Hættuleg efni algeng í snyrtivörum fyrir börn

Dönsku neytendasamtökin Tænk könnuðu nýlega innihaldslýsingar á allmörgum tegundum af snyrtivörum sem ætlaðar eru börnum. Í 27 tilvikum reyndust þessar vörur innihalda efni sem eru talin geta valdið ofnæmi, truflað hormónastarfsemi líkamans og haft neikvæð áhrif á frjósemi, nánar tiltekið efnin BHT, própýlparaben og etýlhexýlmetoxýcinnamat. Tænk bendir á að börn á vaxtarskeiði séu einkar viðkvæm fyrir efnum af þessu tagi og jafnvel þótt hvert efni um sig geri lítinn skaða til skamms tíma geti samverkandi áhrif fleiri efna (kokteiláhrif) valdið heilsutjóni. Foreldrum er ráðlagt að velta fyrir sér þörfinni á að börn noti snyrtivörur, að nota smáforritið Kemiluppen til að skanna þær vörur sem keyptar eru og velja helst svansmerktar vörur og vörur með viðurkenndum ofnæmismerkjum á borð við Bláa kransinn.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 30. nóvember).

Svansmerkt smínk loks fáanlegt

Danski snyrtivöruframleiðandinn Miild setti í gær á markað fyrstu Svansmerktu förðunarvörunar í heiminum. Um er að ræða vörur á borð við púður og augnskugga, en samtals inniheldur Svansmerkta vörulínan 18 vörutegundir í 6 vöruflokkum. Til að fá Svaninn þurfa snyrtivörur að uppfylla strangar kröfur. Þær mega t.d. ekki innihalda paraben eða önnur efni sem talin eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans og ekki heldur rotvarnarefni sem flokkuð eru sem ofnæmisvaldar. Þá eru gerðar strangar kröfur um ilmefnainnihald og málma á borð við blý, kvikasilfur og nikkel. Vörurnar þurfa einnig að standast ákveðið próf hvað varðar niðurbrot í náttúrunni, uppsöfnun í lífverum og eituráhrif á vatnalífverur. Þá eru gerðar kröfur um efnainnihald í umbúðum o.m.fl. Mikil eftirspurn hefur verið eftir umhverfismerktum förðunarvörum í Danmörku, enda er ofnæmi fyrir efnum í snyrtivörum algengt vandamál. Svansmerktu förðunarvörurnar verða komnar í danskar búðir í byrjun maí en þær fást nú þegar í vefverslun Miild.
(Sjá fréttatilkynningu Svansins í Danmörku í gær).

Óleyfileg efni í E.l.f.-snyrtivörum

elf-160x80Dönsku neytendasamtökin (Tænk) hafa sent kæru til Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) vegna óleyfilegra efna sem fundust í 18 tegundum af E.l.f.-snyrtivörum í athugun samtakanna. Efnin sem um ræðir eru ísóbútýlparaben, metýlísóþíasólínón (MI) og metýlklóróísóþíasólínón (MCI). Notkun ísóbútýlparabens í snyrtivörur hefur verið bönnuð innan ESB frá 30. júlí 2015, en hætta er talin á að efnið geti raskað hormónastarfsemi líkamans. Frá árinu 2016 hefur verið óheimilt að nota MI og MCI í vörur sem ætlað er að liggja á húð, en þessi efni eru kunnir ofnæmisvaldar. Innflytjandi umrædds varnings segist hafa fengið ranga sendingu frá framleiðandanum.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 26. janúar).

Varasöm efni í flestum andlitskremum

ansigtscreme-testEngin af 20 tegundum vinsælla andlitskrema í dýrari kantinum sem dönsku neytendasamtökin Tænk tóku til skoðunar á dögunum reyndist laus við varasöm efni. Umrædd efni eru ekki á bannlista og ekki talin skaðleg í litlu magni, en geta engu að síður verið varasöm vegna samverkandi áhrifa með öðrum efnum, þ.e. svonefndra kokteiláhrifa. Sex tegundir af 20 fengu rauða spjaldið hjá Tænk, þar sem þau innhéldu parabena eða önnur efni sem talin eru geta truflað hormónastarfsemi líkamans. Hin fjórtán fengu gula spjaldið vegna þess að þau innihéldu ýmist umhverfisskaðleg efni eða ilmefni sem geta aukið hættuna á ofnæmi.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í gær).

Coop ræðst gegn skaðlegum efnum

Solcreme_og_tandpas_964894y (160x107)Dagvörurisinn Coop í Danmörku hefur hafið sérstakt átak til að ryðja úr vegi skaðlegum efnum úr eigin vörum fyrirtækisins og úr vörum annarra framleiðenda sem seldar eru í verslunum keðjunnar. Á næstu þremur árum munu tólf tilteknir efnaflokkar verða gerðir útlægir úr öllum vörum sem Coop framleiðir og vörur annarra framleiðenda sem ekki fylgja þessu fordæmi verða fjarlægðar úr búðarhillum. Nú þegar hefur örbylgjupoppi, blautklútum og skólavörum úr PVC verið úthýst og nú síðast bættist tannkremið Colgate Total í þann hóp þar sem það inniheldur tríklósan. Efnin sem um ræðir eru öll lögleg, en það sem er löglegt er ekki endilega öruggt, eins og talsmaður Coop orðar það.
(Sjá frétt Politiken 7. september).

Hormónaraskandi efni í flestum ófrískum konum

Gravid ØkoHormónaraskandi efni fundust í miklum meirihluta blóðsýna sem tekin voru úr 565 ófrískum konum í Odense í nýlegri rannsókn á vegum Syddansk Universitet. Þarna var meðal annars um að ræða þalöt, parabena, BPA, tríklósan og perflúoruð efni. Þessi efni er að finna í margs konar vörum, svo sem í leikföngum, lækningatækjum, sólarvörn, snyrtivörum, plasti, byggingarefnum og yfirborðsefnum á húsgögnum, regnfötum og öðrum fatnaði. Hormónaraskandi efni eru talin hafa sérlega skaðleg áhrif á fóstur. Þeir sem stóðu fyrir rannsókninni telja niðurstöðurnar gefa tilefni til að hafa áhyggjur af stöðu mála, en hins vegar sé jákvætt að styrkur efnanna hafi í flestum tilvikum verið lægri en gerist og gengur hjá verðandi mæðrum í öðrum Evrópulöndum og vestanhafs. Ábendingar um leiðir til að forðast hormónaraskandi efni á meðgöngunni er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur.
(Sjá frétt á heimasíðu Syddansk Universitet 11. apríl).

Rotvarnarefni í leikföngum

SápukúlurBarnaleikföng á borð við fingramálningu, módelleir, andlitsmálningu og sápukúlur innihalda oft rotvarnarefni sem geta haft skaðleg áhrif við mikla notkun. Í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) kemur fram að 23 mismunandi rotvarnarefni, þ.á.m. parabenar, hafi fundist við athugun á vörum af þessu tagi. Í framhaldi af þessu hefur stofnunin farið fram á að Evrópusambandið taki afstöðu til þess hvort reglur um rotvarnarefni í leikföngum séu nægilega strangar.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 20. febrúar).

Vörumst hormónaraskandi efni

Barn í kerru IMSFólk ætti að kaupa Svansmerktar vörur, lofta vel út og þvo föt og leikföng áður en þau eru tekin í notkun. Þetta eru ráðleggingar dönsku upplýsingamiðstöðvarinnar um umhverfi og heilsu (IMS) að loknum fræðslufundi um hormónaraskandi efni sem haldinn var í síðustu viku. Löggjöf sem ver neytendur gegn þessum efnum er í stöðugri þróun, en þeir sem vilja vera fyrri til geta gert ýmislegt til við verja sig og sína. Á fundinum kom m.a. fram að efni sem berast inn í líkamann á fósturskeiði geti valdið krabbameini síðar á lífsleiðinni.
(Sjá frétt á heimasíðu IMS 4. október).

Parabenar í fimmta hverju tannkremi

Tandkrem IMSÍ nýrri könnun dönsku upplýsingamiðstöðvarinnar um umhverfi og heilsu kom í ljós að 11 tannkremstegundir af 57 sem skoðaðar voru, innihéldu parabena sem taldir eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans. Parabenar hafa verið notaðir sem rotvarnarefni í ýmsar snyrtivörur, en óleyfilegt er að nota nokkra þeirra í snyrtivörur fyrir börn undir þriggja ára aldri. Tvær tannkremstegundir innihéldu parabena af þessum bannlista, þ.e.a.s. Viofluor Mint Gel og Sensodyne Rapid. Til að forðast parabena í tannkremi er ráðlegt að kaupa Svansmerkt tannkrem eða lesa innihaldslýsinguna vandlega áður en kaupin eru gerð.
(Sjá frétt á forbrugerkemi.dk 4. janúar).

Hormónaraskandi efni í öllum?

Kvikasilfur, kadmíum, kótínín og þalöt voru meðal þeirra efna sem fundust í 4.000 þvag- og hársýnum frá mæðrum og börnum þeirra í 17 Evrópulöndum sem tóku þátt í rannsókn sem sagt var frá á ráðstefnu á Kýpur í síðustu viku. Í 6 af þessum löndum var einnig leitað að bisfenól A, parabenum og tríklósan, og reyndust þessi efni einnig vera til staðar í sýnunum. Efnin eiga það sameiginlegt að vera hormónaraskandi og geta þannig átt þátt í margs konar alvarlegum kvillum. Talsmenn efnaiðnaðarins telja ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af þessum niðurstöðum þar sem styrkur efnanna hafi verið undir hættumörkum. Samtök um heilsufar almennings eru á öðru máli og benda á að þessi efni eigi ekki að vera til staðar í líkama fólks, auk þess sem áhrif þeirra til langs tíma kunni að vera vanmetin og of lítið sé vitað um samlegðaráhrif efnanna (kokkteiláhrif).
(Sjá frétt EurActive 26. október).