Dreifbýlið og sjórinn næra sálina

Dvöl á strandsvæðum og á náttúrulegum svæðum utan þéttbýlis hafa meiri jákvæð áhrif á andlega líðan fólks en dvöl á grænum svæðum innan borgarmarka, að því er fram kemur í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Environment & Behavior. Þá virðast heimsóknir í þjóðgarða og önnur friðuð svæði hafa jákvæðari áhrif ef aðgangur að þeim er ókeypis og öllum opinn. Áður hefur verið sýnt fram á að náttúruupplifun dragi úr streitu og bæti líðan fólks, en þetta er í fyrsta sinn sem greint er á milli áhrifa mismunandi svæða.
(Sjá frétt Science Daily 31. október).

Afneitun loftslagsbreytinga tengist félagslegri drottnunargirni

uppsala-uniEinstaklingar sem haldnir eru félagslegri drottnunargirni (e. social dominance orientation (SDO)) eru líklegri en aðrir til að afneita loftslagsvísindum. Afneitunin tengist karllægum viðhorfum og persónuleikaeinkennum á borð við lága samkennd, valdahneigð og þröngsýni. Einkenni félagslegrar drottnunargirni eru m.a. þau að viðkomandi telur mismunun félagslegra hópa réttlætanlega eða æskilega og finnst maðurinn ráða yfir náttúrunni. Afneitunin gæti tengst ólíkri félagslegri stöðu þeirra sem eru öðrum fremur valdir að loftslagsbreytingum og þeirra sem verða einkum fyrir barðinu á þeim. Allt þetta og margt fleira kemur fram í doktorsritgerð Kirsti Jylhä sem stundað hefur rannsóknir við Háskólann í Uppsölum á hugmyndafræðilegum rótum afneitunar í loftslagsmálum.
(Sjá fréttatilkynningu Háskólans í Uppsölum 29. september).