Varasöm efni í kerrupokum

babysoveposer-test (2) (160x77)Fjórar af 10 tegundum kerrupoka og burðarpoka sem skoðaðir voru í nýlegri úttekt dönsku neytendasamtakanna Tænk reyndust innihalda efni sem talin eru krabbameinsvaldandi eða hormónaraskandi. Efnin sem um ræðir eru þalöt, flúorsambönd og naftalín, sem tilheyrir flokki PAH-efna. Verst var ástandið í Dania Oxford-kerrupokanum sem innihélt þalatið DEHP langt yfir leyfilegum mörkum. Tænk ráðleggur neytendum að þvo kerrupoka áður en þeir eru teknir í notkun og að velja poka með umhverfismerkjum á borð við Öko-Tex, Umhverfismerki Evrópusambandsins og GOTS.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 9. febrúar).

Barnavörur innihalda enn skaðleg efni

pennaveskiÓlöglegt magn skaðlegra efna finnst enn í ýmsum vörum sem markaðsettar eru fyrir börn. Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet (MD)) birti á dögunum niðurstöður rannsóknar á 90 barnavörum og reyndust fjórar þeirra innihalda ólöglegt magn af skaðlegum efnum. Þannig fannst SCCP (keðjustutt klórparaffín) og þalatið DEHP í einni gerð pennaveskis og í barnapeysu, nánar tiltekið í aukahlutum á vörunum svo sem rennilásum og hnöppum. Bæði SCCP og þalöt eru notuð sem mýkingarefni í plast. Umhverfisstofnunin hefur krafist þess að þær fjórar vörur sem ekki stóðust lagakröfur verði teknar af markaði í Noregi. Stofnunin telur eftirlit með barnavörum sérstaklega mikilvægt þar sem börn eigi til að stinga hlutum upp í sig, jafnvel þótt þeir séu ekki sérstaklega til þess ætlaðir.
(Sjá frétt Miljødirektoratet í dag).

Fyrirburar fá í sig mikið af skaðlegum efnum á sjúkrahúsum

fyrirburiFyrirburar sem eyða fyrstu mánuðum ævi sinnar á sjúkrahúsi fá í sig mikið magn skaðlegra efna úr tækjum sem notuð eru við ummönnun barnanna, að því er fram kemur í nýrri rannsókn frá Johns Hopkins Bloomberg School of Public Health. Rannsóknin beindist einna helst að DEHP (dí(2-etýlhexýl)þalati) og öðrum þalötum sem notuð eru sem mýkingarefni í plasti, en plast er uppistaðan í stórum hluta lækningatækja og búnaðar á borð við bláæðaleggi, holleggi (svo sem þvagleggi), barkarennur og vökva- og blóðpoka. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að styrkur DEHP hjá fyrirburum sem hafa verið vistaðir lengi á sjúkrahúsi geti verið um 4.000-160.000 sinnum hærri en talið er skaðlaust. Þar sem þalötin bindast ekki plastinu berast þau auðveldlega inn í líkamann og geta raskað hormónastarfsemi hans. Fyrirburar eru einstaklega viðkvæmir þar sem líkami þeirra er enn að þroskast.
(Sjá frétt Science Daily 13. nóvember).

Nýju þalötin engu betri

DiNPDíísónónýlþalat (DiNP), sem komið hefur í staðinn fyrir díetýlhexýlþalat (DEHP) sem mýkingarefni í PVC-plasti virðist hafa sömu hormónaraskandi eiginleika og fyrirrennarinn samkvæmt nýrri rannsókn Háskólans í Karlstad í Svíþjóð. Notkun á DiNP hófst eftir að Evrópusambandið bannaði notkun DEHP í leikfangaframleiðslu vegna hormónarsakandi áhrifa efnisins. Í þessari nýju rannsókn var bilið milli endaþarmsops og limrótar mælt á 196 tæplega tveggja ára gömlum drengjum, auk þess sem greind voru þvagsýni úr mæðrum sömu drengja frá því á 10. viku meðgöngunnar. Í ljós kom fylgni á milli umrædds bils og styrks DiNP í þvagi mæðranna, en þetta gefur vísbendingu um að DiNP hafi hormónaraskandi áhrif á fóstur. Höfundar rannsóknarinnar telja þörf á að endurskoða aðferðir við val á nýjum efnum til að tryggja skaðleysi þeirra betur en nú er gert.
(Sjá frétt SVT 30. október).

Þalöt í barnavagni

barnevogn-scandia800xMikið magn af díetýlhexýl þalati (DEHP) mældist í skyggni barnavagns af gerðinni Scandia Run í rannsókn sem dönsku neytendasamtökin Tænk stóðu nýlega fyrir. Skyggnið innihélt um 20% DEHP, en leyfilegur styrkur þalata í leikföngum og öðrum ungbarnavörum er 0,1% skv. reglum ESB. Í framhaldi af rannsókninni hefur Tænk sent kæru til Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) og hvatt til þess að vagninn verði tekinn úr sölu. DEHP er eitt af skaðlegustu þalötunum og getur m.a. haft neikvæð áhrif á þroska barna. Þalöt eru notuð sem mýkingarefni í plast en eru ekki bundin plastinu og geta því auðveldlega borist í lífverur við snertingu. Miljøstyrelsen hefur ekki enn brugðist við ábendingu Tænk, en einhverjar verslanir hafa þegar tekið vagninn úr sölu í framhaldi af þessum niðurstöðum.
(Sjá frétt Tænk 31. maí).

Verslanir kærðar vegna þalata í leikföngum

EiturFjórar verslanir í Svíþjóð hafa verið kærðar vegna sölu á leikföngum sem innihéldu þalöt yfir leyfilegum mörkum. Brotin komu í ljós við greiningu á 20 mismunandi plastleikföngum sem tekin voru til skoðunar síðasta sumar í sérstöku verkefni um vörur í lágvöruverðsverslunum undir yfirskriftinni „Varor i lågprissegmentet“. Fimm af þessum 20 leikföngum innihéldu of mikið af þalötum og í tveimur verstu tilvikunum var efnasambandið DEHP (dí-2-etýlhexýlþalat) 40-46% af plastinu. Þetta efni eykur líkur á ófrjósemi.
(Sjá fréttatilkynningu á heimasíðu Gautaborgar 21. janúar).