ESB bannar 4 skaðleg efni í leikföngum fyrir börn

MI_kosmetikEvrópusambandið samþykkti í dag bann við notkun metýlísóþíasólínóns (MI) og þriggja annarra efna í leikföng fyrir börn undir þriggja ára aldri og í öllum nagleikföngum. MI er rotvarnarefni sem m.a. hefur verið notað í andlitsmálningu fyrir börn og hafa ofnæmisviðbrögð við efninu farið mjög í vöxt á síðustu árum. Tvö hinna efnanna eru einnig ofnæmisvaldandi rotvarnarefni, en þar er um að ræða bensísóþíasólínón (BIT) og klórmetýlísóþíasólínón (CMI). Fjórða efnið er formamíð sem talið er hormónaraskandi og má meðal annars finna í leikmottum fyrir börn. Eftir sem áður má nota rotvarnarefnin þrjú í snyrtivörur fyrir fullorðna, en norrænir neytendur geta varast þessi efni með því að velja Svansmerktar snyrtivörur.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur í dag).

Óleyfileg efni í tímaritum fyrir börn

spiderman_maske800Í nýrri rannsókn dönsku neytendasamtakanna Tænk fundust óæskileg efni í 5 af 18 leikföngum sem fylgdu með tímaritum fyrir börn. Í framhaldi af þessu hafa þrjú tímaritanna verið kærð til yfirvalda fyrir ólöglega efnanotkun. Með umræddum tímaritum fylgdu leikföng á borð við bolta, dúkkur, prumpublöðrur og strokleður og fundust meðal annars þalöt og blý í þessum vörum. Samkvæmt dönskum lögum mega leikföng ekki innihalda meira en 0,1% af þalatinu DEHP sem er hormónaraskandi efni. Tvö leikföng voru yfir mörkum hvað þetta varðar. Þannig innihélt plastútvarp sem fylgdi með tímaritinu Prinzessin Lillifee 15% DEHP, auk þess sem styrkur blýs í leikfanginu var 2.560 mg/kg. Umhverfisstofnun Danmerkur ætlar ekki að verða við beiðni Tænk um að beita sér fyrir því að strokleður sem fylgdi með tímaritinu Wendy verði tekið af markaði þar sem strokleður séu ekki skilgreind sem leikföng í dönskum lögum. Tænk bendir hins vegar á að reglur um leikföng hljóti að eiga að gilda um strokleður sem séu beinlínis markaðsett fyrir börn.
(Sjá frétt Tænk 13. nóvember).

Nýju þalötin engu betri

DiNPDíísónónýlþalat (DiNP), sem komið hefur í staðinn fyrir díetýlhexýlþalat (DEHP) sem mýkingarefni í PVC-plasti virðist hafa sömu hormónaraskandi eiginleika og fyrirrennarinn samkvæmt nýrri rannsókn Háskólans í Karlstad í Svíþjóð. Notkun á DiNP hófst eftir að Evrópusambandið bannaði notkun DEHP í leikfangaframleiðslu vegna hormónarsakandi áhrifa efnisins. Í þessari nýju rannsókn var bilið milli endaþarmsops og limrótar mælt á 196 tæplega tveggja ára gömlum drengjum, auk þess sem greind voru þvagsýni úr mæðrum sömu drengja frá því á 10. viku meðgöngunnar. Í ljós kom fylgni á milli umrædds bils og styrks DiNP í þvagi mæðranna, en þetta gefur vísbendingu um að DiNP hafi hormónaraskandi áhrif á fóstur. Höfundar rannsóknarinnar telja þörf á að endurskoða aðferðir við val á nýjum efnum til að tryggja skaðleysi þeirra betur en nú er gert.
(Sjá frétt SVT 30. október).

Pappírsbönd leysa plastvír af hólmi

MarkSpencerVerslunarkeðjan Marks&Spencer (M&S) hefur tekið í notkun festingar úr pappír í staðinn fyrir plastvír sem hingað til hefur verið mikið notaður til að festa leikföng í umbúðir. Plastvírinn er ekki aðeins úr óendurvinnanlegu efni, heldur er hann líka erkióvinur margra barna þar sem erfitt getur reynst að ná leikföngunum úr umbúðunum. Nýju böndin er gerð úr sérstökum pappírstrefjum frá fyrirtækinu BillerudKorsnäs. Böndin gegna hlutverki sínu vel en samt er auðvelt að slíta þau, auk þess sem þau eru gerð úr 100% FSC-vottuðum pappír sem auðvelt er að endurvinna.
(Sjá frétt EDIE 27. október).

Krabbameinsvaldandi efni í blöðrum

balloonsKrabbameinsvaldandi efni fundust í meira en helmingi af blöðrum sem danska umhverfisráðuneytið rannsakaði nýlega. Alls reyndust 22 blöðrutegundir af 39 innihalda efni sem geta hvarfast í nítrósamín sem er þekktur krabbameinsvaldur. Nokkrar tegundir innihéldu um þrefalt meria af slíkum efnum en leyfilegt er. Umhverfisráðherra Danmörku hefur í kjölfar rannsóknarinnar látið auka eftirlit með innfluttum leikföngum þar sem áhersla verður lögð á stikkprufur úr leikfangagámum frá löndum utan Evrópusambandsins.
(Sjá frétt á heimasíðu dönsku neytendasamtakanna Tænk í dag).

Þungmálmar í málmleikföngum og ódýrum skartgripum

BlárbíllMálmleikföng og ódýrir skartgripir innihalda oft þungmálma sem geta skaðað heilsu barna sem setja vörur af þessu tagi upp í sig. Meðal efna sem fundust í leikföngum og skartgripum í nýlegri rannsókn vestanhafs má nefna blý, kadmíum, kopar, nikkel, arsenik og antímon. Í rannsókninni var sýnt fram á að þessi efni gætu leyst upp í meltingarvökva og þannig borist um líkamann. Heilsufarsleg áhrif af þessu geta bæði verið skammvinn og langvarandi. Blý og kadmíum geta t.d. haft áhrif á vitsmunaþroska barna.
(Sjá frétt Science Daily 5. mars).

Rotvarnarefni í leikföngum

SápukúlurBarnaleikföng á borð við fingramálningu, módelleir, andlitsmálningu og sápukúlur innihalda oft rotvarnarefni sem geta haft skaðleg áhrif við mikla notkun. Í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) kemur fram að 23 mismunandi rotvarnarefni, þ.á.m. parabenar, hafi fundist við athugun á vörum af þessu tagi. Í framhaldi af þessu hefur stofnunin farið fram á að Evrópusambandið taki afstöðu til þess hvort reglur um rotvarnarefni í leikföngum séu nægilega strangar.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 20. febrúar).

Verslanir kærðar vegna þalata í leikföngum

EiturFjórar verslanir í Svíþjóð hafa verið kærðar vegna sölu á leikföngum sem innihéldu þalöt yfir leyfilegum mörkum. Brotin komu í ljós við greiningu á 20 mismunandi plastleikföngum sem tekin voru til skoðunar síðasta sumar í sérstöku verkefni um vörur í lágvöruverðsverslunum undir yfirskriftinni „Varor i lågprissegmentet“. Fimm af þessum 20 leikföngum innihéldu of mikið af þalötum og í tveimur verstu tilvikunum var efnasambandið DEHP (dí-2-etýlhexýlþalat) 40-46% af plastinu. Þetta efni eykur líkur á ófrjósemi.
(Sjá fréttatilkynningu á heimasíðu Gautaborgar 21. janúar).

Hættuleg efni í leikföngum

BarnmeddotRúmur helmingur af 30 tegundum tréleikfanga fyrir börn að þriggja ára aldri sem skoðaðar voru í nýrri rannsókn á vegum Stiftung Warentest reyndust innihalda hættuleg efni. Um var að ræða efni á borð við PAH, lífræn tinsambönd, blý, hættuleg litarefni og formaldehýð, þ.e.a.s. efni sem geta verið krabbameinsvaldandi og hormónaraskandi svo eitthvað sé nefnt. Efnin fundust einkum í lakki, snúrum, netum og krossviði.
(Sjá frétt á heimasíðu Stiftung Warentest 21. nóvember).

Eiturefni í vörum vaxandi vandamál

EiturTiltölulega algengt er að vörur til daglegra nota innihaldi hættuleg efni umfram leyfileg mörk. Þetta er ein helsta niðurstaðan úr athugunum sem Efnaeftirlit Svíþjóðar (Kemikalieinspektionen) hefur gert í tilefni þarlends átaks undir yfirskriftinni „giftfri vardag“. Í framhaldi af þessu hefur stofnunin m.a. lagt fram kærur vegna óleyfilegs efnainnihalds í 12% af þeim 260 mismunandi leikföngum sem skoðuð voru. Sama gildir um 11% af 128 tegundum rafeindatækja. Þetta eru mun fleiri frávik en forsvarsmenn stofnunarinnar höfðu átt von á. Þá hefur stofnunin sent tillögur til Evrópusambandsins um bann og aðrar aðgerðir vegna 12 mismunandi efnasambanda. Stofnunin telur efnainnihald í vörum vera vaxandi vandamál, auk þess sem vinna þurfi markvisst gegn efnamengun drykkjarvatns og huga sérstaklega að efnum í nánasta umhverfi barna.
(Sjá frétt á heimasíðu Kemikalieinspektionen 6. febrúar).