Loftslagsbreytingar ógna Evrópu

image_xlarge-160x90Vistkerfum, lýðheilsu og hagkerfum Evrópu stafar vaxandi ógn af loftslagsbreytingum að því er fram kemur í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA). Sum svæði eru þó enn viðkvæmari en önnur. Þannig má búast við að suður- og suðausturhluti álfunnar verði illa úti vegna hækkandi hitastigs og þurrka, sem m.a. eykur líkur á uppskerubresti, skerðingu líffræðilegrar fjölbreytni, skógareldum og útbreiðslu sjúkdóma, m.a. vegna landnáms mítla og skordýra sem bera smit. Við Atlantshafið felst ógnin einkum í aukinni flóðahættu og stórfelldum breytingum á lífríki sjávar vegna súrnunar og svæðisbundins súrefnisskorts. Þá verða heimskautasvæðin hart úti vegna mikilla breytinga á lofthita og sjávarhita með tilheyrandi bráðnun íss og jökla. Jákvæð áhrif, svo sem vegna bættra ræktunarskilyrða, vega létt í þessum samanburði. Samkvæmt skýrslunni er brýn þörf fyrir betri og sveigjanlegri áætlanir um aðlögun að loftslagsbreytingum.
(Sjá frétt á heimasíðu EEA í dag).

Mengaður jarðvegur á 340.000 stöðum í Evrópu

soil_contaminationÆtla má að mengaðan jarðveg sé að finna á um 340.000 stöðum í Evrópu. Þetta kemur fram í matskýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA). Aðeins er vitað um þriðjung þessara staða og enn sem komið er hafa aðeins um 15% verið hreinsuð.  Mikill kostnaður fylgir hreinsun jarðvegs og erfitt getur reynst að beita mengunarbótareglunni við fjármögnun slíkra aðgerða þar sem oft eiga í hlut fyrirtæki sem eru hætt starfsemi. Árlegur kostnaður vegna mengaðs jarðvegs í Evrópu er áætlaður um 6,5 milljarðar evra (rúmlega 1.000 milljarðar ísl. kr). Talsverður hluti af þessum kostnaði lendir á almenningi. Um þriðjung vandamálsins má rekja til sorpförgunar og meðhöndlunar úrgangs og því eru úrgangsforvarnir ein besta leiðin til að koma í veg fyrir jarðvegsmengun. Málmiðnaður, bensínstöðvar og námuvinnsla eiga líka stóran þátt í menguninni, sem oftast er í formi jarðolíu eða þungmálma.
(Sjá frétt EEA 3. maí).

App til að skrá rusl í fjörum

plastáfjörumEEAUmhverfisstofnun Evrópu (EEA) hefur útbúið sérstakt snjallsímaforrit („App“) sem fólk getur notað til að skrá rusl sem það finnur á fjörum í sérstakan gagnagrunn. Þannig verða smátt og smátt til upplýsingar sem gera mönnum auðveldara fyrir að átta sig á umfangi vandans og taka vel ígrundaðar ákvarðanir um aðgerðir.
(Sjá frétt á heimasíðu EEA 3. mars).

Græn skattbreyting skapar störf og eflir nýsköpun

Green Fiscal Reform (EEA)Hægt er að auka hagvöxt, fjölga störfum og efla nýsköpun með því að hækka skatta og afnema niðurgreiðslur á umhverfisskaðlegum vörum og þjónustu, en lækka að sama skapi skatta á tekjur og fjárfestingar. Þetta er niðurstaða úttektar sem Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) hefur gert í fjórum Evrópulöndum sem hafa farið hvað verst út úr efnahagsþrengingum síðustu ára. Grænir skattar hafa minni neikvæð áhrif á þjóðarframleiðslu en t.d. tekjuskattur og virðisaukaskattur, auk þess sem þeir geta stuðlað að umhverfisvænni hegðun neytenda. Miklar líkur eru á að með þessu skapist ný störf af ýmsu tagi og að nýsköpun eflist til lengri tíma litið.
(Sjá frétt á heimasíðu EEA 14. maí).

Sparneytnir bílar í sókn

Bíll EEAFólksbílar sem seldir voru í löndum Evrópusambandsins (ESB) á síðasta ári voru að meðaltali 9% sparneytnari en næstu þrjú ár þar á undan samkvæmt nýrri skýrslu frá Umhverfisstofnun Evrópu (EEA). Tækniframfarir, fjölgun dísilbíla og efnahagsþrengingar eru taldar eiga stærstan hlut í þessu. Meðalbíllinn sem seldur var 2012 losaði 132,2 g CO2/km, en samkvæmt reglum ESB þarf meðallosunin að vera komin niður í 130 g/km 2015 og 95 g/km 2020. Héðan í frá er heimilt að beita bílaframleiðendur sektum ef þeir standast ekki þessar kröfur.
(Sjá frétt á heimasíðu EEA 30. apríl).

Brýnt að innlima heilsufarskostnað vegna flutninga í verð vöru

Lorries EEAÁætlað er að árlega megi rekja 350.000 ótímabær dauðsföll og 3 milljónir veikindadaga í Evrópu til loftmengunar. Þessu fylgir gríðarlegur kostnaður. Mengun frá flutningabílum á stóran hlut að máli, en áætlað er að þessi eina uppspretta mengunar kosti heilbrigðiskerfi ríkjanna á Evrópska efnhagssvæðinu samtals um 45 milljarða evra á ári (um 7.300 milljarða ísl. kr). Umhverfisstofnun Evrópu telur brýnt að innlima þennan kostnað í vöruverð og hvetja þannig um leið til heilsusamlegri flutninga og hreinni tækni. Heilsufarskostnaður vegna landflutninga er mjög mishár eftir löndum, eða allt frá hálfu evrusenti (0,80 ísl kr.) upp í 12 sent (20 ísl. kr.) á kílómetra miðað við 12-14 tonna Euroclass III flutningabíl. Kostnaðurinn ræðst einkum af þéttleika byggðar og landfræðilegum aðstæðum.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Evrópu 28. febrúar).

Ágengar tegundir enn meiri ógn en talið var

Red swamp crayfishÁgengar framandi tegundir ógna lífræðilegri fjölbreytni, heilsu manna og hagkerfum jafnvel enn meira en áður var talið, ef marka má tvær nýjar skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA). Þar kemur m.a. fram að af þeim 395 tegundum evrópskra lífvera sem IUCN flokkar sem tegundir í bráðri útrýmingarhættu (e. critically endangered) séu 110 í hættu vegna ágengra framandi tegunda. Áætlað hefur verið að ágengar tegundir kosti Evrópu um 12 milljarða evra á ári (rúmlega 2.000 milljarða ísl. kr). Sem dæmi um þetta má nefna tjón á uppskeru af völdum Spánarsnigils og kostnað vegna zebrakræklings sem m.a. stíflar vatnssíur og kælivatnstanka.
(Sjá frétt á heimasíðu EEA í gær).

Varúðarreglan sannar gildi sitt

Warning EEAVarúðarreglan á nær alltaf rétt á sér við þróun nýrrar tækni. Umhverfisstofnun Evrópu hefur skoðað 88 tilvik þar sem varnaðarorð þóttu ástæðulaus og komist að þeirri niðurstöðu að aðeins í fjórum tilvikum höfðu talsmenn varúðarinnar rangt fyrir sér. Oftar en ekki hafa menn hunsað vísbendingar um hættu þar til ekki var lengur hægt að komast hjá skaðlegum áhrifum á heilsu og umhverfi. Í skýrslunni „Late Lessons from Early Warnings, II“ eru 20 slík tilvik rakin ítarlega, þ.á.m. tilvik sem varða kvikasilfursmengun frá iðnaði, frjósemisvandamál vegna notkunar skordýraeiturs, hormónaraskandi efni í algengum plastvörum og lyf sem hafa áhrif á vistkerfi. Einnig er hugað að vísbendingum varðandi tækni sem nú er í notkun, svo sem farsíma, erfðabreyttar lífverur og nanótækni. Í skýrslunni er sérstök áhersla lögð á mikilvægi þess að vísindin taki tillit til samverkandi þátta í stað þess að einangra einn þátt og einblína á áhrif hans. Mál þurfi að skoða í þverfaglegu samhengi og bregðast fyrr við hættumerkjum, sérstaklega þegar um er að ræða tæknibyltingar af einhverju tagi. Þeir sem valda skaða til frambúðar ættu að bæta hann og menn ættu að varast að mistúlka orðin „engar vísbendingar um skaðsemi“ sem „vísbendingar um enga skaðsemi“.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Evrópu í fyrradag).

Ósoneyðandi efni á útleið í Evrópu

Ósongat NASA EEAEvrópuríki hafa staðið sig einkar vel í að draga úr framleiðslu og notkun ósoneyðandi efna. Í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu kemur fram að á árinu 2010 hafi Evrópusambandið þegar verið búið að ná alþjóðlegum markmiðum á þessu sviði fyrir árið 2020, þ.e.a.s. 10 árum á undan áætlun. Með Montrealbókuninni 1987 tóku ríki heims höndum saman um að draga úr notkun ósoneyðandi efna. Margir telja þessa bókun, og Vínarsáttmálann sem hún byggir á, vera einhverja árangursríkustu alþjóðasamninga sem gerðir hafa verið, og að þessa reynslu ætti að mega nýta við önnur aðkallandi verkefni af svipuðum toga.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Evrópu í gær).

Náttúruverndarsvæði orðin meira en fimmtungur af Evrópu

Flatarmál náttúruverndarsvæða í Evrópu er nú komið yfir 21% af öllu flatarmáli álfunnar. Vatnajökulsþjóðgarður er stærsta svæðið í þessum flokki, en samtals eru svæðin um 105.000 talsins. Hægar gengur að friða svæði á hafinu, en þar eiga Evrópulönd enn langt í land til að ná markmiði Evrópusambandsins um að 10% af hafsvæðum sambandslandanna njóti verndunar. Einkum hefur lítið miðað í friðun hafsvæða fjær landi. Rannsóknir benda til að beinar og óbeinar tekjur af nátturuverndarsvæðum séu þrefalt til sjöfalt hærri en stofnkostnaðurinn.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Evrópu 23. október).