Fjórar af 10 tegundum kerrupoka og burðarpoka sem skoðaðir voru í nýlegri úttekt dönsku neytendasamtakanna Tænk reyndust innihalda efni sem talin eru krabbameinsvaldandi eða hormónaraskandi. Efnin sem um ræðir eru þalöt, flúorsambönd og naftalín, sem tilheyrir flokki PAH-efna. Verst var ástandið í Dania Oxford-kerrupokanum sem innihélt þalatið DEHP langt yfir leyfilegum mörkum. Tænk ráðleggur neytendum að þvo kerrupoka áður en þeir eru teknir í notkun og að velja poka með umhverfismerkjum á borð við Öko-Tex, Umhverfismerki Evrópusambandsins og GOTS.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 9. febrúar).
Greinasafn fyrir merki: krabbamein
Um 430.000 manns deyja vegna loftmengunar í Evrópu
Á hverju ári má rekja um 430.000 dauðsföll í Evrópu til loftmengunar samkvæmt nýrri skýrslu frá Umhverfisstofnun Evrópu. Í skýrslunni kemur fram að loftmengun sé helsta dánarorsök í álfunni þar sem mengunin stuðli að hjartasjúkdómum, krabbameini og vandamálum í öndunarfærum og dragi þannig úr lífslíkum og lífsgæðum Evrópubúa. Um 87% Evrópubúa í þéttbýli búa við svifryksmengun sem er ofan við viðmiðunarmörk Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Viðmiðunarmörk ESB eru mun lægri en mörk WHO og bjuggu samkvæmt þeim aðeins 9% íbúa við óviðunandi mengun. Koma mætti í veg fyrir um 144.000 ótímabær dauðsföll árlega ef Evrópusambandið myndi innleiða staðla WHO. Mest loftmengun í Evrópu mælist í Þýskalandi, Ítalíu, Póllandi, Frakklandi og Bretlandi.
(Sjá frétt EDIE 30. nóvember).
Hættuleg efni í pizzukössum
Pizzukassar geta innihaldið ýmis hættuleg efni að því er fram kemur í nýrri rannsókn dönsku neytendasamtakanna TÆNK. Í rannsókninni voru skoðaðir þrenns konar kassar og reyndust þeir allir innihalda heilsuspillandi flúorsambönd langt yfir viðmiðunarmörkum. Það sem kom þó meira á óvart var að í öllum kössunum fundust efni á borð við þalöt, BPA og nónýlfenól, sem ýmist eru talin geta verið hormónaraskandi eða krabbameinsvaldandi. Talið er líklegt að þessi efni séu ættuð úr endurunnu hráefni sem notað er við framleiðslu á kössunum. Þessar fréttir koma í kjölfar rannsóknar Tænk fyrr á árinu, sem leiddi í ljós að allir pokar utan um örbylgjupopp innihéldu flúorsambönd. Umræddar rannsóknir taka aðeins til matarumbúða og segja því ekki endilega til um hvort efnin berist í matvæli. Tænk ráðleggur fólki þó að borða ekki pizzur beint úr umbúðunum, geyma þær ekki í umbúðunum yfir nótt, forðast örbylgjupopp, kaupa svansmerktan bökunarpappír og geyma mat aðeins í umbúðum sem eru til þess ætlaðar.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 14. október).
Fjöldamálsóknir vegna Roundup undirbúnar vestra
Lögfræðistofur víða um Bandaríkin safna nú liði fyrir fjöldamálsóknir gegn efnavörurisanum Monsanto á þeim forsendum að plöntueitrið Roundup sem fyrirtækið framleiðir hafi valdið krabbameini í sækjendum, þ.á.m. non-Hodgkin eitlafrumukrabba (NHL). Ætlunin er að sýna fram á það fyrir dómi að Monsanto hafi ranglega haldið því fram að virka efnið í Roundup (glýfosat) væri skaðlaust, þó að fyrirtækinu hafi þá þegar verið ljóst að það gæti valdið krabbameini. Málaferlin koma í kjölfar yfirlýsingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í marsmánuði síðastliðnum um að glýfosat væri líklegur krabbameinsvaldur. Roundup er notað um allan heim í landbúnaði og garðrækt og hefur skapað Monsanto tekjur upp á 4,8 milljarða dollara (um 600 milljarða ísl. kr.) á síðustu 12 mánuðum. Um þessar mundir stendur Monsanto einnig frammi fyrir a.m.k. 700 málsóknum vegna ásakana um að PCB sem fyrirtækið framleiddi á sínum tíma hafi valdið non-Hodgkin eitlafrumukrabbameini.
(Sjá frétt PlanetArk 16. október).
Roundup skilgreint sem krabbameinsvaldur
Vinnueftirlit Danmerkur hefur sett hinn vinsæla illgresiseyði Roundup á lista yfir krabbameinsvaldandi efni í framhaldi af útkomu skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) þar sem fram kemur að glýfosat, virka efnið í Roundup, geti valdið eitlakrabbameini. Um leið og efni hefur verið skilgreint sem krabbameinsvaldur aukast varúðarkröfur við notkun þess. Roundup er mest notaði illgresiseyðir í heimi og í Danmörku voru notuð 1.389 tonn af efninu árið 2013 í landbúnaði og við umhirðu garða. Eitlakrabbameinstilfellum hefur fjölgað verulega þarlendis síðustu áratugi og nú greinast rúmlega 1.000 Danir með sjúkdóminn árlega. Notkun Roundup hefur nú þegar verið bönnuð á Sri Lanka og í Kólumbíu og í Argentínu berjast læknar fyrir notkunarbanni. Philippe Grandjean, prófessor í umhverfislyfjafræði við Háskóla Suður-Danmerkur (Syddansk Universitet), segir nauðsynlegt að draga úr notkun efnisins. Jafnframt verði þó að vera á varðbergi gagnvart því að enn hættulegri efni verði ekki tekin í notkun í staðinn.
(Sjá frétt TV2 28. maí).
Míkróplast e.t.v. skaðlegt vegna smæðar sinnar
Míkróplast, þ.e.a.s. plastagnir sem eru minna en 5 mm í þvermál, getur hugsanlega haft skaðleg áhrif á heilsu manna og jafnvel verið krabbameinsvaldandi að því er fram kemur í nýrri samantekt danska ríkisútvarpsins (DR). Skaðsemi míkróplastsins liggur meðal annars í smæðinni, en litlar agnir geta komist í gegnum frumuhimnur og valdið frumudauða, sýkingum eða röskun á ónæmiskerfinu. Áhrifum míkróplasts á mannslíkamann getur þannig svipað til áhrifa asbests sem er skaðlegt heilsu vegna smæðar og forms. Í rannsókn DR voru tekin sýni úr 13 matvörum og reyndust 12 þeirra innihalda plastagnir allt niður í 0,5 mm að stærð. Slíkar agnir má einnig finna m.a. í snyrtivörum, fatnaði, húsgögnum og teppum. Hingað til hafa rannsóknir á skaðsemi míkróplasts einkum beinst að lífrríki sjávar, en samantekt DR gefur til kynna að þörf sé á frekari rannsóknum á áhrifum þess á heilsu.
(Sjá frétt DR í dag).
Vínarsamningurinn 30 ára!
Vínarsamningurinn um vernd ósonlagsins fagnar 30 ára afmæli nú á sunnudaginn. Samningurinn var undirritaður í Vín í Austurríki 22. mars 1985 og er, ásamt Montrealbókuninni sem gerð var við hann haustið 1987, eini alþjóðlegi samningurinn um umhverfismál sem fullgiltur hefur verið af öllum ríkjum heims. Montrealbókunin þykir einstakt dæmi um vel heppnað samstarf á alþjóðavettvangi, en losun ósoneyðandi efna hefur dregist saman um 98% á síðustu þremur áratugum og árleg krabbameinstilfelli eru talin vera tveimur milljónum færri en þau myndi annars vera. Þessi góði árangur er flestu öðru fremur talinn stafa af því að stefnumótunin var frá upphafi byggð á vísindalegum rannsóknum.
(Sjá frétt UNEP í dag).
Kokteiláhrif margfalda hættu á krabbameini
Líkur á krabbameini geta aukist verulega vegna kokteiláhrifa skaðlegra efna samkvæmt nýrri ransókn á vegum Háskólans í Roskilde þar sem rýnt var í samverkandi áhrif akrýlamíðs og tveggja varnarefna. Rannsóknin leiddi í ljós að þrátt fyrir að magn hvers efnis um sig væri undir skilgreindum hættumörkum hafði kokteilinn mjög skaðleg áhrif á DNA í frumum. Akrýlamíð virtist þannig geta magnað upp krabbameinsvaldandi eiginleika varnarefnanna þrátt fyrir lágan styrk þeirra. Kokteiláhrifin geta m.a. falist í því að eitt tiltekið efni geri frumuhimnur gegndræpari og greiði þannig öðrum skaðlegum efnum leið inn í frumuna. Höfundar rannsóknarinnar leggja áherslu á að taka þurfi tillit til kokteiláhrifa þegar leyfileg hágmarksgildi einstakra efna eru ákveðin, því að gildin verði annars of há. Varrúðarreglunni skuli þannig beitt við ákvörðun hágmarksgilda.
(Sjá frétt Videnskap DK í dag).
Hættuleg efni í frárennslisvatni frá bergbroti
Frárennslisvatn frá bergbroti (e. fracking) getur innihaldið þungmálma á borð við kvikasilfur, króm og arsen, auk annarra skaðlegra efna, að því er fram kom nýlega í viðamikilli rannsókn Rice Háskólans í Bandaríkjunum. Styrkur efnanna er oft yfir löglegum mörkum fyrir drykkjarvatn, en málmarnir leysast úr berginu þegar vatninu er dælt niður. Um 50 lífræn efni fundust í vatninu, þ.á.m. krabbameinsvaldandi efni á borð við tólúen og etýlbensen. Halógenuð kolvetni fundust einnig í öllum sýnum, en þessi efni eru notuð til að hreinsa frárennslisvatn til að hægt sé að nota það aftur. Efnin geta skaðað lifur og taugakerfi. Hins vegar kom það á óvart að PAH-efni skyldu ekki greinast í vatninu, en slík efni er yfirleitt að finna í frárennslisvatni frá námu- og kolavinnslu. Rannsóknin undirstrikar þörfina fyrir auknar rannsóknir á umhverfisáhrifum bergbrots og mikilvægi hreinsunar og meðhöndlunar frárennslisvatns.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 19. febrúar).
Lítt þekkt eldvarnarefni finnast í þvagi
Í nýrri rannsókn á eldvarnarefnum í þvagi Bandaríkjamanna fannst mikið magn af lítt rannsökuðum fosfatefnum. Sérstaka athygli vakti að efnið TCEP (trís-(2-klóretýl) fosfat) fannst í 75% þvagsýnanna, en efnið hefur ekki áður verið mælt í þvagi. Eldvarnarefni úr fosfati er m.a. að finna á bólstruðum húsgögnum. Efnin eru krabbameinsvaldandi auk þess sem sum þeirra (m.a. TCEP) hafa áhrif á taugastarfsemi og starfsemi æxlunarfæra. Efnin berast oftast inn í líkamann með innöndun, en rannsóknin sýndi einmitt fram á fylgni milli styrks efnanna í þvagi og í ryki á heimili sömu einstaklinga. Bann hefur verið lagt við notkun tiltekinna eldvarnarefna, en umrædd fosfatefni hafa ekki fengið mikla athygli hingað til, þrátt fyrir skaðsemina.
(Sjá frétt Science Daily í dag).