Tæknideild Linköpingbæjar í Svíþjóð hefur tekið í notkun fyrstu skólphreinsistöðina sem eyðir lyfjaleifum að miklu leyti áður en skólpinu er hleypt út í viðtakann. Þetta er gert með því að bæta ósoni í vatnið í stöðinni. Aðferðin er orkufrek og því nauðsynlegt að gæta hófs í beitingu hennar, auk þess sem tryggja þarf að allt ósonið sé nýtt í ferlinu. Fyrstu prófanir benda til að hægt sé að hreinsa allt að 90% lyfjaleifanna úr fráveituvatninu með þessari aðferð, en engu að síður leggja sérfræðingar áherslu á mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða til að sem minnst af lyfjaleifum berist í fráveituna.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 19. janúar).
Greinasafn fyrir merki: lyf
Fiskar í menguðu vatni þurfa að vinna meira
Lyfjaleifar og önnur mengunarefni í vatni neyða fiska til að leggja á sig meira erfiði en ella til að komast af, að því er fram kemur í nýrri vísindagrein eftir sérfræðinga við McMaster-háskólann í Ontaríó í Kanada. Jafnvel fullkomnustu skólphreinsistöðvar ná ekki að klófesta leifar af lyfjum á borð við getnaðarvarnarpillur, þunglyndislyf og beta-blokkera áður en skólpinu er hleypt út í viðtakann. Þessi efni og önnur mengunarefni í vatni gera það að verkum að fiskar leggja á sig u.þ.b. 30% viðbótarvinnu til að losa sig við efnin. Þetta þýðir að minni orka verður afgangs en ella til annarra verka, svo sem til þess að afla næringar, verjast rándýrum og æxlast. Þar með minnka afkomumöguleikar stofnsins, jafnvel þótt efnin drepi ekki fiskana. Þarna er því í raun um falin eitrunaráhrif að ræða. Einn af höfundum rannsóknarinnar líkir þessum áhrifum við það ef fólk þyrfti að ganga í nokkrar klukkustundir á hverjum degi (án þess að fá meiri mat).
(Sjá frétt Science Daily 16. janúar).
Lyf sem brotna niður í tæka tíð
Með minni háttar breytingu á uppbyggingu sameinda hefur vísindamönnum tekist að breyta algengu lyfi þannig að það brotni niður áður en það skilar sér út í náttúruna með fráveituvatni, án þess að breytingin komi niður á virkni lyfsins í líkamanum. Virk efni úr lyfjum berast í talsverðum mæli út í umhverfið með ófyrirséðum afleiðingum. Þess vegna gerðu Klaus Kümmerer og félagar hans tilraun til að breyta lyfinu própranólól, sem er algengur beta-blokkari og blóðþrýstingslyf, þannig að það gerði sitt gagn sem slíkt en brotnaði niður í skaðminni efni í fráveitukerfinu. Tilraunin skilaði góðum árangri og að mati þeirra sem að henni stóðu vekur hún vonir um að unnt verði að endurhanna fleiri lyf með svipuðum hætti, þannig að þau hafi minni neikvæð áhrif á umhverfi og heilsu að notkun lokinni.
(Sjá frétt Science Daily 9. september).
Styrkur lyfja í evrópskum ám víða yfir mörkum
Hópur vísindamanna á vegum Evrópusambandins hefur reiknað út styrk þriggja algengra lyfja í evrópskum ám og komist að þeirri niðurstöðu að styrkurinn sé í allnokkrum tilvikum yfir viðmiðunarmörkum Vatnatilskipunar ESB. Lyfin sem um ræðir eru etinýlestradíól, estradíól og díklófenak. Tvö fyrrnefndu lyfin eru notuð í getnaðarvarnarpillur og sem staðgöngulyf fyrir hormón en díklófenak er bólgueyðandi (og má finna m.a. í Voltaren). Öll þessi efni eru talin hafa neikvæð áhrif á vistkerfi vatnasvæða, m.a. vegna áhrifa á hormónastarfsemi fiska, og eru því undir sérstöku eftirliti innan ESB. Niðurstöðurnar benda til að styrkur etinýlestradíóls sé yfir viðmiðunarmörkum í um 12% af evrópskum ám, að styrkur estradíóls sé yfir mörkum í 1,5% tilfella og að styrkur diklófenaks sé sömuleiðis yfir mörkum í 1,5% ánna. Ástandið er talið verst í Þýskalandi, Hollandi, Póllandi og Rúmeníu, þar sem allt að þriðjungur ánna stenst ekki gæðakröfur vatnatilskipunarinnar hvað þetta varðar.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 21. maí).
Parasetamól truflar þroskun eistna
Inntaka á parasetamóli (sem m.a. er virka efnið í verkjalyfinu Panodil) á meðgöngu getur haft áhrif á framleiðslu testósterons og þroskun kynfæra drengja á fósturstigi samkvæmt nýrri rannsókn Háskólans í Edinborg. Í rannsókninni kom í ljós að sjö daga notkun á parasetamóli helmingar framleiðslu testósterons, en rannsóknin var gerð með því að koma vef úr eistum fyrir í músum sem síðan var gefið mismunandi magn af parasetamóli. Vísindamenn við Háskólann í Århus segja niðurstöðurnar vera í takt við danskar rannsóknir, en ógerlegt sé þó að segja hvort áhrif á menn séu meiri eða minni en á mýs. Þörf sé á fleiri rannsóknum áður en gerðar verði ráðstafanir til að minnka parasetamólnotkun kvenna á meðgöngu, en um 50% danskra kvenna segist hafa notað verkjastillandi lyf á meðgöngunni.
(Sjá frétt Videnskab DK í dag).
Lyfsölurisi með átak í söfnun lyfjaúrgangs
Lyfsölurisinn CVS í Bandaríkjunum hefur tekið til við að dreifa sérstökum tunnum fyrir lyfjaúrgang til sveitarfélaga og lögregluembætta með það að markmiði að lágmarka neikvæð áhrif úrgangsins á umhverfi og samfélag. Talið er að um 10-30% allra lyfja sem seld eru vestra séu aldrei notuð og safnist því fyrir í skápum eða endi annað hvort í salerninu eða ruslinu. Þaðan berist þau oftar en ekki í vötn og haf og geti þar skaðað vistkerfi og jafnvel heilsu manna ef þau berast inn í fæðukeðjuna. Lyfjaafgöngum á alla jafna að skila í apótek, því að erfitt hefur reynst að tryggja að lyfjaleifum sem skilað er á grenndarstöðvar sé ekki stolið úr gámunum. CVS hefur nú þegar dreift 275 sérstökum söfnunarílátum sem standast kröfur um öryggi og stefnir að því að færa yfirvöldum víðsvegar um Bandaríkin um 700 stykki til viðbótar á næstu misserum.
(Sjá frétt ENN í dag).