Sainsbury’s hættir með „tveir-fyrir-einn“ tiboð

SainsburyRisaverslunarkeðjan Sainsbury’s hefur ákveðið að draga úr svokölluðum „tveir-fyrir-einn“ tilboðum og leggja þannig áherslu á almennt lægra vöruverð og minni sóun. Talsmenn keðjunnar segja að neysluvenjur fólks hafi breyst mikið og að viðskiptavinir kvarti nú yfir að slík tilboð hafi í för með sér mikla sóun á mat og drykk, þar sem þau hvetji til óhóflegrar neyslu og óþarfra innkaupa. Þá hafi tilboð af þessu tagi í för með sér vandamál á heimilum þar sem geymslupláss verður of lítið og úrgangsmagn eykst. Yfirvöld hafa sömuleiðis gagnrýnt slík tilboð, m.a. vegna þess að þau gilda oftar en ekki um vöruflokka sem innihalda mikinn sykur og eru því ógn við lýðheilsu. Hætt verður að mestu með þessi tilboð í verslunum Sainsbury’s í ágúst 2016.
(Sjá frétt the Guardian 11. febrúar).

Fyrsta vetnisstöðin við verslunarmiðstöð

SainsburySainsbury’s verslunarkeðjan mun síðar á þessu ári verða fyrsta fyrirtækið í Bretlandi sem kemur upp vetnisstöð fyrir viðskiptavini á bílastæði verslunarmiðstöðvar. Fjöldi vetnisbíla á götum Bretlands vex frá degi til dags og að sögn talsmanns Sainsbury’s er það sérstakt ánægjuefni að vera fyrstur til að bjóða viðskiptavinum upp á þjónustu af þessu tagi. Stöðin er hluti af verkefninu London Hydrogen Network Expansion (LHNE) sem er styrkt af ríkisstjórninni. Stjórnvöld í Bretlandi ákváðu nýlega að verja 11 milljónum sterlingspunda (tæplega 2,2 milljörðum ísl. kr.) til að byggja upp innviði fyrir vistvæn ökutæki í Bretlandi, þar af 7 milljónum punda í uppsetningu allt að 7 áfyllingarstöðva fyrir vetnisbíla.
(Sjá frétt EDIE 28. október).