Hættuleg efni algeng í snyrtivörum fyrir börn

Dönsku neytendasamtökin Tænk könnuðu nýlega innihaldslýsingar á allmörgum tegundum af snyrtivörum sem ætlaðar eru börnum. Í 27 tilvikum reyndust þessar vörur innihalda efni sem eru talin geta valdið ofnæmi, truflað hormónastarfsemi líkamans og haft neikvæð áhrif á frjósemi, nánar tiltekið efnin BHT, própýlparaben og etýlhexýlmetoxýcinnamat. Tænk bendir á að börn á vaxtarskeiði séu einkar viðkvæm fyrir efnum af þessu tagi og jafnvel þótt hvert efni um sig geri lítinn skaða til skamms tíma geti samverkandi áhrif fleiri efna (kokteiláhrif) valdið heilsutjóni. Foreldrum er ráðlagt að velta fyrir sér þörfinni á að börn noti snyrtivörur, að nota smáforritið Kemiluppen til að skanna þær vörur sem keyptar eru og velja helst svansmerktar vörur og vörur með viðurkenndum ofnæmismerkjum á borð við Bláa kransinn.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 30. nóvember).

Kemísk efni ógna heilsu og efnahag

151001100058_1_540x360 (160x106)Gríðarleg aukning í umgengni fólks við eiturefni síðustu fjóra áratugi ógnar frjósemi og heilsu manna, á þátt í milljónum dauðsfalla á hverju ári og hefur í för með sér árlegan kostnað upp á milljarða dollara. Meðal afleiðinga má nefna aukna tíðni fósturláta og andvana fæðinga, truflanir á fósturþroska, meðfædda vansköpun, vanþroskun taugakerfis, truflanir á vitsmunaþroska, fjölgun krabbameinstilfella, athyglisbrest og ofvirkni. Efnin sem þessu valda eru m.a. varnarefni, mengunarefni í andrúmslofti, plastefni og leysiefni. Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðasamtaka kvensjúkdóma- og fæðingarlækna (International Federation of Gynecology and Obstetrics (FIGO)) sem birtist í gær, en þetta mun vera í fyrsta sinn sem alþjóðasamtök á heilbrigðissviði taka svo skýra afstöðu í þessum efnum. Í tilefni af útgáfu skýrslunnar sagði aðalhöfundar hennar, Dr. Gian Carlo Di Renzo: „Við erum að drekkja heiminum í óprófuðum og óöruggum efnum“. Að mati FIGO þurfa læknar að beita sér fyrir stefnumörkun sem verndar sjúklinga og samfélög fyrir þessari hættu.
(Sjá frétt ScienceDaily í gær).

Hormónaraskandi efni gera karlmenn æ kvenlegri

anuspenisKarlmenn sem fá í sig hormónaraskandi efni í móðurkviði framleiða minna af testósteróni en aðrir menn og eru með lakari sæðisframleiðslu. Þetta kom fram á ráðstefnu um hormónaraskandi efni sem nýlega var haldin á Danska landspítalanum. Efnin sem um ræðir er m.a. að finna í plasti, húsgögnum, fötum og umbúðum. Dregið hefur verulega úr frjósemi Dana og annarra Evrópubúa á síðustu áratugum og sem dæmi má nefna að aðeins um 23% ungra danskra karlmanna hafa viðunandi sæðisframleiðslu. Auk þess fjölgar sífellt þeim tilfellum þar sem gefa þarf drengjum testósterón til að þeir verði kynþroska. Talið er að kokteiláhrif þalata og annarra hormónaraskandi efna hafi mikið að segja í þessu sambandi og þess vegna er erfitt fyrir vísindamenn að segja til um hvaða einstöku efni skuli bönnuð, öðrum fremur.
(Sjá frétt Videnskab DK í dag).

Efni í sólarvörn og tannkremi geta spillt sæðisgæðum

H_ndcreme_844634yEfni sem meðal annars finnast í sólarvörn og tannkremi hafa áhrif á gæði sæðis og eiga þátt í minnkandi frjósemi karla samkvæmt nýrri rannsókn vaxtar- og æxlunardeildar danska ríkisspítalans og þýsku rannsóknarstofnunarinnar Caesar. Um er að ræða tríklósan og fleiri manngerð efni sem er m.a. að finna í matvælum, snyrtivörum og heimilisvörum. Skoðuð voru 96 efni sem öll eru talin hafa hormónaraskandi áhrif og reyndist þriðjungur þeirra hafði áhrif á starfsemi og virkni sæðisfruma, sérstaklega á fósturskeiði og í bernsku á meðan kynfæri eru enn að þróast. Á síðustu árum virðist hafa dregið úr frjósemi án þekktra líffræðilegra skýringa og eru hormónaraskandi efni vera ein af ástæðum þessa. Hægt er að forðast slíkum efni að miklu leyti með því að velja umhverfismerktar vörur.
(Sjá frétt Politiken 11. maí).