Dönsku neytendasamtökin Tænk könnuðu nýlega innihaldslýsingar á allmörgum tegundum af snyrtivörum sem ætlaðar eru börnum. Í 27 tilvikum reyndust þessar vörur innihalda efni sem eru talin geta valdið ofnæmi, truflað hormónastarfsemi líkamans og haft neikvæð áhrif á frjósemi, nánar tiltekið efnin BHT, própýlparaben og etýlhexýlmetoxýcinnamat. Tænk bendir á að börn á vaxtarskeiði séu einkar viðkvæm fyrir efnum af þessu tagi og jafnvel þótt hvert efni um sig geri lítinn skaða til skamms tíma geti samverkandi áhrif fleiri efna (kokteiláhrif) valdið heilsutjóni. Foreldrum er ráðlagt að velta fyrir sér þörfinni á að börn noti snyrtivörur, að nota smáforritið Kemiluppen til að skanna þær vörur sem keyptar eru og velja helst svansmerktar vörur og vörur með viðurkenndum ofnæmismerkjum á borð við Bláa kransinn.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 30. nóvember).
Greinasafn fyrir merki: BHT
Hormónaraskandi efni í vítamíni fyrir börn
Hormónaraskandi efni fannst í þremur tegundum af vítamínum fyrir börn sem könnuð voru í nýlegri rannsókn dönsku neytendasamtakanna Tænk, en samtals voru 12 vörur af þessu tagi teknar til skoðunar. Efnið sem um ræðir nefnist BHT (bútýlhýdroxýtólúen). Vitað er að efnið hefur áhrif á hormónastarfsemi dýra og er því einnig talið hormónaraskandi í fólki. Notkun efnisins sem aukaefnis í matvælum er lögleg en ekki æskileg, en efnið er yfirleitt merkt sem E321 í innihaldslýsingum. Áhrif vítamínsins eins og sér á hormónastarfsemina eru lítil en það getur átt sinn þátt í kokteiláhrifum þar sem fleiri hormónaraskandi efni eru til staðar í daglegu umhverfi barna.
(Sjá frétt Tænk 17. febrúar).
Varasöm efni algeng í rakvélablöðum
Ellefu af 27 tegundum rakvélablaða sem teknar voru fyrir í nýlegri könnun dönsku neytendasamtakanna Tænk reyndust innihalda rotvarnarefnið BHT sem talið er geta raskað hormónastarfsemi líkamans. Rakvélablöðin sem skoðuð voru áttu það öll sameiginlegt að vera með sérstaka innbyggða smurrák (d. lubrastrip) sem ætlað er að mýkja húðina við rakstur. Efnið sem um ræðir er notað til að koma í veg fyrir að smurrákin oxist. BHT fannst í rakvélablöðum frá BIC og Gillette, en ekki í blöðum frá öðrum framleiðendum. Ólíklegt er að hormónaraskandi efni í vörum af þessu tagi hafi mikil skaðleg áhrif ein og sér, þar sem varan liggur ekki eins lengi á húðinni eins og t.d. húðkrem. Hins vegar getur þetta efni átt þátt í hormónaraskandi kokteiláhrifum þegar saman koma fleiri svipuð efni úr öðrum neytendavörum.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).