Svíar sem fæddir eru á fyrsta áratug 21. aldar eru umhverfismeðvitaðri og félagssinnaðri en fólk sem fæddist á 10. áratugnum og leggja meiri áherslu á jafnrétti, umhyggju, velferð og sjálfbærni. Aldamótakynslóðin er almennt þeirrar skoðunar að árið 2040 verði meira borðað af heimaræktuðum mat og grænmetisfæði en nú og að heimili og borgir verði að meira leyti sjálfum sér nóg um fæðu. Þetta kom fram í viðamikilli viðhorfskönnun sem sænska verslunarkeðjan ICA lét gera í vetur og vor.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 10. maí).
Greinasafn fyrir merki: grænmeti
Ýmsar leiðir færar til að draga úr matarsóun
Betri umbúðahönnun, litakóðar fyrir réttar geymsluaðferðir og nýting „ljótra“ matvæla í stóreldhúsum eru meðal þeirra aðgerða sem stungið er upp á í þremur nýjum skýrslum Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) um matarsóun. Í skýrslunum er lögð áhersla á að matarsóun á sér stað á öllum stigum lífsferils matvöru og því henti mismunandi aðgerðir mismunandi aðilum (framleiðendum, heildsölum, veitingahúsum, heimilum o.s.frv.). Í sérstakri skýrslu um umbúðir er bent á hvernig umbúðir fyrir brauð, grænmeti og ávexti geta haft áhrif á matarsóun og kynntar 23 hugmyndir að hentugri umbúðum. Í annarri skýrslu eru kynntar niðurstöður rannsóknar á hagkvæmni þess að nota „ljót“ matvæli í veitingahúsum og stóreldhúsum. Síðasta skýrslan inniheldur niðurstöður rannsóknar á litakóðum fyrir geymsluaðferðir en samkvæmt þeim geta litakóðar auðveldað neytendum að velja réttar geymsluaðferðir og draga þannig úr sóun.
(Sjá frétt Miljøstyrelsen 11. apríl).
Varnarefnaleifar í meira en helmingi innfluttra ávaxta og grænmetis
Varnarefnaleifar eru til staðar í 73% ávaxta og 52% grænmetis sem framleitt er í löndum Evrópusambandsins og selt á dönskum markaði, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Matvælastofnunar Danmerkur (Fødevarestyrelsen). Hlutfallið er nokkru lægra (69% og 46%) í ávöxtum og grænmeti frá löndum utan sambandsins og enn lægra (45% og 25%) í dönskum ávöxtum og grænmeti, Styrkur varnarefna í grænmeti og ávöxtum er þó sjaldan yfir viðmiðunarmörkum. Hæst er þetta hlutfall í grænmeti frá löndum utan ESB, eða um 4%. Þessar niðurstöður byggja á 2.510 sýnum sem tekin voru úr umræddum vörum. Þar af voru 179 sýni úr lífrænum vörum, en þar fundust engar varnarefnaleifar.
(Sjá frétt á heimasíðu Fødevarestyrelsen í dag).
Grænmeti framleitt á þökum
Hægt væri að framleiða um 75% af öllu grænmeti sem neytt er í stórborgum innan borgarmarkanna samkvæmt raundæmarannsókn sem gerð var í Bologna á Ítalíu á árunum 2012 til 2014. Í rannsókninni kom fram að ef öll flöt þök í Bologna væru nýtt til ræktunar mætti framleiða þar um 12.500 tonn af grænmeti sem samsvarar um 77% af grænmetisneyslu borgarbúa. Þessi grænu þök myndu um leið bæta loftgæði í borginni, stuðla að líffræðilegri fjölbreytni og fanga um 624 tonn af koltvísýringi árlega. Einnig gætu grænu þökin dregið úr hita- og hljóðmyndun og bætt þannig lífsskilyrði. Í raundæminu var ræktað salat, kál, kaffifífill, tómatar, eggaldin, eldpipar, melónur og vatnsmelónur og þrjár mismunandi ræktunaraðferðir skoðaðar til að finna út hvernig hægt væri að hámarka framleiðslu á litlum svæðum innan borgarmarkanna.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 26. mars).
Mikið af varnarefnum í grænmeti og ávöxtum
Um 66% af ávöxtum og 33% af grænmeti á dönskum markaði innihalda skaðleg efni samkvæmt nýrri rannsókn Matvælastofnunar Danmerkur (Fødevarestyrelsen) og Matvæladeildar Tækniháskóla Danmerkur (DTU). Innfluttar vörur koma sérstaklega illa út úr rannsókninni, enda er erfiðara fyrir yfirvöld í Danmörku að fylgjast með og stjórna notkun efna í framleiðslu utan landsteinana. Flestar tegundir af jarðarberjum, perum og eplum sem rannsakaðar voru innihéldu varnarefnaleifar, en þar var yfirleitt um að ræða skordýra- eða plöntueitur sem sat utan á ávöxtunum. Varnarefnin innihéldu yfirleitt hormónaraskandi efni sem geta haft áhrif á þroska barna auk þess að stuðla að offitu. Þar sem svipuð efni eru notuð við framleiðslu ólíkra afurða getur hver einstaklingur innbyrgt töluvert magn þegar á heildina er litið. Til að forðast skaðleg efni í matvöru hvetur Matvælastofnun Danmerkur fólk til að velja innlenda vöru og lífrænt vottaða ef mögulegt er.
(Sjá frétt Politiken í dag).