Hættuleg efni algeng í snyrtivörum fyrir börn

Dönsku neytendasamtökin Tænk könnuðu nýlega innihaldslýsingar á allmörgum tegundum af snyrtivörum sem ætlaðar eru börnum. Í 27 tilvikum reyndust þessar vörur innihalda efni sem eru talin geta valdið ofnæmi, truflað hormónastarfsemi líkamans og haft neikvæð áhrif á frjósemi, nánar tiltekið efnin BHT, própýlparaben og etýlhexýlmetoxýcinnamat. Tænk bendir á að börn á vaxtarskeiði séu einkar viðkvæm fyrir efnum af þessu tagi og jafnvel þótt hvert efni um sig geri lítinn skaða til skamms tíma geti samverkandi áhrif fleiri efna (kokteiláhrif) valdið heilsutjóni. Foreldrum er ráðlagt að velta fyrir sér þörfinni á að börn noti snyrtivörur, að nota smáforritið Kemiluppen til að skanna þær vörur sem keyptar eru og velja helst svansmerktar vörur og vörur með viðurkenndum ofnæmismerkjum á borð við Bláa kransinn.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 30. nóvember).

Styrkur lyfja í evrópskum ám víða yfir mörkum

river_160Hópur vísindamanna á vegum Evrópusambandins hefur reiknað út styrk þriggja algengra lyfja í evrópskum ám og komist að þeirri niðurstöðu að styrkurinn sé í allnokkrum tilvikum yfir viðmiðunarmörkum Vatnatilskipunar ESB. Lyfin sem um ræðir eru etinýlestradíól, estradíól og díklófenak. Tvö fyrrnefndu lyfin eru notuð í getnaðarvarnarpillur og sem staðgöngulyf fyrir hormón en díklófenak er bólgueyðandi (og má finna m.a. í Voltaren). Öll þessi efni eru talin hafa neikvæð áhrif á vistkerfi vatnasvæða, m.a. vegna áhrifa á hormónastarfsemi fiska, og eru því undir sérstöku eftirliti innan ESB. Niðurstöðurnar benda til að styrkur etinýlestradíóls sé yfir viðmiðunarmörkum í um 12% af evrópskum ám, að styrkur estradíóls sé yfir mörkum í 1,5% tilfella og að styrkur diklófenaks sé sömuleiðis yfir mörkum í 1,5% ánna. Ástandið er talið verst í Þýskalandi, Hollandi, Póllandi og Rúmeníu, þar sem allt að þriðjungur ánna stenst ekki gæðakröfur vatnatilskipunarinnar hvað þetta varðar.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 21. maí).

 

Skaðleg efni í snyrtivörum fyrir börn

baby_kosmetik_160Tíu vörur sem flokkast sem snyrtivörur fyrir börn reyndust allar innihalda skaðleg efni þegar norsku neytendasamtökin (Forbrukerrådet) könnuðu innihald þeirra á dögunum í leit sinni að ofnæmisvaldandi og hormónaraskandi efnum. Sex vörutegundir innihéldu sérstaka tegund af útblámasíu (e. UV-filter) sem ESB hefur skilgreint sem hormónaraskandi og mælt með að ekki sé notuð í vörur fyrir börn. Þá fannst ilmefnið Lyral í þremur vörum, en árið 2011 lagði vísindanefnd ESB til að Lyral yrði bannað í vörum fyrir börn vegna þess hversu öflugur ofnæmisvaldur það er. Að mati Forbrukerrådet gefa þessar niðurstöður skýrt til kynna að þörf sé á strangari reglugerðum um efni í neytendavörum, og þá sérstaklega þegar um er að ræða vörur sem markaðsettar eru fyrir börn.
(Sjá frétt Forbrukerrådet 22. janúar).

Vill banna BPA í kassakvittunum

BPA_Sverige_160Ráðgjafi sænska umhverfisráðuneytisins hefur lagt til að bannað verði að nota BPA (Bisfenól-A) í kassakvittanir og að dregið verði í áföngum úr notkun efnisins í umbúðir fyrir matvæli og henni hætt með öllu fyrir 2020. Í skýrslu ráðgjafans kemur fram að einstaklingar sem vinni við afgreiðslustörf séu margir hverjir ungir að árum og því viðkvæmari en ella fyrir hormónaraskandi efnum á borð við BPA, en afgreiðslufólk sé í mikilli snertingu við efnið þar sem það sé að finna í kassakvittunum. Samhliða þessu ætti einnig að banna BPA í öðru prentuðu efni svo sem í aðgöngumiðum af ýmsu tagi. Sænsk lög um BPA þurfi þó að vera í takti við löggjöf ESB, en líklegt þykir að á þessu ári verði tekin ákvörðun á vettvangi sambandsins um skorður við notkun BPA í neytendavörur.
(Sjá frétt Miljö Aktuellt 16. janúar).

Mikið af varnarefnum í grænmeti og ávöxtum

Frugt_og_gr_nt_er_f_898417yUm 66% af ávöxtum og 33% af grænmeti á dönskum markaði innihalda skaðleg efni samkvæmt nýrri rannsókn Matvælastofnunar Danmerkur (Fødevarestyrelsen) og Matvæladeildar Tækniháskóla Danmerkur (DTU). Innfluttar vörur koma sérstaklega illa út úr rannsókninni, enda er erfiðara fyrir yfirvöld í Danmörku að fylgjast með og stjórna notkun efna í framleiðslu utan landsteinana. Flestar tegundir af jarðarberjum, perum og eplum sem rannsakaðar voru innihéldu varnarefnaleifar, en þar var yfirleitt um að ræða skordýra- eða plöntueitur sem sat utan á ávöxtunum. Varnarefnin innihéldu yfirleitt hormónaraskandi efni sem geta haft áhrif á þroska barna auk þess að stuðla að offitu. Þar sem svipuð efni eru notuð við framleiðslu ólíkra afurða getur hver einstaklingur innbyrgt töluvert magn þegar á heildina er litið. Til að forðast skaðleg efni í matvöru hvetur Matvælastofnun Danmerkur fólk til að velja innlenda vöru og lífrænt vottaða ef mögulegt er.
(Sjá frétt Politiken í dag).

Fyrirburar fá í sig mikið af skaðlegum efnum á sjúkrahúsum

fyrirburiFyrirburar sem eyða fyrstu mánuðum ævi sinnar á sjúkrahúsi fá í sig mikið magn skaðlegra efna úr tækjum sem notuð eru við ummönnun barnanna, að því er fram kemur í nýrri rannsókn frá Johns Hopkins Bloomberg School of Public Health. Rannsóknin beindist einna helst að DEHP (dí(2-etýlhexýl)þalati) og öðrum þalötum sem notuð eru sem mýkingarefni í plasti, en plast er uppistaðan í stórum hluta lækningatækja og búnaðar á borð við bláæðaleggi, holleggi (svo sem þvagleggi), barkarennur og vökva- og blóðpoka. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að styrkur DEHP hjá fyrirburum sem hafa verið vistaðir lengi á sjúkrahúsi geti verið um 4.000-160.000 sinnum hærri en talið er skaðlaust. Þar sem þalötin bindast ekki plastinu berast þau auðveldlega inn í líkamann og geta raskað hormónastarfsemi hans. Fyrirburar eru einstaklega viðkvæmir þar sem líkami þeirra er enn að þroskast.
(Sjá frétt Science Daily 13. nóvember).

Skaðleg efni í þrykkimyndum á bómullarbolum

tshirt-nr9---03Hormónaraskandi efni fundust í 10 af 15 bómullarbolum með þrykkimynd sem skoðaðir voru í rannsókn sænsku neytendasamtakanna Råd&Rön í lok október. Flestar þrykkimyndir á fatnaði eru gerðar úr PVC-plasti og þá er í flestum tilfellum notast við þalöt sem mýkingarefni fyrir plastið. Í einum bolnum fundust t.d. þalötin BBP (bensýlbútýlþalat), DINP (díísónýlþalat) og DIDP (diísódekýlþalat), en styrkur þess síðastnefnda var 14 sinnum hærri en leyfilegt er í leikföngum. Til eru önnur efni sem gera sama gagn (staðgönguefni). Þannig innihéldu þrykkimyndir á fimm bolum sem skoðaðir voru ekkert PVC og þar með engin þalöt. Á næsta ári mun Evrópusambandið (ESB) banna notkun þeirra þalata sem teljast skaðlegust, en Råd&Rön telja bannið ekki vernda neytendur þar sem það nær einungis til vöru sem framleidd er innan ESB.
(Sjá frétt Råd&Rön 22. október).

Nýju þalötin engu betri

DiNPDíísónónýlþalat (DiNP), sem komið hefur í staðinn fyrir díetýlhexýlþalat (DEHP) sem mýkingarefni í PVC-plasti virðist hafa sömu hormónaraskandi eiginleika og fyrirrennarinn samkvæmt nýrri rannsókn Háskólans í Karlstad í Svíþjóð. Notkun á DiNP hófst eftir að Evrópusambandið bannaði notkun DEHP í leikfangaframleiðslu vegna hormónarsakandi áhrifa efnisins. Í þessari nýju rannsókn var bilið milli endaþarmsops og limrótar mælt á 196 tæplega tveggja ára gömlum drengjum, auk þess sem greind voru þvagsýni úr mæðrum sömu drengja frá því á 10. viku meðgöngunnar. Í ljós kom fylgni á milli umrædds bils og styrks DiNP í þvagi mæðranna, en þetta gefur vísbendingu um að DiNP hafi hormónaraskandi áhrif á fóstur. Höfundar rannsóknarinnar telja þörf á að endurskoða aðferðir við val á nýjum efnum til að tryggja skaðleysi þeirra betur en nú er gert.
(Sjá frétt SVT 30. október).

Hormónaraskandi efni gera karlmenn æ kvenlegri

anuspenisKarlmenn sem fá í sig hormónaraskandi efni í móðurkviði framleiða minna af testósteróni en aðrir menn og eru með lakari sæðisframleiðslu. Þetta kom fram á ráðstefnu um hormónaraskandi efni sem nýlega var haldin á Danska landspítalanum. Efnin sem um ræðir er m.a. að finna í plasti, húsgögnum, fötum og umbúðum. Dregið hefur verulega úr frjósemi Dana og annarra Evrópubúa á síðustu áratugum og sem dæmi má nefna að aðeins um 23% ungra danskra karlmanna hafa viðunandi sæðisframleiðslu. Auk þess fjölgar sífellt þeim tilfellum þar sem gefa þarf drengjum testósterón til að þeir verði kynþroska. Talið er að kokteiláhrif þalata og annarra hormónaraskandi efna hafi mikið að segja í þessu sambandi og þess vegna er erfitt fyrir vísindamenn að segja til um hvaða einstöku efni skuli bönnuð, öðrum fremur.
(Sjá frétt Videnskab DK í dag).

Framleiðendur hætti notkun óþarfra flúorsambanda

fluor_160Hópur alþjóðlegra vísindamanna hefur skorað á framleiðendur að hætta notkun óþarfra flúorsambanda þar til meira verði vitað um möguleg heilsuskaðleg áhrif þeirra. Áskorunin er afrakstur alþjóðlegrar vísindaráðstefnu um flúorsambönd og hefur verið nefnd Helsingør yfirlýsingin. Flúorsamböndin sem um ræðir eru manngerð efni sem hrinda frá sér vatni, fitu og óhreinindum og hafa því þótt henta vel til notkunar í ýmsar neytendavörur, svo sem matarílát úr pappír. Efnin brotna hægt niður og safnast upp í lífverum auk þess sem talið er að þau geti valdið krabbameini, aukið kólesterólmagn, veikt ónæmiskerfið og haft áhrif á hormónaframleiðslu. Strangar reglur gilda um notkun tiltekinna flúorsambanda og telja höfundar yfirlýsingarinnar að þeim sé oft skipt út fyrir önnur flúorsambönd sem lítið sé vitað um. Því skora vísindamennirnir á framleiðendur að beita Varúðarreglunni við innleiðingu nýrra flúorsambanda og gæta þess jafnframt að efnin séu ekki notuð að óþörfu.
(Sjá frétt á heimasíðu Tækniháskóla Danmerkur (DTU) 27. ágúst).