Risaverslunarkeðjan Sainsbury’s hefur ákveðið að draga úr svokölluðum „tveir-fyrir-einn“ tilboðum og leggja þannig áherslu á almennt lægra vöruverð og minni sóun. Talsmenn keðjunnar segja að neysluvenjur fólks hafi breyst mikið og að viðskiptavinir kvarti nú yfir að slík tilboð hafi í för með sér mikla sóun á mat og drykk, þar sem þau hvetji til óhóflegrar neyslu og óþarfra innkaupa. Þá hafi tilboð af þessu tagi í för með sér vandamál á heimilum þar sem geymslupláss verður of lítið og úrgangsmagn eykst. Yfirvöld hafa sömuleiðis gagnrýnt slík tilboð, m.a. vegna þess að þau gilda oftar en ekki um vöruflokka sem innihalda mikinn sykur og eru því ógn við lýðheilsu. Hætt verður að mestu með þessi tilboð í verslunum Sainsbury’s í ágúst 2016.
(Sjá frétt the Guardian 11. febrúar).
Greinasafn fyrir merki: sóun
Breskir stórmarkaðir minnka matarsóum um 20.000 tonn á einu ári
Matarsóun í breskum stórmörkuðum hefur minnkað um 20.000 tonn á einu ári að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem WRAP tók saman fyrir bresku smásölusamtökin BRC. Þarna er um að ræða 10% samdrátt á einu ári, úr 200.000 tonnum í 180.000 tonn. Dagvöruverslanir bera aðeins ábyrgð á rúmlega 1% af matarsóuninni í Bretlandi en þær eru í lykilaðstöðu til að hafa áhrif á sóun í aðfangakeðjunni, bæði meðal birgja og inni á heimilum. Sem dæmi um aðgerðir sem verslanirnar hafa gripið til má nefna að Tesco breytti verklagi í eigin bakaríum þannig að nú eru brauð bökuð oftar og færri í einu, Asda endurhannaði dagsetningar á matvælum til að sporna gegn misskilningi um endingartíma, Sainsbury’s þróaði aðferð til að nota matarúrgang til orkuframleiðslu og Marks & Spencer kom á kerfi til að dreifa afgöngum frá 150 stærstu verslunum keðjunnar til hjálparsamtaka um land allt.
(Sjá frétt EDIE í dag).
90.000 tonnum af fatnaði bjargað frá urðun árlega
Bresku WRAP samtökin um úrgang og auðlindir (Waste & Resources Action Programme) hafa hleypt af stokkunum nýju verkefni til að draga úr fatasóun í Evrópu. Verkefnið, sem gengur undir nafninu ECAP (European Clothing Action Plan), er styrkt af evrópskum sjóðum og nær til 11 Evrópulanda, þ.á.m. allra Norðurlandanna að Íslandi frátöldu. Markmið verkefnisins er að minnka urðun fataúrgangs um 90.000 tonn á ári frá og með árinu 2019.
(Sjá frétt EDIE í dag).
„Best fyrir“ merkingar aflagðar?
Landbúnaðarráðherrar Hollands og Svíþjóðar hafa lagt það til við Framkvæmdastjórn ESB að hætt verði að skylda matvælaframleiðendur til að merkja geymsluþolnar matvörur á borð við hrísgrjón, pasta og kaffi með dagstimplum, enda þoli þessar matvörur mun lengri geymslu en „Best fyrir“ merkingar gefi til kynna. Um 90 milljónum tonna af ætum mat er hent í Evrópu árlega og er talið að þar af megi rekja um 15% til dagsetningarmerkinga. Tillögu ráðherranna er ætlað að draga má úr þessari miklu sóun. Tillagan nýtur nú þegar stuðnings stjórnvalda í Austurríki, Danmörku, Þýskalandi og Lúxemborg, auk Hollands og Svíþjóðar.
(Sjá frétt EDIE í dag).
18.000 tonn af mat í ruslið á einum degi
Talið er að 18.000 tonn af graskerjum lendi í ruslatunnum Breta eftir hrekkjavökuna. Þessi mikla sóun á sér stað á sama tíma og mikil vinna er lögð í ýmis verkefni til að draga úr sóun matvæla. Nóg er til af uppskriftum þar sem grasker koma við sögu, en svo virðist sem fólk hafi ekki áhuga á að nýta sér þær. Mikið af landi og öðrum auðlindum er því lagt undir ræktun á plöntum sem fara næstum því beint í ruslið.
(Sjá frétt EDIE í dag).
Samfélagið stórgræðir á grænni lífsstíl
Ef allir myndu fylgja einföldum ráðleggingum um umhverfismál í daglegu lífi myndi það ekki aðeins draga úr álagi á umhverfið, heldur líka spara samfélaginu stórfé. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem unnin var fyrir Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) og birt var í síðustu viku. Með bættri umhverfishegðun gætu Danir þannig sparað samfélaginu allt að 3,65 milljarða danskra króna árlega, (um 75 milljarða ísl. kr). Ráðin sem um ræðir eru að skila farsímum í endurvinnslu, nota hljóðdeyfandi rúður í hús, nota ekki varnarefni í garða, henda minni mat, kynda hóflega, meðhöndla brotnar sparperur rétt og endurnýta rafhlöður. Mestur ávinningur felst í því að henda minni mat, en ef hvert heimili gæti minnkað matarsóun um 19 kg. á ári myndu 1,7 milljarðar danskra króna sparast í matarinnkaupum, í betri nýtingu auðlinda og í lægri kostnaði vegna mengunar.
(Sjá frétt á heimasíðu danska umhverfisráðuneytisins 29. apríl).
Bónuspunktar fyrir flokkun matarleifa
Frá og með gærdeginum geta íbúar í Windsor & Maidenhead í Englandi (Royal Borough of Windsor & Maidenhead) fengið sérstaka bónuspunkta ef þeir standa sig vel í að halda matarleifum aðskildum frá öðrum heimilisúrgangi. Punktana geta þeir síðan notað sem gjaldmiðil í verslunum á svæðinu. Verkefnið er hið fyrsta sinnar tegundar í Bretlandi og byggir á samstarfi héraðsstjórnarinnar og Recyclebank, sem heldur utan um punktakerfið. Þá hefur sveitarstjórnaráðuneytið styrkt þetta framtak.
(Sjá frétt EDIE í gær).
Gríðarleg verðmæti tapast í urðun
Árlega tapast 2,5 milljarðar sterlingspunda (um 470 milljarðar ísl. kr.) út úr bresku hagkerfi vegna urðunar úrgangs sem hefði mátt nýta betur. Þessum verðmætum væri hægt að bjarga með því að takmarka eða banna urðun úrgangsflokka á borð við matvæli, klæði, timbur og plast, með svipuðum hætti og þegar hefur verið gert með úr sér gengna bíla og raftækjaúrgang. Þetta kemur fram í rannsókn sem unnin var af Green Alliance í Bretlandi. Við kynningu á niðurstöðunum kom m.a. fram að urðun væri enn „hin sjálfgefna leið“ og að því þyrfti að breyta.
(Sjá frétt EDIE í gær).
Stórfyrirtæki taka sig á í matarmálum
Þrír stórir framleiðendur og seljendur matvæla í Bretlandi hafa tekið höndum saman um að draga úr sóun í virðiskeðju matvælanna. Fyrirtækin sem um ræðir eru Nestlé, Sainsbury’s og Co-op, en ákvörðun þeirra kemur í kjölfar skýrslu sem birt var sl. þriðjudag, þar sem teknar voru saman niðurstöður 150 mismunandi athugana á lífsferli matvæla. Í skýrslunni er bent á tilteknar vörur þar sem tækifæri til úrbóta eru hvað mest, en í þeim hópi eru m.a. kartöflur og brauð. Fyrirtækin þrjú munu leggja áherslu á að greina tækifæri til úrbóta hvert á sínu sviði, allt frá bónda að matborði. Vonir standa til að með þessu takist að bæta nýtingu auðlinda og draga verulega úr myndun úrgangs.
(Sjá frétt EDIE 12. mars).
LED-ljós gegn matarúrgangi
Talsmenn velska fyrirtækisins Sedna halda því fram að draga megi verulega úr úreldingu matvöru í verslunum með því einu að nota díóðuljós (LED) í stað hefðbundinnar lýsingar þar sem ferskri matvöru er stillt upp. Díóðuljósin hafa það fram yfir hefðbundin ljós að senda hvorki frá sér hitageisla, útfjólubláa geisla né innrauða geisla. Séu þau notuð er því minni hætta á því en ella að matvæli „svitni“ í umbúðunum og verði óseljanleg. Samtals er áætlað að um 300.000 tonn af matvælum fari til spillis í breskum verslunum árlega, einkum vegna ófullnægjandi geymslu.
(Sjá frétt EDIE í dag).