Baktería sem brýtur niður PFAS

Vísindamenn við Princeton háskólann í New Jersey hafa fundið bakteríu sem getur brotið niður pólý- og perflúorefni (PFAS). Vegna vatns- og fitufráhrindandi eiginleika sinna hafa efnin verið notuð í ýmsan varning (m.a. undir nöfnunum teflon og goretex), en efnin eru mjög þrávirk og safnast upp í lífverum. Umrædd baktería, Acidimicrobiaceae sp. (A6), finnst í votlendi í New Jersey og í fyrri rannsóknum hafði komið í ljós að hún getur brotið ammóníum niður í súrefnissnauðu umhverfi með því að nýta járn úr jarðvegi sem efnahvata. Nú hefur komið í ljós að á sama hátt getur bakterían rofið kolefnis-flúortengi (C-F tengi) í PFAS og þannig sundrað efninu. C-F tengið er það sterkasta sem fyrirfinnst í lífrænni efnafræði og fram að þessu hafa menn ekki vitað um neina lífveru sem gæti rofið það. Þetta vekur vonir um að hægt sé að nota A6 til að brjóta umrædd efni niður í menguðum jarðvegi.
(Sjá frétt á heimasíðu American Chemical Society (ACS) 18. september).

Míkróplast úr flísefnum áberandi í sjávarlífverum

fleeceÍ hvert skipti sem flík úr flísefni er þvegin sleppa um 2.000 míkróagnir út í frárennslið samkvæmt nýrri kanadískri rannsókn á vatnssýnum úr nágrenni borgarinnar Vancouver í Bresku-Kólumbíu. Mikið af þessum ögnum berst í dýrasvif í sjónum og síðan áfram upp fæðukeðjuna. Rannsóknin gefur svipaðar vísbendingar og aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum útivistarfatnaðar (aðallega úr flísefni og Gore-Tex) á lífríki sjávar, en norskar rannsóknir hafa m.a. sýnt fram á svipuð áhrif. Í norsku rannsóknunum kom fram að hægt væri að rekja um 100 milljónir plastagna í firðinum við Longyearbyen á Svalbarða til þvottavéla í öðrum löndum, en plastagnirnar ferðast um hafið með hafstraumum.
(Sjá frétt Canadian Geographic 29. mars).

Varasöm efni í kerrupokum

babysoveposer-test (2) (160x77)Fjórar af 10 tegundum kerrupoka og burðarpoka sem skoðaðir voru í nýlegri úttekt dönsku neytendasamtakanna Tænk reyndust innihalda efni sem talin eru krabbameinsvaldandi eða hormónaraskandi. Efnin sem um ræðir eru þalöt, flúorsambönd og naftalín, sem tilheyrir flokki PAH-efna. Verst var ástandið í Dania Oxford-kerrupokanum sem innihélt þalatið DEHP langt yfir leyfilegum mörkum. Tænk ráðleggur neytendum að þvo kerrupoka áður en þeir eru teknir í notkun og að velja poka með umhverfismerkjum á borð við Öko-Tex, Umhverfismerki Evrópusambandsins og GOTS.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 9. febrúar).

Hættuleg efni algeng í útivistarvörum

LeavingtracesAðeins fjórar af 40 útivistarvörum sem skoðaðar voru í nýrri rannsókn á vegum Greenpeace reyndust lausar við per- og pólýflúoruð efnasambönd sem geta verið hættuleg fyrir umhverfi og heilsu, en þessi efni eru notuð vegna vatns- og fitufráhrindandi eiginleika sinna. Auk útivistarfatnaðar og skóbúnaðar náði rannsóknin til varnings á borð við bakpoka, tjöld og svefnpoka. Meðal hættulegra efna sem leyndust í vörunum má nefna PFOA og aðrar langar flúoraðar kolefniskeðjur, en einnig kom í ljós að minni flúorkolvetni (PFC) eru notuð í vaxandi mæli. Þessi efni eru þrávirk rétt eins og PFOA, en áhrif þeirra eru minna þekkt. Sum þeirra eru rokgjörn og því líklegri en önnur til að leka úr vörunum.
(Sjá frétt á heimasíðu Greenpeace í dag).

Skíðaáburður í ánamöðkum

width_680.height_330.mode_crop.Anchor_TopleftMikið magn perflúoraðra efna (PFAS-efna) fannst í ánamöðkum í grennd við Osló í rannsókn sem rannsóknarstofnanirnar NILU og NINA hafa unnið að fyrir Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet). Í rannsókninni voru m.a. skoðaðir maðkar sem halda til á vinsælum skíðagöngusvæðum og reyndust þeir innihalda áttfalt meira af þessum efnum en ánamaðkar á fáfarnari slóðum. Talið er líklegt að rekja megi þessa mengun m.a. til skíðaáburðar sem inniheldur gjarnan efni af þessu tagi sem er ætlað að gera skíðin sleipari, en skyld efni hafa einnig verið notuð í slökkvifroðu og útivistarföt, svo dæmi séu tekin. Perflúoruð efni brotna seint eða aldrei niður í náttúrunni, safnast fyrir í lífverum og geta valdið ýmiss konar heilsutjóni.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratets í dag).

Framleiðendur hætti notkun óþarfra flúorsambanda

fluor_160Hópur alþjóðlegra vísindamanna hefur skorað á framleiðendur að hætta notkun óþarfra flúorsambanda þar til meira verði vitað um möguleg heilsuskaðleg áhrif þeirra. Áskorunin er afrakstur alþjóðlegrar vísindaráðstefnu um flúorsambönd og hefur verið nefnd Helsingør yfirlýsingin. Flúorsamböndin sem um ræðir eru manngerð efni sem hrinda frá sér vatni, fitu og óhreinindum og hafa því þótt henta vel til notkunar í ýmsar neytendavörur, svo sem matarílát úr pappír. Efnin brotna hægt niður og safnast upp í lífverum auk þess sem talið er að þau geti valdið krabbameini, aukið kólesterólmagn, veikt ónæmiskerfið og haft áhrif á hormónaframleiðslu. Strangar reglur gilda um notkun tiltekinna flúorsambanda og telja höfundar yfirlýsingarinnar að þeim sé oft skipt út fyrir önnur flúorsambönd sem lítið sé vitað um. Því skora vísindamennirnir á framleiðendur að beita Varúðarreglunni við innleiðingu nýrra flúorsambanda og gæta þess jafnframt að efnin séu ekki notuð að óþörfu.
(Sjá frétt á heimasíðu Tækniháskóla Danmerkur (DTU) 27. ágúst).