Betri umbúðahönnun, litakóðar fyrir réttar geymsluaðferðir og nýting „ljótra“ matvæla í stóreldhúsum eru meðal þeirra aðgerða sem stungið er upp á í þremur nýjum skýrslum Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) um matarsóun. Í skýrslunum er lögð áhersla á að matarsóun á sér stað á öllum stigum lífsferils matvöru og því henti mismunandi aðgerðir mismunandi aðilum (framleiðendum, heildsölum, veitingahúsum, heimilum o.s.frv.). Í sérstakri skýrslu um umbúðir er bent á hvernig umbúðir fyrir brauð, grænmeti og ávexti geta haft áhrif á matarsóun og kynntar 23 hugmyndir að hentugri umbúðum. Í annarri skýrslu eru kynntar niðurstöður rannsóknar á hagkvæmni þess að nota „ljót“ matvæli í veitingahúsum og stóreldhúsum. Síðasta skýrslan inniheldur niðurstöður rannsóknar á litakóðum fyrir geymsluaðferðir en samkvæmt þeim geta litakóðar auðveldað neytendum að velja réttar geymsluaðferðir og draga þannig úr sóun.
(Sjá frétt Miljøstyrelsen 11. apríl).
Greinasafn fyrir merki: ávextir
Varnarefnaleifar í meira en helmingi innfluttra ávaxta og grænmetis
Varnarefnaleifar eru til staðar í 73% ávaxta og 52% grænmetis sem framleitt er í löndum Evrópusambandsins og selt á dönskum markaði, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Matvælastofnunar Danmerkur (Fødevarestyrelsen). Hlutfallið er nokkru lægra (69% og 46%) í ávöxtum og grænmeti frá löndum utan sambandsins og enn lægra (45% og 25%) í dönskum ávöxtum og grænmeti, Styrkur varnarefna í grænmeti og ávöxtum er þó sjaldan yfir viðmiðunarmörkum. Hæst er þetta hlutfall í grænmeti frá löndum utan ESB, eða um 4%. Þessar niðurstöður byggja á 2.510 sýnum sem tekin voru úr umræddum vörum. Þar af voru 179 sýni úr lífrænum vörum, en þar fundust engar varnarefnaleifar.
(Sjá frétt á heimasíðu Fødevarestyrelsen í dag).
Mikið af varnarefnum í grænmeti og ávöxtum
Um 66% af ávöxtum og 33% af grænmeti á dönskum markaði innihalda skaðleg efni samkvæmt nýrri rannsókn Matvælastofnunar Danmerkur (Fødevarestyrelsen) og Matvæladeildar Tækniháskóla Danmerkur (DTU). Innfluttar vörur koma sérstaklega illa út úr rannsókninni, enda er erfiðara fyrir yfirvöld í Danmörku að fylgjast með og stjórna notkun efna í framleiðslu utan landsteinana. Flestar tegundir af jarðarberjum, perum og eplum sem rannsakaðar voru innihéldu varnarefnaleifar, en þar var yfirleitt um að ræða skordýra- eða plöntueitur sem sat utan á ávöxtunum. Varnarefnin innihéldu yfirleitt hormónaraskandi efni sem geta haft áhrif á þroska barna auk þess að stuðla að offitu. Þar sem svipuð efni eru notuð við framleiðslu ólíkra afurða getur hver einstaklingur innbyrgt töluvert magn þegar á heildina er litið. Til að forðast skaðleg efni í matvöru hvetur Matvælastofnun Danmerkur fólk til að velja innlenda vöru og lífrænt vottaða ef mögulegt er.
(Sjá frétt Politiken í dag).