Græn útileiksvæði styrkja ónæmiskerfið

Leikskólabörn sem leika sér á náttúrulegum leiksvæðum með fjölbreyttum gróðri hafa sterkara ónæmiskerfi en börn sem leika sér í sandkössum og á malarlóðum. Með því að gera leiksvæðin náttúrulegri er meira að segja hægt að styrkja ónæmiskerfi barnanna umtalsvert á aðeins fjórum vikum. Þetta er niðurstaða rannsóknar finnskra vísindamanna sem sagt var frá í tímaritinu Science Advances í fyrradag. Eftir 28 daga höfðu náttúrusvæðabörnin þriðjungi fjölbreyttari örverur á húðinni en sandkassabörnin og munurinn á örveruflórunni í þörmum barnanna var marktækur. Þá sýndu blóðprufur jákvæðar breytingar í mælingum á mörgum próteinum og frumum sem tengjast ónæmiskerfinu, þ.m.t. T-frumum. Jákvæð áhrif náttúrulegu svæðanna eru talin liggja í því að þar eru börnin í snertingu við mun fjölbreyttara lífríki, sem er lykillinn að styrkingu ónæmiskerfisins. Þetta getur hugsanlega skipt máli til að fyrirbyggja sjálfsofnæmissjúkdóma á borð við astma, excem, sykursýki 1, MS og bólgusjúkdóma í meltingarfærum (IBD), en tíðni þessara sjúkdóma hefur vaxið hratt á Vesturlöndum á síðustu árum.
(Sjá frétt The Guardian 14. október).

LED-ljós stuðla að ljósmengun

Aukin notkun orkusparandi LED-lýsingar hefur leitt til aukinnar ljósmengunar, enda er LED-lýsing mun ódýrari í rekstri en hefðbundin lýsing. Í nýrri úttekt sem sagt er frá í vísindatímaritinu Science Advances kemur fram að það flatarmál jarðar sem lýst er upp með manngerðum ljósum hafi stækkað um 2,2% á ári á tímabilinu 2012-2016. Mest er aukningin í Afríku, Suður-Ameríku og Asíu á svæðum sem hingað til hafa einungis verið lýst upp með dagsbirtunni. Höfundar úttektarinnar gera ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram og benda á að þetta feli í sér ljósmengun sem geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir dýr, plöntur og aðrar lífverur, þ.m.t. menn. Ljós hefur m.a áhrif á náttúrulega klukku lífvera og aukin lýsing getur stuðlað að svefntruflunum og jafnvel heilsuvandamálum á borð við sykursýki, háþrýsting og þunglyndi.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet 22. desember).

Loftmengun eykur líkur á offitu

beijingLoftmengun í því magni sem þekkist í Peking truflar starfsemi hjarta- og æðakerfis, lungna og öndunarfæra og eykur auk þess líkur á offitu, ef marka má nýja rannsókn frá Duke University. Rannsóknin var gerð á músum á tilraunastofu þar sem hópur af músum bjó í Peking-lofti og samanburðarhópur í hreinu lofti. Eftir um 20 daga var orðinn mikill munur á líkamlegu ástandi músanna. Mýsnar sem höfðu verið í menguðu lofti voru almennt þyngri en hinar þrátt fyrir sömu matarskammta. Þær höfðu einnig 50% hærra lágþéttnikólesteról, 46% meira þríglýseríð, 97% hærra samanlagt kólesterólmagn og meira insúlínþol, sem er undanfari sykursýki 2. Þessar niðurstöður eru í takt við fyrri rannsóknir sem gefa til kynna að loftmengun auki insúlínþol og breyti efnaskiptum í fituvef. Samkvæmt þessu má ætla að barátta gegn loftmengun geti skipt miklu máli til að sporna gegn offitu hjá fólki, en offita er nú þegar mikil ógn við lýðheilsu.
(Sjá frétt Science Daily 19. febrúar).