Parasetamól truflar þroskun eistna

panodil_gravid_0Inntaka á parasetamóli (sem m.a. er virka efnið í verkjalyfinu Panodil) á meðgöngu getur haft áhrif á framleiðslu testósterons og þroskun kynfæra drengja á fósturstigi samkvæmt nýrri rannsókn Háskólans í Edinborg. Í rannsókninni kom í ljós að sjö daga notkun á parasetamóli helmingar framleiðslu testósterons, en rannsóknin var gerð með því að koma vef úr eistum fyrir í músum sem síðan var gefið mismunandi magn af parasetamóli. Vísindamenn við Háskólann í Århus segja niðurstöðurnar vera í takt við danskar rannsóknir, en ógerlegt sé þó að segja hvort áhrif á menn séu meiri eða minni en á mýs. Þörf sé á fleiri rannsóknum áður en gerðar verði ráðstafanir til að minnka parasetamólnotkun kvenna á meðgöngu, en um 50% danskra kvenna segist hafa notað verkjastillandi lyf á meðgöngunni.
(Sjá frétt Videnskab DK í dag).

Hormónaraskandi efni gera karlmenn æ kvenlegri

anuspenisKarlmenn sem fá í sig hormónaraskandi efni í móðurkviði framleiða minna af testósteróni en aðrir menn og eru með lakari sæðisframleiðslu. Þetta kom fram á ráðstefnu um hormónaraskandi efni sem nýlega var haldin á Danska landspítalanum. Efnin sem um ræðir er m.a. að finna í plasti, húsgögnum, fötum og umbúðum. Dregið hefur verulega úr frjósemi Dana og annarra Evrópubúa á síðustu áratugum og sem dæmi má nefna að aðeins um 23% ungra danskra karlmanna hafa viðunandi sæðisframleiðslu. Auk þess fjölgar sífellt þeim tilfellum þar sem gefa þarf drengjum testósterón til að þeir verði kynþroska. Talið er að kokteiláhrif þalata og annarra hormónaraskandi efna hafi mikið að segja í þessu sambandi og þess vegna er erfitt fyrir vísindamenn að segja til um hvaða einstöku efni skuli bönnuð, öðrum fremur.
(Sjá frétt Videnskab DK í dag).

Þalöt hægja á framleiðslu testósterons

kremÞalöt  virðast hafa neikvæð áhrif á framleiðslu testósterons hjá fólki sem notar mikið af hreinlætisvörum og plastvörum, en slíkar vörur geta innihaldið nokkurt magn þalata og annarra efna sem trufla starfsemi innkirtla. Í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Journal of Clinical Endocrinology & Metabolism var magn testósterons í blóði 2.200 einstaklinga í Bandaríkjunum mælt og samtímis leitað að 13 niðurbrotsefnum þalata í þvagi sömu einstaklinga. Niðurstöðurnar sýndu marktækt samband lágs testósteronsgildis og magns þalata í þvagi. Síðustu 50 ár hefur dregið mjög úr testósteronframleiðslu karlmanna og telja vísindamenn þessa þróun geta haft veruleg neikvæð áhrif á lýðheilsu. Lækkun testósterons hefur neikvæð áhrif á kynþroska ungra pilta auk neikvæðra áhrifa á kynhvöt, kynstarfsemi, orku og heilbrigði beina bæði í körlum og konum á aldrinum 40-60 ára.
(Sjá frétt Science Daily 14. ágúst).