Vistkerfum, lýðheilsu og hagkerfum Evrópu stafar vaxandi ógn af loftslagsbreytingum að því er fram kemur í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA). Sum svæði eru þó enn viðkvæmari en önnur. Þannig má búast við að suður- og suðausturhluti álfunnar verði illa úti vegna hækkandi hitastigs og þurrka, sem m.a. eykur líkur á uppskerubresti, skerðingu líffræðilegrar fjölbreytni, skógareldum og útbreiðslu sjúkdóma, m.a. vegna landnáms mítla og skordýra sem bera smit. Við Atlantshafið felst ógnin einkum í aukinni flóðahættu og stórfelldum breytingum á lífríki sjávar vegna súrnunar og svæðisbundins súrefnisskorts. Þá verða heimskautasvæðin hart úti vegna mikilla breytinga á lofthita og sjávarhita með tilheyrandi bráðnun íss og jökla. Jákvæð áhrif, svo sem vegna bættra ræktunarskilyrða, vega létt í þessum samanburði. Samkvæmt skýrslunni er brýn þörf fyrir betri og sveigjanlegri áætlanir um aðlögun að loftslagsbreytingum.
(Sjá frétt á heimasíðu EEA í dag).