Hættuleg efni í frárennslisvatni frá bergbroti

fracking_160Frárennslisvatn frá bergbroti (e. fracking) getur innihaldið þungmálma á borð við kvikasilfur, króm og arsen, auk annarra skaðlegra efna, að því er fram kom nýlega í viðamikilli rannsókn Rice Háskólans í Bandaríkjunum. Styrkur efnanna er oft yfir löglegum mörkum fyrir drykkjarvatn, en málmarnir leysast úr berginu þegar vatninu er dælt niður. Um 50 lífræn efni fundust í vatninu, þ.á.m. krabbameinsvaldandi efni á borð við tólúen og etýlbensen. Halógenuð kolvetni fundust einnig í öllum sýnum, en þessi efni eru notuð til að hreinsa frárennslisvatn til að hægt sé að nota það aftur. Efnin geta skaðað lifur og taugakerfi. Hins vegar kom það á óvart að PAH-efni skyldu ekki greinast í vatninu, en slík efni er yfirleitt að finna í frárennslisvatni frá námu- og kolavinnslu. Rannsóknin undirstrikar þörfina fyrir auknar rannsóknir á umhverfisáhrifum bergbrots og mikilvægi hreinsunar og meðhöndlunar frárennslisvatns.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 19. febrúar).

Bergbrot bannað í Skotlandi

fracking_skotland_160Skoska ríkisstjórnin tilkynnti í gær um tímabundið bann við bergbroti til gasvinnslu. Með þessu vill ríkisstjórnin gefa almenningi, frjálsum félagasamtökum og öðrum færi á að koma skoðunum sínum á framfæri, auk þess sem yfirvöld fá tíma til að fara yfir rannsóknir á áhrifum gasvinnslu á umhverfi og samfélag. Engin starfsleyfi fyrir óhefðbundna olíu- og gasvinnslu verða gefin út fyrr en ríkisstjórn Skotlands hefur tekið endanlega ákvörðun um slíka vinnslu, byggða á heildstæðu mati. Með þessu fylgir Skotland í fótspor Frakklands, Írlands, Hollands og New York ríkis, sem öll hafa stöðvað bergbrot til gasvinnslu. Náttúruverndarsamtök og önnur frjáls félagasamtök fagna banninu og er haft eftir talsmanni Vina jarðar (Friends of the Earth) að samtökin hafi fulla trú á að bergbrot verði bannað varanlega eftir að ríkisstjórnin hefur farið yfir þau gögn sem liggja fyrir um áhrif vinnslunnar á umhverfi og lýðheilsu.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Skaðleg efni notuð við jarðgasvinnslu

natural gasEfni sem notuð eru við óhefðbundna olíu- og gasvinnslu með bergbroti (e. fracking) hafa skaðleg áhrif á lýðheilsu samkvæmt nýrri skýrslu frá Háskólanum í Missouri, þar sem dregnar voru saman niðurstöður rúmlega 150 rannsókna á áhrifum þessara efna. Sérstaklega var rýnt í fyrirliggjandi gögn um áhrif efnanna á æxlunarstarfsemi og þroska. Efnin sem notuð eru við bergbrot hafa fundist í lofti og vatni í grennd við vinnslusvæðin, en samtals búa um 15 milljónir Bandaríkjamanna í innan við tveggja km fjarlægð frá slíkum svæðum. Fáar rannsóknir eru til um bein áhrif á fólk en tilraunir á rannsóknarstofum gefa til kynna að efnakokteillinn sem notaður er tengist heilsufarsvandamálum á borð við ófrjósemi, fósturlát, skertan fósturþroska, fæðingargalla og slök sæðisgæði.
(Sjá frétt Science Daily 5. desember).