Grænn gróður í nærumhverfi fólks dregur úr líkum á langvinnum sjúkdómum á borð við sykursýki og háan blóðþrýsting ef marka má nýja lýðheilsurannsókn Háskólans í Miami. Í rannsókninni var farið yfir sjúkrasögu 250.000 einstaklinga 65 ára og eldri og niðurstöðurnar bornar saman við greiningu á gróðurfari út frá gervihnattamyndum NASA. Fram kom mikill munur á heilsufari eldri borgara á svæðum þar sem mikið var um gróður, en þar voru líkur á sykursýki 14% lægri en annars staðar, líkur á háþrýstingi 13% lægri og líkur á of hárri blóðfitu 10% lægri. Þessi munur er talinn stafa af meiri útiveru, líkamlegri áreynslu, meiri samskiptum og streitulosun, en gróður getur einnig haft kælandi áhrif og bætt loftgæði. Mestur munur var í tekjulágum hverfum, en þar hafði gróður enn meiri jákvæð áhrif á heilsuna. Niðurstöðurnar styrkja fyrri rannsóknir og eru til þess fallnar að ýta enn frekar undir áherslu á græn svæði í þéttbýlisskipulagi og til þess að hvetja stofnanir og aðra fasteignaeigendur til að gera ráð fyrir gróðri og grænum svæðum við nýbyggingar.
(Sjá frétt Science Daily 21. apríl).
Greinasafn fyrir merki: þéttbýli
Tré í þéttbýli bæta geðheilsu
Þunglyndislyfjum er sjaldnar ávísað í hverfum þar sem mörg tré hafa verið gróðursett við götur. Þetta kemur fram í nýrri breskri rannsókn þar sem skoðuð var fylgni milli geðheilsu og þéttleika trjáa við götur í 33 hverfum Lundúnaborgar. Niðurstöðurnar benda til að hægt sé að bæta lífsgæði og heilsu íbúa með því að viðhalda tengingu við náttúruna. Þegar leiðrétt hafði verið fyrir félagslegri stöðu, atvinnustigi, fjölda reykingarmanna og meðalaldurs kom í ljós að fyrir hvert tré á hvern kílómetra götu fækkaði útgefnum lyfseðlum fyrir þunglyndislyfjum um 1,18 á hverja 1.000 einstaklinga. Höfundar rannsóknarinnar telja niðurstöðurnar sýna fram á mikilvægi markvissrar gróðursetningar trjáa í þéttbýli til að draga úr streitu og bæta geðheilsu íbúa.
(Sjá umfjöllun í fréttabréfi ESB um umhverfisstefnumótun í dag).
Borgarlandbúnaður mikilvægur á heimsvísu
Landbúnaður í þéttbýli verður æ mikilvægari fyrir fæðuöryggið í heiminum samkvæmt nýrri rannsókn sem sagt var frá í tímaritinu Environmental Research Letters á dögunum. Hópur vísindamanna notaði gervitunglamyndir til að skoða landbúnaðarstarfsemi innan 20 km fjarlægðar frá þéttbýli og komst að því að þessi starfsemi nýtir land á stærð við allt Evrópusambandið. Vísindamennirnir benda á að stefnumótun í landbúnaði taki einungis til starfsemi í dreifbýli og geri þannig lítið úr framlagi borgarlandbúnaðar. Landbúnaður í þéttbýli færi neytendann nær framleiðslunni, auk þess sem ræktunin geti átt stóran þátt í vatnsstjórnun. Þannig er áætlað að ræktun í Accra, höfuðborg Ghana, hreinsi meira skólp en allar skólphreinsistöðvar í borginni. Hingað til hefur gjarnan verið litið á landbúnað í þéttbýli sem „dropa í hafið“ en rannsóknin er ein fyrsta sönnun þess að þessi starfsemi hafi verið stórlega vanmetin.
(Sjá frétt BBC 25. nóvember).
Japanir rækta grænmeti á meðan þeir bíða eftir lestinni
Matjurtagarðar hafa verið útbúnir á þökum fimm lestarstöðva í Tokyo. Þeir er hluti af svonefndu Soradofarm-verkefni Austur-Japanska járnbrautarfélagsins, en þar er íbúum gefinn kostur á að rækta sinn eigin þriggja fermetra garð á meðan þeir bíða eftir lestinni. Reiturinn og nauðsynlegustu garðverkfæri eru leigð út til áhugasamra fyrir um 100 þúsund jen á ári (um 110 þús. ísl. kr.). Íbúar Tokyo hafa flestir litla möguleika á að stunda garðrækt vegna plássleysis, auk þess sem mikill tími fer yfirleitt í samgöngur milli heimilis og vinnustaðar. Vonast er til að verkefnið auki vellíðan íbúa og dragi úr streitu með því að gefa fólki kost á aukinni útiveru og fersku lofti.
(Sjá frétt Treehuggers 26. mars).