Eldfim á í Ástralíu!

australiaSvo mikið metangas streymir nú inn í Condamine ána í Queensland í Ástralíu að hægt er að kveikja í ánni. Á þessu svæði er mikið af jarðgasi unnið með bergbroti (e. fracking) en ástralski græningjaflokkurinn hefur beitt sér fyrir því að slík starfsemi verði bönnuð í landinu. Formaður flokksins bar sjálfur eld að ánni til að ganga úr skugga um gasinnihaldið. Eldurinn logaði í klukkutíma samfellt.
(Sjá frétt ENN 23. apríl).

Ekkert jarðefnaeldsneyti í almenningssamgöngum á Skáni

skanetrafikenÞann 1. desember skiptu allir strætóar í Malmö úr jarðgasi yfir í lífgas, en aðgerðin var sú síðasta í röð verkefna sem miðuðu að því að ekkert jarðefnaeldsneyti yrði notað í almenningssamgöngum í bæjum á Skáni í árslok 2015. Allir innanbæjarstrætóar á Skáni keyra nú á lífgasi auk þess sem fimm sporvagnar í Landskrona ganga fyrir endurnýjanlegu rafmagni. Á Skáni er mikið framleitt af lífgasi í gas- og jarðgerðarstöðum. Jarðgas og lífgas er efnafræðilega sama efni (metan) og er dreift í sama dreifikerfi og því þurfa kaupendur upprunavottorð frá dreifingaraðila sem staðfestir að keypt hafi verið lífgas en ekki jarðgas. Óháður vottunaraðili gengur úr skugga um að dreifingaraðilar selji ekki sama vottorðið oftar en einu sinni. Næsta markmið er að hætta notkun jarðefnaeldsneytis í almenningssamgöngum á milli sveitarfélaga. Þessu markmiði ætla Skánverjar að ná fyrir árið 2018.
(Sjá frétt Sydsvenskan í dag).

Hvaða eldsneyti er „óbrennanlegt“?

kolanama_160Um þriðjungur þekktra olíulinda, um helmingur jarðgass og meira en 80% af kolaforða heimsins er „óbrennanlegt kolefni“, sem þarf að liggja ósnert ef koma á í veg fyrir að hitastig jarðar hækki um meira en 2°C. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem sagt var frá í grein í Nature á dögunum, en í rannsókninni var leitast við að greina „óbrennanlegt kolefni“ eftir svæðum og tegundum eldsneytis. Samkvæmt þessu telst meirihluti af kolaforða Kína, Rússlands og Bandaríkjanna „óbrennanlegur“, svo og um 260 milljónir olíutunna úr lindum í Mið-Austurlöndum og um 60% jarðgass á sömu slóðum. Rannsóknin undirstrikar einnig að vinnsla jarðefnaeldsneytis á Norðurheimskautssvæðinu samrýmist ekki viðleitninni til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Aðalhöfundur greinarinnar, Dr Christophe McGlade, hefur haft á orði að stjórnvöld sem hyggi á frekari vinnslu þessara auðlinda þurfi að svara þeirri spurningu hvaða eldsneytislindir á öðrum svæðum eigi að liggja ósnertar í staðinn.
(Sjá frétt Science Daily 7. janúar).

Skaðleg efni notuð við jarðgasvinnslu

natural gasEfni sem notuð eru við óhefðbundna olíu- og gasvinnslu með bergbroti (e. fracking) hafa skaðleg áhrif á lýðheilsu samkvæmt nýrri skýrslu frá Háskólanum í Missouri, þar sem dregnar voru saman niðurstöður rúmlega 150 rannsókna á áhrifum þessara efna. Sérstaklega var rýnt í fyrirliggjandi gögn um áhrif efnanna á æxlunarstarfsemi og þroska. Efnin sem notuð eru við bergbrot hafa fundist í lofti og vatni í grennd við vinnslusvæðin, en samtals búa um 15 milljónir Bandaríkjamanna í innan við tveggja km fjarlægð frá slíkum svæðum. Fáar rannsóknir eru til um bein áhrif á fólk en tilraunir á rannsóknarstofum gefa til kynna að efnakokteillinn sem notaður er tengist heilsufarsvandamálum á borð við ófrjósemi, fósturlát, skertan fósturþroska, fæðingargalla og slök sæðisgæði.
(Sjá frétt Science Daily 5. desember).