Umhverfisyfirréttur Svíþjóðar (Mark- och miljööverdomstolen) hefur úrskurðað að óheimilt sé að opna kalknámu í Ojnareskógi á Gotlandi, þar sem svæðið njóti verndar sem Natura 2000-svæði. Fyrirtækin Nordkalk og SMA Mineral fengu leyfi til kalkvinnslu á svæðinu árið 2014 en leyfisveitingin var kærð til dómstólsins. Natura 2000-svæðið sem um ræðir var stækkað eftir 2014 en samkvæmt úrskurði dómstólsins ber að taka tillit til áhrifa kalkvinnslunnar á hið stækkaða svæði, þó að vinnsluleyfi hafi verið veitt fyrir stækkun, enda hafi stækkunin verið staðfest fyrir dómi. Kalkvinnslan myndi spilla þessu svæði og því skuli hún óheimil. Fyrirtækin sem í hlut eiga geta áfrýjað úrskurðinum til Hæstaréttar (Högsta domstolen) en ólíklegt þykir að Hæstiréttur hnekki úrskurðinum, þar sem hann fjallar um flókin vatnafræðileg og náttúruvísindaleg viðfangsefni sem Hæstiréttur mun tæplega taka til skoðunar. Úrskurðurinn þykir mikill sigur fyrir heimamenn og aðra sem lengi hafa barist gegn umræddri kalkvinnslu.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í gær).
Greinasafn fyrir merki: Náttúruvernd
Dreifbýlið og sjórinn næra sálina
Dvöl á strandsvæðum og á náttúrulegum svæðum utan þéttbýlis hafa meiri jákvæð áhrif á andlega líðan fólks en dvöl á grænum svæðum innan borgarmarka, að því er fram kemur í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Environment & Behavior. Þá virðast heimsóknir í þjóðgarða og önnur friðuð svæði hafa jákvæðari áhrif ef aðgangur að þeim er ókeypis og öllum opinn. Áður hefur verið sýnt fram á að náttúruupplifun dragi úr streitu og bæti líðan fólks, en þetta er í fyrsta sinn sem greint er á milli áhrifa mismunandi svæða.
(Sjá frétt Science Daily 31. október).
Hávaði ógnar friðlýstum svæðum
Hljóð frá athöfnum manna hafa veruleg neikvæð áhrif á lífríki og upplifun gesta á flestum friðlýstum svæðum að því er fram kemur í rannsókn sem sagt var frá í tímaritinu Science í síðustu viku. Rannsóknin, sem er sú fyrsta sinnar tegundar, leiddi í ljós að á 63% friðlýstra svæða í Bandaríkjunum nam hljóðmengun tvöföldu bakgrunnsgildi og á 21% allra svæðanna var hljóðmengun tíföld eða meiri. Á þessum svæðum, sem taka til allt að 90% alls flatarmáls friðaðra svæða, er ekki lengur hægt að heyra náttúruhljóð, nema þá í besta falli í mjög lítilli fjarlægð. Þetta spillir gildi svæðanna til hvíldar og slökunar, auk þess sem framandi hljóð trufla eða styggja dýr og geta leitt til breyttrar tegundasamsetningar. Jafnvel plöntur verða fyrir áhrifum vegna breytinga á lífsháttum skordýra sem bera frjó á milli plantna. Algengast er að hljóðmengun berist frá flugumferð, vegakerfi, iðnaði eða byggð. Aðstandendur rannsóknarinnar telja mikilvægt að vernda hljóðvist á þeim svæðum sem enn eru tiltölulega ósnortin af utanaðkomandi hávaða.
(Sjá frétt Science Daily 4. maí).
10% af víðernum jarðar eyðilögð á 25 árum
Mannkynið hefur eytt 10% af víðernum jarðar á síðustu 25 árum að því er fram kemur í nýjum rannsóknarniðurstöðum. Sérfræðingar óttast að með sama áframhaldi verði engin víðerni eftir óröskuð eftir 100 ár. Frá árinu 1993 hafa um 3,3 milljónir ferkílómetra af víðernum verið lagðir undir athafnir manna, en það samsvarar 33-földu flatarmáli Íslands. Um þriðjungur þessarar eyðingar hefur átt sér stað á Amazonsvæðinu og 14% í miðhluta Afríku, þar sem m.a. var að finna þúsundir tegunda af lífverum, þ.á m. skógarfíla og simpansa. Þessi þróun mála kemur ekki eingöngu hart niður á tegundum í útrýmingarhættu, heldur felur hún líka í sér mikla loftslagsógn þar sem gríðarlegt magn af kolefni losnar út í andrúmsloftið við eyðingu skóga. Víðerni eru í þessu samhengi skilgreind sem svæði sem eru „að miklu leyti ósnortin vistfræðilega“ og „að mestu laus við truflun af mannavöldum“.
(Sjá frétt The Guardian í gær).
Mörg svæði á heimsminjaskrá í hættu vegna olíuvinnslu
Um þriðjungur allra náttúrufyrirbæra á heimsminjaskrá UNESCO (70 af 229) er í hættu vegna umsvifa olíu- og námufyrirtækja að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem náttúruverndarsamtökin WWF hafa unnið í samvinnu við fjárfestingarsjóðina Aviva Investors og Investec. Þar á meðal eru flestöll slík náttúrufyrirbæri í Afríku. Allmörg námufyrirtæki hafa gerst aðilar að svonefndri „no go“ yfirlýsingu sem felur í sér fyrirheit um að stunda ekki starfsemi á svæðum á heimsminjaskrá. Hins vegar hafa aðeins örfá olíufélög gert slíkt hið sama. Markaðshlutdeild „no go olíufélaga“ er þannig aðeins um 2% á heimsvísu.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Nýsjálendingar friða stórt hafsvæði
Nýsjálensk stjórnvöld hafa ákveðið að friða svonefnt Kermadecsvæði á hafinu norður af landinu, en á þessu svæði eru m.a. neðansjávareldfjöll og heimkynni sjávardýrategunda í útrýmingarhættu. John Key, forsætisráðherra landsins, tilkynnti um friðunina á fundi Sameinuðu þjóðanna í gær. Verndarsvæðið verður eitt af þeim stærstu í heimi, eða um 620.000 ferkílómetrar (sexföld stærð Íslands). Friðunin kom námufyrirtækjum í opna skjöldu, en nokkur þeirra höfðu uppi áform um vinnslu jarðefna af sjávarbotni á þessu svæði.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Mikil uppsveifla í ólöglegri sölu villtra dýra og plantna
Um 33.000 villt dýr og plöntur voru boðin ólöglega til sölu á internetinu á sex vikna tímabili snemma á þessu ári samkvæmt nýrri rannsókn á ólöglegum viðskiptum með villt dýr og plöntur sem Alþjóðasjóður fyrir velferð dýra (IFAW) stóð fyrir í 16 löndum. Heildarverðgildi þessa varnings var um 7 milljónir breskra punda (tæplega 1,4 milljarðar ísl. kr.). Í rannsókninni fundust meðal annars auglýsingar um lifandi tígrisdýr, órangútana, simpansa, górillur, eðlur og froska, auk nashyrnings- og fílabeina og snjóhlébarða- og ísbjarnarfelda svo eitthvað sé nefnt. Flestar auglýsingar fundust á kínverskum heimasíðum, en rússneskar og úkraínskar síður voru einnig áberandi. Samtökin telja mikla uppsveiflu hafa orðið í þessum viðskiptum á síðustu árum og benda á að rannsóknin hafi aðeins náð yfir örlítinn hluta netheima. Lögregluyfirvöld í Bretlandi hafa nú fengið nokkur mál úr rannsókninni til skoðunar.
(Sjá frétt the Guardian í dag).
Átaks þörf í náttúruvernd
Ríkissstjórnir heimsins þurfa að gera mun betur en þær hafa gert síðustu ár til að ná náttúruverndarmarkmiðum sem sett hafa verið fyrir árið 2020. Þetta kemur fram í skýrslunni „Global Biodiversity Outlook“ sem kynnt var við upphaf 12. ráðstefnu aðildarríkja Samningsins um líffræðilega fjölbreytni sem hófst í S-Kóreu í gær. Margt hefur verið vel gert en ef svo heldur sem horfir nást þó aðeins fimm markmið af 53. Öll hin 48 málin eru á eftir áætlun. Best hefur gengið að nálgast markmið um stækkun náttúruverndarsvæða, en mun verr að hægja á eyðingu náttúrulegra búsvæða og fyrirbyggja útdauða tegunda. Áætlað er að þjóðir heims verji nú um 50 milljörðum Bandaríkjadala á ári (um 6.000 milljörðum ísl. kr.) til verkefna af þessu tagi, en fjárþörfin er talin liggja á bilinu 150-440 milljarðar dala. Til mikils er að vinna þegar höfð eru í huga verðmæti þeirrar þjónustu sem náttúran veitir mönnum.
(Sjá frétt PlanetArk í dag)
Everestfarar skyldaðir til að hreinsa fjallið
Frá og með aprílmánuði þurfa Everestfarar að taka með sér 8 kg af rusli á leið sinni niður af fjallinu, umfram sinn eigin farangur. Þetta er liður í viðleitni stjórnvalda í Nepal til að hreinsa hlíðar fjallsins, en þar hefur safnast upp gríðarlegt magn af úrgangi á síðustu árum, þ.m.t. súrefnis- og gaskútar, kaðlar, tjöld, gleraugu, bjórdósir, plastrusl og mannvistarleifar af ýmsu tagi. Þeir sem hlýða ekki þessum nýju reglum verða sektaðir eða þeim refsað á annan hátt.
(Sjá frétt The Guardian 3. mars).