Norska ríkið fyrir rétt vegna olíuborana

Á morgun hefjast söguleg réttarhöld í Osló, þar sem tekist verður á um það hvort ný leyfi sem norsk stjórnvöld hafa veitt til olíuvinnslu í Barentshafi standist 112. grein norsku stjórnarskrárinnar um rétt komandi kynslóða til heilsusamlegs og öruggs umhverfis. Dómsmálið, sem er hið fyrsta sinnar tegunar, er höfðað af samtökunum Greenpeace og Nature and Youth. Samtökin halda því fram að með því að leyfa þessa starfsemi stefni norsk stjórnvöld fólki og umhverfi í verulega hættu, auk þess sem leyfisveitingarnar stríði gegn Parísarsamkomulaginu. Meðal þeirra sem komnir eru til Oslóar til að fylgjast með réttarhöldunum eru fulltrúar Fiji, sem er í hópi þeirra eyþjóða sem stafar mest ógn af loftslagsbreytingum. Fiji er einmitt í forsæti loftslagsráðstefnunnar (COP23) sem nú stendur yfir í Bonn.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í dag).

Kanada skerpir á loftslagskröfum til nýrra verkefna

Justin TÍ gær kynnti Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, áform um auknar umhverfiskröfur sem gerðar verða til nýrra framkvæmda við olíu- og gaslagnir. Samkvæmt nýju reglunum þurfa verkefnin að fara í gegnum mat á áhrifum á loftslag, bæði vegna verkefnanna sjálfra sem slíkra og vegna vinnslu á olíu eða gasi sem flytja á um leiðslurnar. Með þessu er að sögn Justin Trudeau verið að leggja framkvæmdaaðilum þá skyldu á herðar að sýna fram á að framkvæmdin sé í almannaþágu. Jafnframt er ætlunin að tryggja fleiri stjórnsýslustigum, vísindamönnum og frumbyggjum aukinn aðgang að ákvarðanatöku. Nýju reglurnar munu m.a. gilda við leyfisveitingu vegna fyrirhugaðrar lagningar svonefndrar Energy East leiðslu sem á að flytja 1,1 milljón tunna af hráolíu frá Alberta og Saskatchewan þvert yfir mörg landsvæði til olíuhreinsistöðva og útflutningshafna í austanverðu Kanada. Forsætisráðherrann segir það ekki vera hlutverk sitt að vera klappstýra fyrir verkefni af þessu tagi.
(Sjá frétt Reuters í gær).

BP viðurkennir tilvist óbrennanlegrar olíu

29141Spencer Dale, yfirhagfræðingur olíurisans BP, sagði í ræðu í London á dögunum að stór hluti af þekktum olíu-, gas- og kolabirgðum heimsins verði að liggja í jörðu um ókomin ár til að koma í veg fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda leiði til hitastigshækkunar umfram 2°C. Þetta er afdráttarlausasta yfirlýsingin af þessu tagi frá stóru olíufélögunum enn sem komið er. Í ræðunni vakti Spencer Dale sérstaklega athygli á að inn í þennan reikning væri hvorki búið að taka þær fjölmörgu lindir sem væru að finnast þessi misserin né allt það jarðefnaeldsneyti sem enn væri hvergi skráð sem slíkt. Aðilar á borð við Alþjóðabankann og G20-hópinn hafa lýst áhyggjum af fjárfestingum sem nú þegar kunni að vera strandaðar í olíuverkefnum sem aldrei muni skila arði.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Mörg svæði á heimsminjaskrá í hættu vegna olíuvinnslu

unesco (160x97)Um þriðjungur allra náttúrufyrirbæra á heimsminjaskrá UNESCO (70 af 229) er í hættu vegna umsvifa olíu- og námufyrirtækja að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem náttúruverndarsamtökin WWF hafa unnið í samvinnu við fjárfestingarsjóðina Aviva Investors og Investec. Þar á meðal eru flestöll slík náttúrufyrirbæri í Afríku. Allmörg námufyrirtæki hafa gerst aðilar að svonefndri „no go“ yfirlýsingu sem felur í sér fyrirheit um að stunda ekki starfsemi á svæðum á heimsminjaskrá. Hins vegar hafa aðeins örfá olíufélög gert slíkt hið sama. Markaðshlutdeild „no go olíufélaga“ er þannig aðeins um 2% á heimsvísu.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Verður hætt að skrá olíuskip á Marshalleyjum?

marshall_islandsYfirvöld á Marshalleyjum íhuga að hætta nýskráningum  olíuskipa og borpalla, en eyríkið er nú með þriðju stærstu skipaskrá í heimi þrátt fyrir mikið fámenni. Um 2,5% af landsframleiðslu Marshalleyja má rekja til nýskráningar olíuskipa og borpalla. Ríkið er eitt þeirra verst stöddu í heiminum með tilliti til loftslagsbreytinga, enda er hæsti punktur eyjanna aðeins nokkrum metrum yfir sjávarmáli, auk þess sem óveður á Kyrrahafi hafa orðið tíðari síðustu ár. Utanríkisráðherra Marshalleyja segir að málið sé mjög flókið, því að ef Marshalleyjar hætti skráningu olíubúnaðar þýði það ekki einungis samdrátt í tekjum ríkisins heldur sé líklegt að stórfyrirtæki leiti til annara landa og þá sé vandamálið enn óleyst. Marshalleyjar hafa lagt mikla áherslu á að Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) setji lögbundin losunarviðmið fyrir skipaflotann.
(Sjá frétt the Guardian 13. maí).

Skorað á lífeyrissjóði að hætta „svörtum fjárfestingum“

green_finance_160Félagar í sex lífeyrissjóðum í Danmörku undirbúa nú tillögu um að sjóðirnir láti af „svörtum fjárfestingum“, þ.e. fjárfestingum í orkufyrirtækjum sem byggja afkomu sína á vinnslu jarðefnaeldsneytis. Samtals eru um 200.000 félagar í þessum lífeyrissjóðum og nema fjárfestingarnar alls um 32 milljörðum evra (um 4.700 milljörðum ísl. kr.). Svipuð tillaga kom fram á síðasta ári en var þá felld. Aðstandendur tillögunnar eru hluti af loftslagshreyfingu á heimsvísu sem hefur nú þegar fengið um 180 stofnanir til að draga til baka fjárfestingar í kola-, olíu og gasvinnslu upp á samtals allt að 47 milljörðum evra. Hreyfingin telur að til að hægt verði að komast hjá skelfilegum afleiðingum loftslagsbreytinga þurfi fjárfestar að axla ábyrgð með því að leggja áherslu á „grænar fjárfestingar“.
(Sjá frétt the Guardian í dag).

Hvaða eldsneyti er „óbrennanlegt“?

kolanama_160Um þriðjungur þekktra olíulinda, um helmingur jarðgass og meira en 80% af kolaforða heimsins er „óbrennanlegt kolefni“, sem þarf að liggja ósnert ef koma á í veg fyrir að hitastig jarðar hækki um meira en 2°C. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem sagt var frá í grein í Nature á dögunum, en í rannsókninni var leitast við að greina „óbrennanlegt kolefni“ eftir svæðum og tegundum eldsneytis. Samkvæmt þessu telst meirihluti af kolaforða Kína, Rússlands og Bandaríkjanna „óbrennanlegur“, svo og um 260 milljónir olíutunna úr lindum í Mið-Austurlöndum og um 60% jarðgass á sömu slóðum. Rannsóknin undirstrikar einnig að vinnsla jarðefnaeldsneytis á Norðurheimskautssvæðinu samrýmist ekki viðleitninni til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Aðalhöfundur greinarinnar, Dr Christophe McGlade, hefur haft á orði að stjórnvöld sem hyggi á frekari vinnslu þessara auðlinda þurfi að svara þeirri spurningu hvaða eldsneytislindir á öðrum svæðum eigi að liggja ósnertar í staðinn.
(Sjá frétt Science Daily 7. janúar).

Skaðleg efni notuð við jarðgasvinnslu

natural gasEfni sem notuð eru við óhefðbundna olíu- og gasvinnslu með bergbroti (e. fracking) hafa skaðleg áhrif á lýðheilsu samkvæmt nýrri skýrslu frá Háskólanum í Missouri, þar sem dregnar voru saman niðurstöður rúmlega 150 rannsókna á áhrifum þessara efna. Sérstaklega var rýnt í fyrirliggjandi gögn um áhrif efnanna á æxlunarstarfsemi og þroska. Efnin sem notuð eru við bergbrot hafa fundist í lofti og vatni í grennd við vinnslusvæðin, en samtals búa um 15 milljónir Bandaríkjamanna í innan við tveggja km fjarlægð frá slíkum svæðum. Fáar rannsóknir eru til um bein áhrif á fólk en tilraunir á rannsóknarstofum gefa til kynna að efnakokteillinn sem notaður er tengist heilsufarsvandamálum á borð við ófrjósemi, fósturlát, skertan fósturþroska, fæðingargalla og slök sæðisgæði.
(Sjá frétt Science Daily 5. desember).

Olíuslys í friðlandi í Ísrael

Crude oil streams in desert in south Israel, near the village of Beer Ora, north of EilatMilljónir lítra af olíu flæddu yfir Evrona friðlandið í Ísrael eftir að olíuleiðsla fyrirtækisins Eilat-Ashkelon á svæðinu gaf sig sl. miðvikudag. Talsmaður umhverfisráðuneytis Ísraels segir slysið vera eitt alvarlegasta umhverfisslys í sögu landsins. Evrona friðlandið er þekkt fyrir stórar eyðimerkur, dádýr og sérstæð pálmatré. Olían hefur nú þegar haft neikvæð áhrif á dýra- og plöntulíf á svæðinu og er talið að hreinsun og endurreisn svæðisins muni taka nokkur ár.
(Sjá frétt Planet Ark í dag).

Trilljón tonna yfirlýsingin undirrituð af 70 fyrirtækjum

?????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????Sjötíu stórfyrirtæki, þ.á.m. Shell, BT, Unilever og EDF Energy, hafa undirritað svonefnda Trilljón tonna yfirlýsingu (e. Trillion tonne communiqué), þar sem þau skora á stjórnvöld að móta skýra stefnu til að sporna við loftslagsbreytingum af mannavöldum.Trilljón tonnin (þúsund milljarðar tonna eða billjón tonn skv. íslenskri málvenju), sem yfirlýsingin dregur nafn sitt af er sú samanlagða heildarlosun kolefnis út í andrúmsloftið sem Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) áætlar að muni leiða til tveggja gráðu meðalhækkunar hitastigs á jörðinni. Fyrirtækin vilja að stjórnvöld ríkja heims komi í veg fyrir að heildarlosun fari yfir þessi mörk. Niall Dunne, sjálfbærnistjóri BT, sgir að „við þurfum að komast yfir þann hugsunarhátt að framsækin stefna í loftslagsmálum sé slæm fyrir fyrirtækin. Hún geti verið mikill hvati til nýsköpunar og ýtt undir hagvöxt og velmegun“. Ekkert fyrirtæki sem hann viti um hafi ekki nú þegar orðið fyrir einhverjum áhrifum loftslagsbreytinga.
(Sjá frétt The Guardian í gær).