Skaðleg efni í snyrtivörum fyrir börn

baby_kosmetik_160Tíu vörur sem flokkast sem snyrtivörur fyrir börn reyndust allar innihalda skaðleg efni þegar norsku neytendasamtökin (Forbrukerrådet) könnuðu innihald þeirra á dögunum í leit sinni að ofnæmisvaldandi og hormónaraskandi efnum. Sex vörutegundir innihéldu sérstaka tegund af útblámasíu (e. UV-filter) sem ESB hefur skilgreint sem hormónaraskandi og mælt með að ekki sé notuð í vörur fyrir börn. Þá fannst ilmefnið Lyral í þremur vörum, en árið 2011 lagði vísindanefnd ESB til að Lyral yrði bannað í vörum fyrir börn vegna þess hversu öflugur ofnæmisvaldur það er. Að mati Forbrukerrådet gefa þessar niðurstöður skýrt til kynna að þörf sé á strangari reglugerðum um efni í neytendavörum, og þá sérstaklega þegar um er að ræða vörur sem markaðsettar eru fyrir börn.
(Sjá frétt Forbrukerrådet 22. janúar).

Akrýlamíð í kartöfluflögum og frönskum kartöflum

snakk_160Mikið magn akrýlamíðs fannst í nýrri rannsókn Norsku neytendasamtakanna (Forbrukerrådet) á frönskum kartöflum og kartöfluflögum þrátt fyrir að hægt sé að lágmarka magn efnisins í matvöru með tiltækri tækni. Frá árinu 2002 hefur verið stefnt að því innan Evrópusambandsins að draga úr magni akrýlamíðs í mat, enda er efnið talið krabbameinsvaldandi auk þess sem mikið magn efnisins getur haft neikvæð áhrif á taugakerfi, fósturþroska og sæðisframleiðslu. Matvælastofnun Noregs segir það áhyggjuefni hversu hægt gengur að minnka akrýlamíð í matvöru og telur matvælaframleiðendur ekki taka vandamálið nógu alvarlega. Evrópusambandið hefur ekki sett hágmarksgildi fyrir akrýlamíð, en viðmiðunargildi sambandsins eru 600-1000 míkrógrömm á hvert kíló matvöru. Hæsta gildið í rannsókn Forbrukerrådet var 2.232 míkrógrömm. Akrýlamíð myndast m.a. þegar kolvetnarík fæða er hituð yfir 120°C.
(Sjá frétt Forbukerrådet 20. ágúst).

Varað við hárlitun

Hárlitir ForbrukerrådetNorsku neytendasamtökin (Forbrukerrådet) vara fólk við því að láta lita á sér hárið, sérstaklega þegar í hlut eiga börn, ófrískar konur og mæður með börn á brjósti. Aðvörunin kemur í kjölfar efnagreiningar samtakanna á 12 tegundum hárlita. Allar tegundirnar innihéldu öfluga ofnæmisvalda og í 10 þeirra fundust auk þess hormónaraskandi efni. Samtökin benda á að ofnæmi fyrir efnum í hárlitum fylgi fólki allt lífið, en þeir sem vilji eftir sem áður fá lit í hárið ættu að kaupa þá þjónustu á „grænum hárgreiðslustofum“. Að sögn talsmanns samtakanna gerir almenningur sér ekki grein fyrir því að hárlitir eru „botnvörur“ (n. versting-produkter) í heilsufarslegu tilliti. Samtökin lýsa eftir aðgerðaáætlun stjórnvalda um eiturlausan hversdag, en slíkar áætlanir hafa lengi verið til í Danmörku og Svíþjóð.
(Sjá fréttatilkynningu Forbrukerrådet 9. janúar).

Vilja banna BPA

binary-1145323-17665Neytendasamtök Noregs (Forbrukerrådet) krefjast þess að bannað verði að nota efnið Bisfenól-A (BPA) í matarumbúðir. Þessi krafa kemur í kjölfar tilraunar sem samtökin gerðu í samvinnu við neytendaþátt norska ríkissjónvarpsins (NRK Forbrukerinspektørene) á tveimur starfsmönnum úr eigin röðum. Starfsmennirnir snæddu eingöngu dósamat í tvo daga, og strax eftir fyrri daginn hafði styrkur BPA í þvagi þeirra hækkað um rúmlega 1.000%. Niðursuðudósir og aðrar loftþéttar matarumbúðir eru í mörgum tilvikum húðaðar að innan með BPA til að koma í veg fyrir að málmur í umbúðunum tærist og mengi matvælin. Efnið er talið vera hormónaraskandi og draga úr frjósemi, auk annarra skaðlegra áhrifa á heilsu manna. Í löndum Evrópusambandsins er bannað að nota efnið í vörur á borð við ungbarnapela og snuð, og í Frakklandi verður BPA alfarið bannað í matarumbúðum frá og með árinu 2015.
(Sjá frétt á heimasíðu Forbrukerrådet 10. apríl).