Vísindamenn við Princeton háskólann í New Jersey hafa fundið bakteríu sem getur brotið niður pólý- og perflúorefni (PFAS). Vegna vatns- og fitufráhrindandi eiginleika sinna hafa efnin verið notuð í ýmsan varning (m.a. undir nöfnunum teflon og goretex), en efnin eru mjög þrávirk og safnast upp í lífverum. Umrædd baktería, Acidimicrobiaceae sp. (A6), finnst í votlendi í New Jersey og í fyrri rannsóknum hafði komið í ljós að hún getur brotið ammóníum niður í súrefnissnauðu umhverfi með því að nýta járn úr jarðvegi sem efnahvata. Nú hefur komið í ljós að á sama hátt getur bakterían rofið kolefnis-flúortengi (C-F tengi) í PFAS og þannig sundrað efninu. C-F tengið er það sterkasta sem fyrirfinnst í lífrænni efnafræði og fram að þessu hafa menn ekki vitað um neina lífveru sem gæti rofið það. Þetta vekur vonir um að hægt sé að nota A6 til að brjóta umrædd efni niður í menguðum jarðvegi.
(Sjá frétt á heimasíðu American Chemical Society (ACS) 18. september).
Greinasafn fyrir merki: PFOS
Svansmerking skíðaáburðar á döfinni
Í nánustu framtíð verður væntanlega hægt að kaupa skíðaáburð með vottun Norræna svansins, en drög að viðmiðunarkröfum fyrir þennan varning eru nú í opnu umsagnarferli. Í drögunum er gert ráð fyrir að til að fá Svansvottun þurfi skíðaáburður m.a. að vera laus við flúorefni, gefa gott rennsli, hrinda frá sér óhreinindum, endast vel og standast gæðasamanburð við samsvarandi áburð sem inniheldur flúor. Hægt er að senda inn umsagnir um drögin fram til 10. mars nk.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 10. janúar).
Skíðaáburður í ánamöðkum
Mikið magn perflúoraðra efna (PFAS-efna) fannst í ánamöðkum í grennd við Osló í rannsókn sem rannsóknarstofnanirnar NILU og NINA hafa unnið að fyrir Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet). Í rannsókninni voru m.a. skoðaðir maðkar sem halda til á vinsælum skíðagöngusvæðum og reyndust þeir innihalda áttfalt meira af þessum efnum en ánamaðkar á fáfarnari slóðum. Talið er líklegt að rekja megi þessa mengun m.a. til skíðaáburðar sem inniheldur gjarnan efni af þessu tagi sem er ætlað að gera skíðin sleipari, en skyld efni hafa einnig verið notuð í slökkvifroðu og útivistarföt, svo dæmi séu tekin. Perflúoruð efni brotna seint eða aldrei niður í náttúrunni, safnast fyrir í lífverum og geta valdið ýmiss konar heilsutjóni.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratets í dag).
Hættuleg efni í pizzukössum
Pizzukassar geta innihaldið ýmis hættuleg efni að því er fram kemur í nýrri rannsókn dönsku neytendasamtakanna TÆNK. Í rannsókninni voru skoðaðir þrenns konar kassar og reyndust þeir allir innihalda heilsuspillandi flúorsambönd langt yfir viðmiðunarmörkum. Það sem kom þó meira á óvart var að í öllum kössunum fundust efni á borð við þalöt, BPA og nónýlfenól, sem ýmist eru talin geta verið hormónaraskandi eða krabbameinsvaldandi. Talið er líklegt að þessi efni séu ættuð úr endurunnu hráefni sem notað er við framleiðslu á kössunum. Þessar fréttir koma í kjölfar rannsóknar Tænk fyrr á árinu, sem leiddi í ljós að allir pokar utan um örbylgjupopp innihéldu flúorsambönd. Umræddar rannsóknir taka aðeins til matarumbúða og segja því ekki endilega til um hvort efnin berist í matvæli. Tænk ráðleggur fólki þó að borða ekki pizzur beint úr umbúðunum, geyma þær ekki í umbúðunum yfir nótt, forðast örbylgjupopp, kaupa svansmerktan bökunarpappír og geyma mat aðeins í umbúðum sem eru til þess ætlaðar.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 14. október).
Perflúorefni í barnafötum innan marka
Pólý- og perflúorefni (PFAS) fundust í 15 af 30 textílvörum fyrir börn sem tekin voru fyrir í könnun Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen). Efni af þessu tagi eru notuð til yfirborðsmeðhöndlunar á ýmsum varningi til að gera hann vatns- og fitufráhrindandi. Efnin brotna seint niður í náttúrunni og geta skaðað heilsu fólks. Í könnun Miljøstyrelsen var leitað að efnunum í regnfötum, útigöllum, bílstólum og kerrupokum. Efnin fundust sem fyrr segir í 50% tilfella, en að mati Miljøstyrelsen stafar börnum ekki hætta af við venjulega notkun umrædds varnings. Engu að síður sé ástæða til að velja frekar textílvörur sem vottaðar eru með Svaninum eða Umhverfismerki ESB, enda ekki hægt að útiloka heilsufarslega áhættu ef börn komast líka í snertingu við efnin í öðrum varningi á sama tíma.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í dag).
Coop ræðst gegn skaðlegum efnum
Dagvörurisinn Coop í Danmörku hefur hafið sérstakt átak til að ryðja úr vegi skaðlegum efnum úr eigin vörum fyrirtækisins og úr vörum annarra framleiðenda sem seldar eru í verslunum keðjunnar. Á næstu þremur árum munu tólf tilteknir efnaflokkar verða gerðir útlægir úr öllum vörum sem Coop framleiðir og vörur annarra framleiðenda sem ekki fylgja þessu fordæmi verða fjarlægðar úr búðarhillum. Nú þegar hefur örbylgjupoppi, blautklútum og skólavörum úr PVC verið úthýst og nú síðast bættist tannkremið Colgate Total í þann hóp þar sem það inniheldur tríklósan. Efnin sem um ræðir eru öll lögleg, en það sem er löglegt er ekki endilega öruggt, eins og talsmaður Coop orðar það.
(Sjá frétt Politiken 7. september).
Framleiðendur hætti notkun óþarfra flúorsambanda
Hópur alþjóðlegra vísindamanna hefur skorað á framleiðendur að hætta notkun óþarfra flúorsambanda þar til meira verði vitað um möguleg heilsuskaðleg áhrif þeirra. Áskorunin er afrakstur alþjóðlegrar vísindaráðstefnu um flúorsambönd og hefur verið nefnd Helsingør yfirlýsingin. Flúorsamböndin sem um ræðir eru manngerð efni sem hrinda frá sér vatni, fitu og óhreinindum og hafa því þótt henta vel til notkunar í ýmsar neytendavörur, svo sem matarílát úr pappír. Efnin brotna hægt niður og safnast upp í lífverum auk þess sem talið er að þau geti valdið krabbameini, aukið kólesterólmagn, veikt ónæmiskerfið og haft áhrif á hormónaframleiðslu. Strangar reglur gilda um notkun tiltekinna flúorsambanda og telja höfundar yfirlýsingarinnar að þeim sé oft skipt út fyrir önnur flúorsambönd sem lítið sé vitað um. Því skora vísindamennirnir á framleiðendur að beita Varúðarreglunni við innleiðingu nýrra flúorsambanda og gæta þess jafnframt að efnin séu ekki notuð að óþörfu.
(Sjá frétt á heimasíðu Tækniháskóla Danmerkur (DTU) 27. ágúst).
Lífræn flúorsambönd leka frá æfingasvæðum slökkviliða
Verulegt magn lífrænna flúorsambanda hefur fundist í drykkjarvatni og í fiskum á svæðum nálægt æfingasvæðum slökkviliða í Svíþjóð. Í rannsóknarverkefninu Re-Path á vegum sænska fyrirtækisins IVL kom í ljós að flúorsambandið PFOS (perflúoroktýlsúlfónat), sem notað var í slökkvifroðu á 8. og 9. áratug síðustu aldar, hefur borist í yfirborðsvatn í grennd við æfingasvæði slökkviliða. Í sveitarfélaginu Ronneby var vatnsbóli lokað af þessum sökum, enda er efnið talið vera hormónaraskandi, krabbameinsvaldandi og geta valdið lifrarbilun. PFOS hefur einnig fundist í fiski í stöðuvötnum í kringum Stokkhólm, og var styrkur efnisins í mörgum tilfellum langt yfir leyfilegum mörkum Evrópusambandsins. Efnið brotnar ekki niður í fiskum og í mönnum er helmingunartími um 8 ár.
(Sjá frétt á heimasíðu IVL 17. febrúar).
Flúorsambönd í möffinsformum
Í rannsókn neytendablaðsins Tænk í Danmörku kom í ljós að tvö af tíu möffinsformum sem skoðuð voru reyndust innihalda flúrsambönd, sem óttast er að geti verið skaðleg umhverfi og heilsu. Umrædd efnasambönd eru notuð til að gera formin fitu- og vatnsfráhrindandi. Þau geta safnast upp í líkamanum og hugsanlega stuðlað að krabbameinsvexti, ófrjósemi, ADHD o.fl. Ekki hefur verið sýnt fram á að flúorsambönd í matarumbúðum berist í matinn, en Dönsku neytendasamtökin (Forbrugerrådet) álíta engu að síður að efni af þessu tagi eigi ekkert erindi í matarumbúðir. Um er að ræða efnasambönd á borð við teflon, en flúor í tannkremi er allt annars eðlis.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 30. nóvember).