Umhverfismeðvituð aldamótabörn

Svíar sem fæddir eru á fyrsta áratug 21. aldar eru umhverfismeðvitaðri og félagssinnaðri en fólk sem fæddist á 10. áratugnum og leggja meiri áherslu á jafnrétti, umhyggju, velferð og sjálfbærni. Aldamótakynslóðin er almennt þeirrar skoðunar að árið 2040 verði meira borðað af heimaræktuðum mat og grænmetisfæði en nú og að heimili og borgir verði að meira leyti sjálfum sér nóg um fæðu. Þetta kom fram í viðamikilli viðhorfskönnun sem sænska verslunarkeðjan ICA lét gera í vetur og vor.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 10. maí).

Græn svæði draga úr líkum á langvinnum veikindum

treesGrænn gróður í nærumhverfi fólks dregur úr líkum á langvinnum sjúkdómum á borð við sykursýki og háan blóðþrýsting ef marka má nýja lýðheilsurannsókn Háskólans í Miami. Í rannsókninni var farið yfir sjúkrasögu 250.000 einstaklinga 65 ára og eldri og niðurstöðurnar bornar saman við greiningu á gróðurfari út frá gervihnattamyndum NASA. Fram kom mikill munur á heilsufari eldri borgara á svæðum þar sem mikið var um gróður, en þar voru líkur á sykursýki 14% lægri en annars staðar, líkur á háþrýstingi 13% lægri og líkur á of hárri blóðfitu 10% lægri. Þessi munur er talinn stafa af meiri útiveru, líkamlegri áreynslu, meiri samskiptum og streitulosun, en gróður getur einnig haft kælandi áhrif og bætt loftgæði. Mestur munur var í tekjulágum hverfum, en þar hafði gróður enn meiri jákvæð áhrif á heilsuna. Niðurstöðurnar styrkja fyrri rannsóknir og eru til þess fallnar að ýta enn frekar undir áherslu á græn svæði í þéttbýlisskipulagi og til þess að hvetja stofnanir og aðra fasteignaeigendur til að gera ráð fyrir gróðri og grænum svæðum við nýbyggingar.
(Sjá frétt Science Daily 21. apríl).

Grænmeti framleitt á þökum

vegetables_160Hægt væri að framleiða um 75% af öllu grænmeti sem neytt er í stórborgum innan borgarmarkanna samkvæmt raundæmarannsókn sem gerð var í Bologna á Ítalíu á árunum 2012 til 2014. Í rannsókninni kom fram að ef öll flöt þök í Bologna væru nýtt til ræktunar mætti framleiða þar um 12.500 tonn af grænmeti sem samsvarar um 77% af grænmetisneyslu borgarbúa. Þessi grænu þök myndu um leið bæta loftgæði í borginni, stuðla að líffræðilegri fjölbreytni og fanga um 624 tonn af koltvísýringi árlega. Einnig gætu grænu þökin dregið úr hita- og hljóðmyndun og bætt þannig lífsskilyrði. Í raundæminu var ræktað salat, kál, kaffifífill, tómatar, eggaldin, eldpipar, melónur og vatnsmelónur og þrjár mismunandi ræktunaraðferðir skoðaðar til að finna út hvernig hægt væri að hámarka framleiðslu á litlum svæðum innan borgarmarkanna.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 26. mars).

Borgarlandbúnaður mikilvægur á heimsvísu

UrbanFarmingLandbúnaður í þéttbýli verður æ mikilvægari fyrir fæðuöryggið í heiminum samkvæmt nýrri rannsókn sem sagt var frá í tímaritinu Environmental Research Letters á dögunum. Hópur vísindamanna notaði gervitunglamyndir til að skoða landbúnaðarstarfsemi innan 20 km fjarlægðar frá þéttbýli og komst að því að þessi starfsemi nýtir land á stærð við allt Evrópusambandið. Vísindamennirnir benda á að stefnumótun í landbúnaði taki einungis til starfsemi í dreifbýli og geri þannig lítið úr framlagi borgarlandbúnaðar. Landbúnaður í þéttbýli færi neytendann nær framleiðslunni, auk þess sem ræktunin geti átt stóran þátt í vatnsstjórnun. Þannig er áætlað að ræktun í Accra, höfuðborg Ghana, hreinsi meira skólp en allar skólphreinsistöðvar í borginni. Hingað til hefur gjarnan verið litið á landbúnað í þéttbýli sem „dropa í hafið“ en rannsóknin er ein fyrsta sönnun þess að þessi starfsemi hafi verið stórlega vanmetin.
(Sjá frétt BBC 25. nóvember).

Ostrusveppir ræktaðir í kaffikorgi

Ostrusveppir Exeter 160Samtök með aðsetur í Devon í Englandi hófu nýlega að nýta kaffikorg til ræktunar á ostrusveppum í ónotuðu skrifstofuhúsnæði í Exeter. Áætlað er að Bretar drekki um 80 milljón bolla af kaffi daglega, en innan við 1% af kaffibaununum kemst í raun alla leið í bollann. Afgangurinn fer að mestu leyti í urðun. Kaffikorgur er næringarríkur og sveppirnir góður próteingjafi. Aðstandendur verkefnisins benda á að ræktun af þessu tagi henti einkar vel í borgum þar sem mest fellur til af úrgangi og mest eftirspurn er eftir fæðu. Það er von þeirra að verkefnið stuðli jafnframt að eflingu landbúnaðar í öðrum borgum.
(Sjá umfjöllun Waste Management World 19. september).