Styrkur lyfja í evrópskum ám víða yfir mörkum

river_160Hópur vísindamanna á vegum Evrópusambandins hefur reiknað út styrk þriggja algengra lyfja í evrópskum ám og komist að þeirri niðurstöðu að styrkurinn sé í allnokkrum tilvikum yfir viðmiðunarmörkum Vatnatilskipunar ESB. Lyfin sem um ræðir eru etinýlestradíól, estradíól og díklófenak. Tvö fyrrnefndu lyfin eru notuð í getnaðarvarnarpillur og sem staðgöngulyf fyrir hormón en díklófenak er bólgueyðandi (og má finna m.a. í Voltaren). Öll þessi efni eru talin hafa neikvæð áhrif á vistkerfi vatnasvæða, m.a. vegna áhrifa á hormónastarfsemi fiska, og eru því undir sérstöku eftirliti innan ESB. Niðurstöðurnar benda til að styrkur etinýlestradíóls sé yfir viðmiðunarmörkum í um 12% af evrópskum ám, að styrkur estradíóls sé yfir mörkum í 1,5% tilfella og að styrkur diklófenaks sé sömuleiðis yfir mörkum í 1,5% ánna. Ástandið er talið verst í Þýskalandi, Hollandi, Póllandi og Rúmeníu, þar sem allt að þriðjungur ánna stenst ekki gæðakröfur vatnatilskipunarinnar hvað þetta varðar.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 21. maí).

 

Diclofenac drepur erni

eagleTvær nýjar rannsóknir hafa styrkt kenningar um að Voltaren og önnur lyf sem innihalda virka efnið diclofenac séu hættuleg örnum af ættkvíslinni Aquila. Vitað var um skaðsemi diclofenacs fyrir hrægamma, en nú virðist ljóst að fleiri tegundir ránfugla verði fyrir barðinu á þessu efni. Efnið getur eyðilagt nýru fuglanna og þannig dregið þá til dauða. Frá þessu er sagt í grein í nýjasta hefti fuglaverndartímaritsins Bird Conservation International. Þessar niðurstöður ýta undir kröfur um að notkun diclofenacs við dýralækningar verði bönnuð í Evrópu og að banni sem komið hefur verið á í SA-Asíu verði fylgt eftir af festu.
(Sjá frétt ENN í gær).

Diclofenacbann bjargar hrægömmum

Stofnar hrægamma í Pakistan eru farnir að rétta úr kútnum eftir að hætt var að nota bólgueyðandi lyfið Diclofenac sem dýralyf. Sala lyfsins sem dýralyfs var bönnuð 2006, en fram að þeim tíma hafði hrægömmum í þessum hluta Asíu fækkað um allt að 99% á 10 árum. Á fyrstu tveimur árunum eftir að bannið tók gildi fjölgaði Indlandsgömmum (Gyps indicus) á talningarstöðum í Pakistan um 52%. Enn mun þó langt í að stofnar hrægamma í Asíu nái fyrri styrk og enn er nokkuð um að húsdýrum sé gefið Voltaren eða aðrar tegundir Diclofenaclyfja sem leyfilegt er að selja sem lyf fyrir fólk. Hræ þessara dýra eru eitur fyrir gammana.
(Sjá frétt The Guardian í gær).