Ráðgjafi sænska umhverfisráðuneytisins hefur lagt til að bannað verði að nota BPA (Bisfenól-A) í kassakvittanir og að dregið verði í áföngum úr notkun efnisins í umbúðir fyrir matvæli og henni hætt með öllu fyrir 2020. Í skýrslu ráðgjafans kemur fram að einstaklingar sem vinni við afgreiðslustörf séu margir hverjir ungir að árum og því viðkvæmari en ella fyrir hormónaraskandi efnum á borð við BPA, en afgreiðslufólk sé í mikilli snertingu við efnið þar sem það sé að finna í kassakvittunum. Samhliða þessu ætti einnig að banna BPA í öðru prentuðu efni svo sem í aðgöngumiðum af ýmsu tagi. Sænsk lög um BPA þurfi þó að vera í takti við löggjöf ESB, en líklegt þykir að á þessu ári verði tekin ákvörðun á vettvangi sambandsins um skorður við notkun BPA í neytendavörur.
(Sjá frétt Miljö Aktuellt 16. janúar).