Vísindamenn við Princeton háskólann í New Jersey hafa fundið bakteríu sem getur brotið niður pólý- og perflúorefni (PFAS). Vegna vatns- og fitufráhrindandi eiginleika sinna hafa efnin verið notuð í ýmsan varning (m.a. undir nöfnunum teflon og goretex), en efnin eru mjög þrávirk og safnast upp í lífverum. Umrædd baktería, Acidimicrobiaceae sp. (A6), finnst í votlendi í New Jersey og í fyrri rannsóknum hafði komið í ljós að hún getur brotið ammóníum niður í súrefnissnauðu umhverfi með því að nýta járn úr jarðvegi sem efnahvata. Nú hefur komið í ljós að á sama hátt getur bakterían rofið kolefnis-flúortengi (C-F tengi) í PFAS og þannig sundrað efninu. C-F tengið er það sterkasta sem fyrirfinnst í lífrænni efnafræði og fram að þessu hafa menn ekki vitað um neina lífveru sem gæti rofið það. Þetta vekur vonir um að hægt sé að nota A6 til að brjóta umrædd efni niður í menguðum jarðvegi.
(Sjá frétt á heimasíðu American Chemical Society (ACS) 18. september).
Greinasafn fyrir merki: teflon
Hættuleg efni í pizzukössum
Pizzukassar geta innihaldið ýmis hættuleg efni að því er fram kemur í nýrri rannsókn dönsku neytendasamtakanna TÆNK. Í rannsókninni voru skoðaðir þrenns konar kassar og reyndust þeir allir innihalda heilsuspillandi flúorsambönd langt yfir viðmiðunarmörkum. Það sem kom þó meira á óvart var að í öllum kössunum fundust efni á borð við þalöt, BPA og nónýlfenól, sem ýmist eru talin geta verið hormónaraskandi eða krabbameinsvaldandi. Talið er líklegt að þessi efni séu ættuð úr endurunnu hráefni sem notað er við framleiðslu á kössunum. Þessar fréttir koma í kjölfar rannsóknar Tænk fyrr á árinu, sem leiddi í ljós að allir pokar utan um örbylgjupopp innihéldu flúorsambönd. Umræddar rannsóknir taka aðeins til matarumbúða og segja því ekki endilega til um hvort efnin berist í matvæli. Tænk ráðleggur fólki þó að borða ekki pizzur beint úr umbúðunum, geyma þær ekki í umbúðunum yfir nótt, forðast örbylgjupopp, kaupa svansmerktan bökunarpappír og geyma mat aðeins í umbúðum sem eru til þess ætlaðar.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 14. október).
Coop hættir sölu á örbylgjupoppi
Coop í Danmörku hefur hætt sölu á örbylgjupoppi í öllum 1.200 verslunum fyrirtækins í Danmörku vegna hræðslu við áhrif hormónaraskandi flúoraðra efna í umbúðunum. Ákvörðunin var tekin í framhaldi af rannsókn vísindamanna frá Syddansk Universitet sem sýndi auknar líkur á fósturláti hjá konum með mikið magn flúors í blóði. Verslunarkeðjan, sem rekur einnig verslanir undir nöfnunum Fakta, Kvickly og Super Brugsen, hefur unnið markvisst að því að draga úr magni flúoraðra efna í eigin vörum og meðal annars fjarlægt slík efni úr bökunarpappír og möffinsformum sem fyrirtækið framleiðir. Coop hefur um nokkurt skeið unnið með birgjum að því að finna staðgönguefni flúorefnanna í popppokunum, en án árangurs. Á meðan ekki liggur fyrir hvernig hægt sé að draga úr notkun efnanna og tryggja þar með öryggi netenda hvað þetta varðar mun Coop aðeins selja poppbaunir og poppkorn sem búið er að poppa.
(Sjá frétt DR í dag).
Framleiðendur hætti notkun óþarfra flúorsambanda
Hópur alþjóðlegra vísindamanna hefur skorað á framleiðendur að hætta notkun óþarfra flúorsambanda þar til meira verði vitað um möguleg heilsuskaðleg áhrif þeirra. Áskorunin er afrakstur alþjóðlegrar vísindaráðstefnu um flúorsambönd og hefur verið nefnd Helsingør yfirlýsingin. Flúorsamböndin sem um ræðir eru manngerð efni sem hrinda frá sér vatni, fitu og óhreinindum og hafa því þótt henta vel til notkunar í ýmsar neytendavörur, svo sem matarílát úr pappír. Efnin brotna hægt niður og safnast upp í lífverum auk þess sem talið er að þau geti valdið krabbameini, aukið kólesterólmagn, veikt ónæmiskerfið og haft áhrif á hormónaframleiðslu. Strangar reglur gilda um notkun tiltekinna flúorsambanda og telja höfundar yfirlýsingarinnar að þeim sé oft skipt út fyrir önnur flúorsambönd sem lítið sé vitað um. Því skora vísindamennirnir á framleiðendur að beita Varúðarreglunni við innleiðingu nýrra flúorsambanda og gæta þess jafnframt að efnin séu ekki notuð að óþörfu.
(Sjá frétt á heimasíðu Tækniháskóla Danmerkur (DTU) 27. ágúst).