Krybbur frekar en kjúklingar

Ræktun skordýra til manneldis hefur minni neikvæð áhrif á umhverfið en annað húsdýrahald að því er fram kemur í nýjum rannsóknarniðurstöðum vísindamanna við Kaupmannahafnarháskóla. Síðustu misseri hefur gjarnan verið talað um skordýr sem „fæðu framtíðarinnar“ en umrædd rannsókn er sú fyrsta þar sem helstu umhverfisþættir skordýraræktar eru greindir og lagt fræðilegt mat á umhverfisáhrifin. Rannsóknin byggði á samanburði krybburæktar við kjúklingarækt og meginniðurstaðan var sú að krybburnar kæmu talsvert betur út, einkum vegna þess að þær nýta fóður betur. Talið er mögulegt að minnka vistspor krybbubúskaparins enn frekar með aukinni nýtingu á úrgangsefnum og öðru fóðri sem ekki nýtist kjúklingum eða öðrum hefðbundnum húsdýrum. Krybbur hafa verið ræktaðar til matar í Tælandi í nær 20 ár og þar eru nú um 20 þúsund krybbubú. Um 2.000 tegundir skordýra eru nýttar til matar í heiminum. Flestar þeirra eru veiddar til matar en u.þ.b. 9 tegundir eru ræktaðar til manneldis eða fóðurframleiðslu.
(Sjá frétt ScienceDaily 11. maí).

Costco vill hætta sölu kjúklings sem alinn er á sýklalyfjum

Photo of the rear of a Costco membership card /American Express credit cardCostco verslunarkeðjan ætlar að hætta að selja kjöt af kjúklingum og öðrum dýrum sem meðhöndluð hafa verið með sýklalyfjum sem einnig eru notuð gegn sýkingum í fólki. Slík lyf eru mikið notuð í landbúnaði vestanhafs. Stöðug inntaka þeirra drepur veikustu bakteríurnar, en þær sterkustu þróa þol gegn lyfjunum. Þannig verða til lyfjaónæmar bakteríur sem ógna heilsu manna. Neytendasamtök og lýðheilsufræðingar um allan heim hafa þrýst mjög á framleiðendur og stjórnvöld að hætta eða banna notkun sýklalyfja í dýrahaldi og með ákvörðun sinni bætist Costco í þann hóp sem vill að þetta gangi eftir.
(Sjá frétt News Daily 5. mars).