Fyrirburar sem eyða fyrstu mánuðum ævi sinnar á sjúkrahúsi fá í sig mikið magn skaðlegra efna úr tækjum sem notuð eru við ummönnun barnanna, að því er fram kemur í nýrri rannsókn frá Johns Hopkins Bloomberg School of Public Health. Rannsóknin beindist einna helst að DEHP (dí(2-etýlhexýl)þalati) og öðrum þalötum sem notuð eru sem mýkingarefni í plasti, en plast er uppistaðan í stórum hluta lækningatækja og búnaðar á borð við bláæðaleggi, holleggi (svo sem þvagleggi), barkarennur og vökva- og blóðpoka. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að styrkur DEHP hjá fyrirburum sem hafa verið vistaðir lengi á sjúkrahúsi geti verið um 4.000-160.000 sinnum hærri en talið er skaðlaust. Þar sem þalötin bindast ekki plastinu berast þau auðveldlega inn í líkamann og geta raskað hormónastarfsemi hans. Fyrirburar eru einstaklega viðkvæmir þar sem líkami þeirra er enn að þroskast.
(Sjá frétt Science Daily 13. nóvember).