Græn útileiksvæði styrkja ónæmiskerfið

Leikskólabörn sem leika sér á náttúrulegum leiksvæðum með fjölbreyttum gróðri hafa sterkara ónæmiskerfi en börn sem leika sér í sandkössum og á malarlóðum. Með því að gera leiksvæðin náttúrulegri er meira að segja hægt að styrkja ónæmiskerfi barnanna umtalsvert á aðeins fjórum vikum. Þetta er niðurstaða rannsóknar finnskra vísindamanna sem sagt var frá í tímaritinu Science Advances í fyrradag. Eftir 28 daga höfðu náttúrusvæðabörnin þriðjungi fjölbreyttari örverur á húðinni en sandkassabörnin og munurinn á örveruflórunni í þörmum barnanna var marktækur. Þá sýndu blóðprufur jákvæðar breytingar í mælingum á mörgum próteinum og frumum sem tengjast ónæmiskerfinu, þ.m.t. T-frumum. Jákvæð áhrif náttúrulegu svæðanna eru talin liggja í því að þar eru börnin í snertingu við mun fjölbreyttara lífríki, sem er lykillinn að styrkingu ónæmiskerfisins. Þetta getur hugsanlega skipt máli til að fyrirbyggja sjálfsofnæmissjúkdóma á borð við astma, excem, sykursýki 1, MS og bólgusjúkdóma í meltingarfærum (IBD), en tíðni þessara sjúkdóma hefur vaxið hratt á Vesturlöndum á síðustu árum.
(Sjá frétt The Guardian 14. október).

Svifryksagnir fósturmegin á fylgju

Talsvert magn af ögnum úr menguðu lofti, svo sem frá umferð, er að finna fósturmegin á fylgjum að því er fram kemur í nýrri rannsókn Hasselt háskóla í Belgíu. Fjöldi agnanna er jafnframt meiri eftir því sem hinar verðandi mæður hafa andað að sér meiru af menguðu lofti. Þetta þýðir að fóstur í móðurkviði komast í beina snertingu við agnir af þessu tagi. Áður hefur verið sýnt fram á tengsl loftmengunar við fósturlát, fyrirburafæðingar og lækkaða fæðingarþyngd, en þessar nýju niðurstöður gefa sterkari vísbendingar en áður um að agnirnar sjálfar hafi þessi áhrif frekar en að þau séu afleiðing bólgusvörunar í líkama móðurinnar. Höfundar rannsóknarinnar benda á að það sé á ábyrgð stjórnvalda að draga úr loftmengun, en að verðandi mæður ættu jafnframt að halda sig sem fjærst stórum umferðaræðum og öðrum uppsprettum loftmengunar.
(Sjá frétt Guardian 17. september).

Agnir úr menguðu lofti finnast í fylgjum

Vísindamenn hafa fundið agnir úr menguðu lofti í fylgjum. Áður hafði verið sýnt fram á að loftmengun eykur verulega líkurnar á fyrirburafæðingum og lágri fæðingarþyngd, með tilheyrandi heilsutjóni síðar á ævinni. Einnig hafa rannsóknir sýnt tengsl á milli loftmengunar og skertrar starfsemi heilans. Hins vegar hefur ekki áður verið sýnt fram á að agnir berist með blóði frá lungum í fylgju. Það að agnirnar finnist í fylgjunni þarf ekki endilega að þýða að þær berist í fóstrið, en það telst þó líklegt. Rannsóknin undirstrikar mikilvægi þess að verðandi mæður, og reyndar fólk yfirleitt, forðist stórar umferðargötur og aðra staði þar sem loftmengun er mikil.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Hættuleg efni algeng í snyrtivörum fyrir börn

Dönsku neytendasamtökin Tænk könnuðu nýlega innihaldslýsingar á allmörgum tegundum af snyrtivörum sem ætlaðar eru börnum. Í 27 tilvikum reyndust þessar vörur innihalda efni sem eru talin geta valdið ofnæmi, truflað hormónastarfsemi líkamans og haft neikvæð áhrif á frjósemi, nánar tiltekið efnin BHT, própýlparaben og etýlhexýlmetoxýcinnamat. Tænk bendir á að börn á vaxtarskeiði séu einkar viðkvæm fyrir efnum af þessu tagi og jafnvel þótt hvert efni um sig geri lítinn skaða til skamms tíma geti samverkandi áhrif fleiri efna (kokteiláhrif) valdið heilsutjóni. Foreldrum er ráðlagt að velta fyrir sér þörfinni á að börn noti snyrtivörur, að nota smáforritið Kemiluppen til að skanna þær vörur sem keyptar eru og velja helst svansmerktar vörur og vörur með viðurkenndum ofnæmismerkjum á borð við Bláa kransinn.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 30. nóvember).

Nýtt námsefni um hættuleg efni

Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) hefur látið útbúa nýtt námsefni sem ætlað er að auðvelda nemendur 2.-6. bekkjar grunnskóla að kynna sér varúðarmerkingar á hættulegum efnum, skilja hvers vegna efnin eru hættuleg og læra hvernig hægt sé að verja sig gegn þessum hættum. Námsefnið nefnist „Húsið hennar Hönnu – og hinar leyndu hættur“ og er öllum aðgengilegt á netinu, án aðgangsorðs.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 18. september).

Fyrstu svansmerktu barnavagnarnir

Nú er í fyrsta sinn hægt að kaupa svansmerkta barnavagna, burðarrúm, bílstóla o.fl. barnavörur sem eru að hluta til úr textíl, en nýlega tóku gildi nýjar viðmiðunarreglur Norræna svansins fyrir vörur af þessu tagi. Mikill vilji virðist vera til staðar hjá foreldrum til að kaupa umhverfisvænar barnavörur og í nýlegri könnun kváðust 6 af hverjum 10 dönskum foreldrum smábarna frekar vilja kaupa svansmerktan barnavagn en aðra vagna. Til að geta fengið Svaninn þurfa umræddar vörur að uppfylla strangar kröfur m.a. um efni sem notuð eru í tau, fyllingar, plast og við yfirborðsmeðhöndlun á málmum. Þá er bannað að nota tiltekin eldvarnarefni og flúorefni í þessar vörur, svo eitthvað sé nefnt.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Danmörku 5. september).

Varasöm efni finnast í gólfteppum fyrir barnaherbergi

2020-taepper-boern-160Þalöt, rokgjörn lífræn efni (VOCs) og pólý- og perflúorefni (PFAS) finnast í mörgum gerðum gólfteppa sem sérstaklega eru ætluð í barnaherbergi. Þetta kom fram í rannsókn sem Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) gekkst nýlega fyrir. Styrkur efnanna reyndist hins vegar minni en svo að börnum sé talin stafa hætta af. Engu að síður ráðleggur Miljøstyrelsen húseigendum að viðra ný gólfteppi í 1-2 daga í bílskúrnum eða úti á svölum áður en þau eru sett inn í barnaherbergi og reyna síðan að lofta vel út í 2-5 mínútur á hverjum degi. Þannig minnkar hættan á að varasöm efni safnist fyrir í inniloftinu, sem getur vel að merkja í mörgum tilvikum verið mengaðra en útiloft. Þá er fólki ráðlagt að kaupa ekki gólfteppi sem sterk lykt er af. Miljøstyrelsen vinnur nú að stærra verkefni þar sem kannað verður nánar hvort efni í gólfteppum geti reynst hættuleg börnum vegna samverkandi áhrifa með öðrum efnum (kokteiláhrifa). Von er á niðurstöðum úr þeirri rannsókn í ársbyrjun 2017.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í dag).

Unglingar kæra ríkið fyrir að vernda þá ekki fyrir loftslagsbreytingum

2559Hópur unglinga í Oregon-ríki í Bandaríkjunum hefur höfðað mál gegn alríkisstjórninni fyrir að brjóta á réttindum þeirra til lífs, frelsis, eignarhalds og jafnréttis með því að aðhafast ekkert til að vernda þau fyrir áhrifum loftslagbreytinga. Héraðsdómur Oregon þarf nú að ákveða hvort unglingarnir verði fyrir skaða sem rekja megi til aðgerða stjórnvalda í loftslagsmálum og þ.a.l. hvort málið haldi áfram á næsta dómsstig. Málið er rekið af samtökunum Our Children’s Trust og er eitt margra slíkra sem höfðuð hafa verið víðsvegar í Bandaríkjunum að undanförnu. Lögfræðingur hópsins segir málið ekki einungis snúast um athafnaleysi heldur vinni stjórnvöld gagngert gegn hagsmunum barna, m.a. með því að gefa út leyfi til olíu- og gasvinnslu. Ólíklegt þykir að málið komist upp úr héraðsdómi en það þrýstir engu að síður á stjórnvöld að búa til og fylgja aðgerðaáætlun til að sporna við loftslagsbreytingum.
(Sjá frétt the Guardian 10. mars).

Hormónaraskandi efni í vítamíni fyrir börn

vitaminHormónaraskandi efni fannst í þremur tegundum af vítamínum fyrir börn sem könnuð voru í nýlegri rannsókn dönsku neytendasamtakanna Tænk, en samtals voru 12 vörur af þessu tagi teknar til skoðunar. Efnið sem um ræðir nefnist BHT (bútýlhýdroxýtólúen). Vitað er að efnið hefur áhrif á hormónastarfsemi dýra og er því einnig talið hormónaraskandi í fólki. Notkun efnisins sem aukaefnis í matvælum er lögleg en ekki æskileg, en efnið er yfirleitt merkt sem E321 í innihaldslýsingum. Áhrif vítamínsins eins og sér á hormónastarfsemina eru lítil en það getur átt sinn þátt í kokteiláhrifum þar sem fleiri hormónaraskandi efni eru til staðar í daglegu umhverfi barna.
(Sjá frétt Tænk 17. febrúar).

Varasöm efni í kerrupokum

babysoveposer-test (2) (160x77)Fjórar af 10 tegundum kerrupoka og burðarpoka sem skoðaðir voru í nýlegri úttekt dönsku neytendasamtakanna Tænk reyndust innihalda efni sem talin eru krabbameinsvaldandi eða hormónaraskandi. Efnin sem um ræðir eru þalöt, flúorsambönd og naftalín, sem tilheyrir flokki PAH-efna. Verst var ástandið í Dania Oxford-kerrupokanum sem innihélt þalatið DEHP langt yfir leyfilegum mörkum. Tænk ráðleggur neytendum að þvo kerrupoka áður en þeir eru teknir í notkun og að velja poka með umhverfismerkjum á borð við Öko-Tex, Umhverfismerki Evrópusambandsins og GOTS.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 9. febrúar).