Hættuleg efni algeng í snyrtivörum fyrir börn

Dönsku neytendasamtökin Tænk könnuðu nýlega innihaldslýsingar á allmörgum tegundum af snyrtivörum sem ætlaðar eru börnum. Í 27 tilvikum reyndust þessar vörur innihalda efni sem eru talin geta valdið ofnæmi, truflað hormónastarfsemi líkamans og haft neikvæð áhrif á frjósemi, nánar tiltekið efnin BHT, própýlparaben og etýlhexýlmetoxýcinnamat. Tænk bendir á að börn á vaxtarskeiði séu einkar viðkvæm fyrir efnum af þessu tagi og jafnvel þótt hvert efni um sig geri lítinn skaða til skamms tíma geti samverkandi áhrif fleiri efna (kokteiláhrif) valdið heilsutjóni. Foreldrum er ráðlagt að velta fyrir sér þörfinni á að börn noti snyrtivörur, að nota smáforritið Kemiluppen til að skanna þær vörur sem keyptar eru og velja helst svansmerktar vörur og vörur með viðurkenndum ofnæmismerkjum á borð við Bláa kransinn.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 30. nóvember).

Varasöm efni í flestum andlitskremum

ansigtscreme-testEngin af 20 tegundum vinsælla andlitskrema í dýrari kantinum sem dönsku neytendasamtökin Tænk tóku til skoðunar á dögunum reyndist laus við varasöm efni. Umrædd efni eru ekki á bannlista og ekki talin skaðleg í litlu magni, en geta engu að síður verið varasöm vegna samverkandi áhrifa með öðrum efnum, þ.e. svonefndra kokteiláhrifa. Sex tegundir af 20 fengu rauða spjaldið hjá Tænk, þar sem þau innhéldu parabena eða önnur efni sem talin eru geta truflað hormónastarfsemi líkamans. Hin fjórtán fengu gula spjaldið vegna þess að þau innihéldu ýmist umhverfisskaðleg efni eða ilmefni sem geta aukið hættuna á ofnæmi.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í gær).

Varasöm efni algeng í rakvélablöðum

skrabere-test-web1Ellefu af 27 tegundum rakvélablaða sem teknar voru fyrir í nýlegri könnun dönsku neytendasamtakanna Tænk reyndust innihalda rotvarnarefnið BHT sem talið er geta raskað hormónastarfsemi líkamans. Rakvélablöðin sem skoðuð voru áttu það öll sameiginlegt að vera með sérstaka innbyggða smurrák (d. lubrastrip) sem ætlað er að mýkja húðina við rakstur. Efnið sem um ræðir er notað til að koma í veg fyrir að smurrákin oxist. BHT fannst í rakvélablöðum frá BIC og Gillette, en ekki í blöðum frá öðrum framleiðendum. Ólíklegt er að hormónaraskandi efni í vörum af þessu tagi hafi mikil skaðleg áhrif ein og sér, þar sem varan liggur ekki eins lengi á húðinni eins og t.d. húðkrem. Hins vegar getur þetta efni átt þátt í hormónaraskandi kokteiláhrifum þegar saman koma fleiri svipuð efni úr öðrum neytendavörum.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).

Varasöm efni algeng í hárvaxi

haarvoks-test-web-1Efni sem talin eru vera hormónaraskandi, krabbameinsvaldandi eða ofnæmisvaldandi fundust í næstum því annarri hvorri tegund af hárvaxi sem dönsku neytendasamtökin Tænk tóku til skoðunar á dögunum. Skoðunin fór þannig fram að lesnar voru innihaldslýsingar á 48 mismunandi tegundum af hárvaxi og kannað hvort þar væru tilgreind efni sem talin eru geta skaðað umhverfi og heilsu. Af þessum 48 tegundum fengu 23 rauða spjaldið, þar sem þær reyndust innihalda hugsanlega hormónaherma, krabbameinsvalda og ofnæmisvalda. Fjórtán tegundir til viðbótar fengu gula spjaldið þar sem þær innihéldu ilmefni sem geta valdið ofnæmi eða efni sem geta skaðað umhverfið. Aðeins 11 tegundir fengu ágætiseinkunn í þessari yfirferð. Þrátt fyrir hugsanlega skaðsemi er enn sem komið er heimilt að nota öll umrædd efni í snyrtivörur, að einu frátöldu.
(Lesið frétt á heimasíðu Tænk 14. september).