Vísindamenn við Princeton háskólann í New Jersey hafa fundið bakteríu sem getur brotið niður pólý- og perflúorefni (PFAS). Vegna vatns- og fitufráhrindandi eiginleika sinna hafa efnin verið notuð í ýmsan varning (m.a. undir nöfnunum teflon og goretex), en efnin eru mjög þrávirk og safnast upp í lífverum. Umrædd baktería, Acidimicrobiaceae sp. (A6), finnst í votlendi í New Jersey og í fyrri rannsóknum hafði komið í ljós að hún getur brotið ammóníum niður í súrefnissnauðu umhverfi með því að nýta járn úr jarðvegi sem efnahvata. Nú hefur komið í ljós að á sama hátt getur bakterían rofið kolefnis-flúortengi (C-F tengi) í PFAS og þannig sundrað efninu. C-F tengið er það sterkasta sem fyrirfinnst í lífrænni efnafræði og fram að þessu hafa menn ekki vitað um neina lífveru sem gæti rofið það. Þetta vekur vonir um að hægt sé að nota A6 til að brjóta umrædd efni niður í menguðum jarðvegi.
(Sjá frétt á heimasíðu American Chemical Society (ACS) 18. september).
Greinasafn fyrir merki: flúorsambönd
Svansmerking skíðaáburðar á döfinni
Í nánustu framtíð verður væntanlega hægt að kaupa skíðaáburð með vottun Norræna svansins, en drög að viðmiðunarkröfum fyrir þennan varning eru nú í opnu umsagnarferli. Í drögunum er gert ráð fyrir að til að fá Svansvottun þurfi skíðaáburður m.a. að vera laus við flúorefni, gefa gott rennsli, hrinda frá sér óhreinindum, endast vel og standast gæðasamanburð við samsvarandi áburð sem inniheldur flúor. Hægt er að senda inn umsagnir um drögin fram til 10. mars nk.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 10. janúar).
Fyrstu svansmerktu barnavagnarnir
Nú er í fyrsta sinn hægt að kaupa svansmerkta barnavagna, burðarrúm, bílstóla o.fl. barnavörur sem eru að hluta til úr textíl, en nýlega tóku gildi nýjar viðmiðunarreglur Norræna svansins fyrir vörur af þessu tagi. Mikill vilji virðist vera til staðar hjá foreldrum til að kaupa umhverfisvænar barnavörur og í nýlegri könnun kváðust 6 af hverjum 10 dönskum foreldrum smábarna frekar vilja kaupa svansmerktan barnavagn en aðra vagna. Til að geta fengið Svaninn þurfa umræddar vörur að uppfylla strangar kröfur m.a. um efni sem notuð eru í tau, fyllingar, plast og við yfirborðsmeðhöndlun á málmum. Þá er bannað að nota tiltekin eldvarnarefni og flúorefni í þessar vörur, svo eitthvað sé nefnt.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Danmörku 5. september).
Varasöm efni finnast í gólfteppum fyrir barnaherbergi
Þalöt, rokgjörn lífræn efni (VOCs) og pólý- og perflúorefni (PFAS) finnast í mörgum gerðum gólfteppa sem sérstaklega eru ætluð í barnaherbergi. Þetta kom fram í rannsókn sem Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) gekkst nýlega fyrir. Styrkur efnanna reyndist hins vegar minni en svo að börnum sé talin stafa hætta af. Engu að síður ráðleggur Miljøstyrelsen húseigendum að viðra ný gólfteppi í 1-2 daga í bílskúrnum eða úti á svölum áður en þau eru sett inn í barnaherbergi og reyna síðan að lofta vel út í 2-5 mínútur á hverjum degi. Þannig minnkar hættan á að varasöm efni safnist fyrir í inniloftinu, sem getur vel að merkja í mörgum tilvikum verið mengaðra en útiloft. Þá er fólki ráðlagt að kaupa ekki gólfteppi sem sterk lykt er af. Miljøstyrelsen vinnur nú að stærra verkefni þar sem kannað verður nánar hvort efni í gólfteppum geti reynst hættuleg börnum vegna samverkandi áhrifa með öðrum efnum (kokteiláhrifa). Von er á niðurstöðum úr þeirri rannsókn í ársbyrjun 2017.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í dag).
Varasöm efni í kerrupokum
Fjórar af 10 tegundum kerrupoka og burðarpoka sem skoðaðir voru í nýlegri úttekt dönsku neytendasamtakanna Tænk reyndust innihalda efni sem talin eru krabbameinsvaldandi eða hormónaraskandi. Efnin sem um ræðir eru þalöt, flúorsambönd og naftalín, sem tilheyrir flokki PAH-efna. Verst var ástandið í Dania Oxford-kerrupokanum sem innihélt þalatið DEHP langt yfir leyfilegum mörkum. Tænk ráðleggur neytendum að þvo kerrupoka áður en þeir eru teknir í notkun og að velja poka með umhverfismerkjum á borð við Öko-Tex, Umhverfismerki Evrópusambandsins og GOTS.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 9. febrúar).
Fyrstu Svansmerktu einnotaáhöldin
Svansmerkt einnotaáhöld eru nú fáanleg í fyrsta sinn, en dansk-norska fyrirtækið Greenway fékk á dögunum leyfi til að merkja nokkrar af vörum sínum með Norræna svaninum. Einnotaáhöldin frá Greenway eru búin til úr pálmablöðum og brotna auðveldlega niður í náttúrunni. Um er að ræða áhöld á borð við diska, skálar og matarföt, en til að fá vottun Svansins þarf að uppfylla strangar kröfur um efnainnihald og sitthvað fleira. Áhöldin mega t.d. ekki innihalda flúorsambönd eða þalöt og mega ekki vera úr endurunnum hráefnum þar sem efnaleifar kunna að leynast í þeim. Stór hluti hráefnanna þarf hins vegar að vera endurnýjanlegur, auk þess sem gerðar eru strangar kröfur um orkunotkun í framleiðslunni og um að hægt sé að jarðgera áhöldin eða endurvinna þau með öðrum hætti. Með því að fá Svansmerkingu á vörurnar er Greenway að bregðast við vaxandi eftirspurn viðskiptavina, svo sem frá mötuneytum, hótelum og dagvöruverslunum.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Danmörku í dag).
Skíðaáburður í ánamöðkum
Mikið magn perflúoraðra efna (PFAS-efna) fannst í ánamöðkum í grennd við Osló í rannsókn sem rannsóknarstofnanirnar NILU og NINA hafa unnið að fyrir Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet). Í rannsókninni voru m.a. skoðaðir maðkar sem halda til á vinsælum skíðagöngusvæðum og reyndust þeir innihalda áttfalt meira af þessum efnum en ánamaðkar á fáfarnari slóðum. Talið er líklegt að rekja megi þessa mengun m.a. til skíðaáburðar sem inniheldur gjarnan efni af þessu tagi sem er ætlað að gera skíðin sleipari, en skyld efni hafa einnig verið notuð í slökkvifroðu og útivistarföt, svo dæmi séu tekin. Perflúoruð efni brotna seint eða aldrei niður í náttúrunni, safnast fyrir í lífverum og geta valdið ýmiss konar heilsutjóni.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratets í dag).
Hættuleg efni í pizzukössum
Pizzukassar geta innihaldið ýmis hættuleg efni að því er fram kemur í nýrri rannsókn dönsku neytendasamtakanna TÆNK. Í rannsókninni voru skoðaðir þrenns konar kassar og reyndust þeir allir innihalda heilsuspillandi flúorsambönd langt yfir viðmiðunarmörkum. Það sem kom þó meira á óvart var að í öllum kössunum fundust efni á borð við þalöt, BPA og nónýlfenól, sem ýmist eru talin geta verið hormónaraskandi eða krabbameinsvaldandi. Talið er líklegt að þessi efni séu ættuð úr endurunnu hráefni sem notað er við framleiðslu á kössunum. Þessar fréttir koma í kjölfar rannsóknar Tænk fyrr á árinu, sem leiddi í ljós að allir pokar utan um örbylgjupopp innihéldu flúorsambönd. Umræddar rannsóknir taka aðeins til matarumbúða og segja því ekki endilega til um hvort efnin berist í matvæli. Tænk ráðleggur fólki þó að borða ekki pizzur beint úr umbúðunum, geyma þær ekki í umbúðunum yfir nótt, forðast örbylgjupopp, kaupa svansmerktan bökunarpappír og geyma mat aðeins í umbúðum sem eru til þess ætlaðar.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 14. október).
Coop hættir sölu á örbylgjupoppi
Coop í Danmörku hefur hætt sölu á örbylgjupoppi í öllum 1.200 verslunum fyrirtækins í Danmörku vegna hræðslu við áhrif hormónaraskandi flúoraðra efna í umbúðunum. Ákvörðunin var tekin í framhaldi af rannsókn vísindamanna frá Syddansk Universitet sem sýndi auknar líkur á fósturláti hjá konum með mikið magn flúors í blóði. Verslunarkeðjan, sem rekur einnig verslanir undir nöfnunum Fakta, Kvickly og Super Brugsen, hefur unnið markvisst að því að draga úr magni flúoraðra efna í eigin vörum og meðal annars fjarlægt slík efni úr bökunarpappír og möffinsformum sem fyrirtækið framleiðir. Coop hefur um nokkurt skeið unnið með birgjum að því að finna staðgönguefni flúorefnanna í popppokunum, en án árangurs. Á meðan ekki liggur fyrir hvernig hægt sé að draga úr notkun efnanna og tryggja þar með öryggi netenda hvað þetta varðar mun Coop aðeins selja poppbaunir og poppkorn sem búið er að poppa.
(Sjá frétt DR í dag).
Efnavörur í umhverfinu auka líkur á fósturláti
Barnshafandi konur sem eru í mikilli nálægð við hormónaraskandi efni eru um 16 sinnum líklegri en aðrar til að missa fóstur samkvæmt nýrri rannsókn Odense Børnekohorte og Syddansk Universitet. Í rannsókninni var skoðað sambandið milli styrks tiltekinna hormónaraskandi efna í blóði barnshafandi kvenna og tíðni fósturláta. Mest hætta virtist stafa af tveimur perflúoruðum efnum sem eru m.a notuð í föt, húsgögn og matarumbúðir til að gera þessar vörur vatns- og fitufráhrindandi. Tina Kold Jensen, prófessor við Syddansk Universitet, segir að niðurstöðurnar hafi komið mjög á óvart. Sextánföld áhætta sé mjög óvenjuleg í rannsóknum af þessu tagi.
(Sjá frétt BT í dag).