Leyfilegur styrkur BPA of hár

bisphenol_160Matvælastofnun danska Tækniháskólans (DTU) telur að viðmið sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) gaf út í síðasta mánuði fyrir þolanlegan hámarksdagskammt Bisfenóls-A (BPA) sé of hátt. Að mati EFSA ætti dagleg inntaka á 4 míkrógrömmum á hvert kíló líkamsþyngdar að vera örugg frá heilsufarslegu sjónarmiði, en eftir að hafa rýnt þær heimildir sem EFSA byggir niðurstöðu sína á telur DTU að miða ætti við 0,7 míkrógrömm. Sérfræðingar DTU telja að í ráðleggingum EFSA sé ekki nægjanlegt tillit tekið til vísbendinga úr dýrarannsóknum um áhrif efnisins á brjóstvef, þroskun kynfæra og þroskun heila. Því feli hin nýja skilgreining á þolanlegum hámarksdagskammti (e. tolerable daily intake (TDI)) ekki í sér nægjanlega vernd fyrir neytendur. BPA er einkum að finna í tilteknum plastumbúðum og í kassakvittunum og er talið raska hormónastarfsemi líkamans.
(Sjá frétt á heimasíðu DTU 23. febrúar).

Mikið af varnarefnum í grænmeti og ávöxtum

Frugt_og_gr_nt_er_f_898417yUm 66% af ávöxtum og 33% af grænmeti á dönskum markaði innihalda skaðleg efni samkvæmt nýrri rannsókn Matvælastofnunar Danmerkur (Fødevarestyrelsen) og Matvæladeildar Tækniháskóla Danmerkur (DTU). Innfluttar vörur koma sérstaklega illa út úr rannsókninni, enda er erfiðara fyrir yfirvöld í Danmörku að fylgjast með og stjórna notkun efna í framleiðslu utan landsteinana. Flestar tegundir af jarðarberjum, perum og eplum sem rannsakaðar voru innihéldu varnarefnaleifar, en þar var yfirleitt um að ræða skordýra- eða plöntueitur sem sat utan á ávöxtunum. Varnarefnin innihéldu yfirleitt hormónaraskandi efni sem geta haft áhrif á þroska barna auk þess að stuðla að offitu. Þar sem svipuð efni eru notuð við framleiðslu ólíkra afurða getur hver einstaklingur innbyrgt töluvert magn þegar á heildina er litið. Til að forðast skaðleg efni í matvöru hvetur Matvælastofnun Danmerkur fólk til að velja innlenda vöru og lífrænt vottaða ef mögulegt er.
(Sjá frétt Politiken í dag).

Varnarefni geta skaðað ófædda drengi

pesticidcocktail DRTilraun sem vísindamenn við Tækniháskóla Danmerkur (DTU) gerðu nýverið á rottum bendir til að drengir sem hafa fengið í sig mismunandi varnarefni á fósturskeiði séu líklegri en aðrir til að glíma við námsörðugleika og skerta sæðisframleiðslu síðar á lífsleiðinni, jafnvel þótt styrkur varnarefnanna hafi verið innan viðmiðunarmarka fyrir hvert efni um sig. Í tilrauninni var notað óverulegt magn af 5 varnarnefnum, sem flest eru notuð sem sveppaeitur í kornrækt og eiga það öll sameiginlegt að geta truflað hormónastarfsemi líkamans. Ulla Hass, prófessor við DTU sem stjórnaði rannsókninni, segir niðurstöðurnar gefa tilefni til að lækka viðmiðunarmörk fyrir umrædd efni, þar sem samlegðaráhrif þeirra („kokkteiláhrif“) hafi að öllum líkindum verið vanmetin.
(Sjá umfjöllun Information 30. nóvember).