnunarefnisoxíðs og svifryks, sem gæti einn og sér sparað heilbrigðiskerfinu milljarð punda. Í rannsókninni er gert ráð fyrir að um 6 milljónir rafbíla verði á götum Bretlands árið 2030, en þróunin veltur þó á því að aukin áhersla verði lögð á uppbyggingu innviða. Þétt og öruggt net hleðslustöðva dregur verulega úr drægnikvíða (e. range anxiety) sem er ein helsta ástæða þess að almenningur hikar við að breyta yfir í rafbíla. Á sama tíma og rafbílavæðing getur dregið verulega úr kostnaði vegna öndunarfærasjúkdóma myndi hún skapa 7.000-19.000 ný störf og verg þjóðarframleiðsla myndi aukast vegna minni innflutnings olíu.
(Sjá frétt the Guardian í dag).

Ný áætlun um græna innviði

Green infrastructure EDIEÍ gær samþykkti Framkvæmdastjórn ESB nýja áætlun um uppbyggingu grænna innviða í álfunni, en grænir inniviðir einkennast af því að þar eru náttúrlegir ferlar markvisst fléttaðir inn í skipulag svæða. Framkvæmdastjórnin telur að aukin áhersla á græna innviði hafi í för með vistfræðilegan, efnahagslegan og félagslegan ávinning, enda sé þar leitað leiða til að vinna með náttúrunni en ekki gegn henni. Slíkar lausnir séu oft ódýrari og endingarbetri en önnur úrræði sem byggjast á hefðbundinni byggingarverkfræði. Um leið séu sköpuð ný störf og vistlegri borgir. Fyrir lok þessa árs mun framkvæmdastjórnin gefa út leiðarvísi um uppbyggingu grænna innviða og á næsta ári verður komið á sérstakri stofnun í samvinnu við Evrópska fjárfestingarbankann til að fjármagna verkefni sem falla að áætluninni.
(Sjá frétt EDIE í dag).