Efni sem notuð eru við óhefðbundna olíu- og gasvinnslu með bergbroti (e. fracking) hafa skaðleg áhrif á lýðheilsu samkvæmt nýrri skýrslu frá Háskólanum í Missouri, þar sem dregnar voru saman niðurstöður rúmlega 150 rannsókna á áhrifum þessara efna. Sérstaklega var rýnt í fyrirliggjandi gögn um áhrif efnanna á æxlunarstarfsemi og þroska. Efnin sem notuð eru við bergbrot hafa fundist í lofti og vatni í grennd við vinnslusvæðin, en samtals búa um 15 milljónir Bandaríkjamanna í innan við tveggja km fjarlægð frá slíkum svæðum. Fáar rannsóknir eru til um bein áhrif á fólk en tilraunir á rannsóknarstofum gefa til kynna að efnakokteillinn sem notaður er tengist heilsufarsvandamálum á borð við ófrjósemi, fósturlát, skertan fósturþroska, fæðingargalla og slök sæðisgæði.
(Sjá frétt Science Daily 5. desember).