Leyfilegur styrkur BPA of hár

bisphenol_160Matvælastofnun danska Tækniháskólans (DTU) telur að viðmið sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) gaf út í síðasta mánuði fyrir þolanlegan hámarksdagskammt Bisfenóls-A (BPA) sé of hátt. Að mati EFSA ætti dagleg inntaka á 4 míkrógrömmum á hvert kíló líkamsþyngdar að vera örugg frá heilsufarslegu sjónarmiði, en eftir að hafa rýnt þær heimildir sem EFSA byggir niðurstöðu sína á telur DTU að miða ætti við 0,7 míkrógrömm. Sérfræðingar DTU telja að í ráðleggingum EFSA sé ekki nægjanlegt tillit tekið til vísbendinga úr dýrarannsóknum um áhrif efnisins á brjóstvef, þroskun kynfæra og þroskun heila. Því feli hin nýja skilgreining á þolanlegum hámarksdagskammti (e. tolerable daily intake (TDI)) ekki í sér nægjanlega vernd fyrir neytendur. BPA er einkum að finna í tilteknum plastumbúðum og í kassakvittunum og er talið raska hormónastarfsemi líkamans.
(Sjá frétt á heimasíðu DTU 23. febrúar).

Burt með klósettrúlluna!

toilet_paper_160Einn stærsti pappírsframleiðandi vestanhafs, Scott Products, hætti nýlega að nota pappahólka í klósettpappírsrúllur. Með þessu vill framleiðandinn draga úr myndun úrgangs, en árlega lenda um 17 milljarðar slíkra hólka í ruslinu vestra. Mest af þessu fer í urðun. Hólkarnir eru ekki nauðsynlegir þegar allt kemur til alls og bæði framleiðandinn og neytendinn hafa því mikinn hag af því að losna við þá. Fyrirtækið hvetur aðra framleiðendur að gera slíkt hið sama, enda eru klósettrúlluhólkar tiltölulega stór hluti þess úrgangs sem til fellur á heimilum.
(Sjá frétt ENN í dag).

Vill banna BPA í kassakvittunum

BPA_Sverige_160Ráðgjafi sænska umhverfisráðuneytisins hefur lagt til að bannað verði að nota BPA (Bisfenól-A) í kassakvittanir og að dregið verði í áföngum úr notkun efnisins í umbúðir fyrir matvæli og henni hætt með öllu fyrir 2020. Í skýrslu ráðgjafans kemur fram að einstaklingar sem vinni við afgreiðslustörf séu margir hverjir ungir að árum og því viðkvæmari en ella fyrir hormónaraskandi efnum á borð við BPA, en afgreiðslufólk sé í mikilli snertingu við efnið þar sem það sé að finna í kassakvittunum. Samhliða þessu ætti einnig að banna BPA í öðru prentuðu efni svo sem í aðgöngumiðum af ýmsu tagi. Sænsk lög um BPA þurfi þó að vera í takti við löggjöf ESB, en líklegt þykir að á þessu ári verði tekin ákvörðun á vettvangi sambandsins um skorður við notkun BPA í neytendavörur.
(Sjá frétt Miljö Aktuellt 16. janúar).

Pappírsbönd leysa plastvír af hólmi

MarkSpencerVerslunarkeðjan Marks&Spencer (M&S) hefur tekið í notkun festingar úr pappír í staðinn fyrir plastvír sem hingað til hefur verið mikið notaður til að festa leikföng í umbúðir. Plastvírinn er ekki aðeins úr óendurvinnanlegu efni, heldur er hann líka erkióvinur margra barna þar sem erfitt getur reynst að ná leikföngunum úr umbúðunum. Nýju böndin er gerð úr sérstökum pappírstrefjum frá fyrirtækinu BillerudKorsnäs. Böndin gegna hlutverki sínu vel en samt er auðvelt að slíta þau, auk þess sem þau eru gerð úr 100% FSC-vottuðum pappír sem auðvelt er að endurvinna.
(Sjá frétt EDIE 27. október).

Umbun hækkar endurvinnsluhlutfall

carrotEndurvinnsluhlutfall er hærra í sveitarfélögum sem notast við kerfi sem byggt er á jákvæðum fjárhagslegum hvötum en í sveitarfélögum þar sem endurvinnsla er gerð að skyldu. Þetta kemur fram í nýrri könnun bresku samtakanna Greenredeem, en þau hafa þróað kerfi þar sem neytendur safna endurvinnslupunktum sem þeir geta nýtt til að greiða fyrir vörur og þjónustu hjá einhverjum af 450 samstarfsaðilum samtakanna. Sveitarfélög sem eru í samstarfi við Greenredeem hafa náð allt að 27% endurvinnsluhlutfalli fyrir gler, plast og pappír á meðan sveitarfélög með reglur um endurvinnslu hafa náð um 15%. Greenredeem kerfið hefur jafnframt í för með sér auknar tekjur fyrir fyrirtæki í umræddum sveitarfélögum, auk þess sem margir velja að gefa punktana sína til góðgerðarfélaga á svæðinu. Talsmaður samtakanna bendir á að þörf sé á frumlegum lausnum ef Bretland á að ná 50% endurvinnslumarkmiði sínu fyrir 2020.
(Sjá frétt EDIE 16. október).

Nýr prentari sem endurnýtir pappírinn

306LP_artikelToshiba hefur sett á markað nýjan Svansmerktan prentara sem getur prentað aftur og aftur á sama pappírinn. Útprentuð blöð sem lokið hafa hlutverki sínu eru þá sett í sérstaka skúffu í prentaranum í stað þess að fleygja þeim. Þar er letrið fjarlægt með því að hita blöðin, auk þess sem sléttað er úr blöðunum áður en prentað er á þau á nýjan leik. Galdurinn á bak við þetta liggur í tónernum sem notaður er í prentarann. Með þessari nýju tækni er hægt að draga verulega úr pappírsnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 22. janúar).

Bleklaus prentari margfaldar endingartíma pappírs

Eyðupappír TUVísindamenn við háskólann í Jilin í Kína hafa fundið aðferð sem gerir það mögulegt að prenta margoft á sömu pappírsörkina. Þá er notaður sérstakur pappír með litarefni sem kemur í ljós þegar pappírinn blotnar en hverfur þegar pappírinn þornar aftur. Hægt er að prenta á slíkan pappír í venjulegum bleksprautuprentara sem notar hreint vatn í staðinn fyrir blek. Litarefnið í pappírnum dofnar með tímanum, en þolir þó í öllu falli nokkra tugi umferða í gegnum prentarann. Vísindamennirnir telja að með þessu móti megi lækka prentkostnað um 99% miðað við að hver örk sé notuð 50 sinnum. Letur sem prentað er með þessu móti hverfur á tæpum sólarhring við stofuhita, en fyrr ef pappírinn er hitaður.
(Sjá frétt í Teknisk ukeblad 5. febrúar).