Vel heppnuð endurvinnsla á frauðplasti

Danir hafa fundið færa leið til að endurvinna frauðplast (blásið pólýstýren (EPS)). Þetta er afrakstur tilraunaverkefnis sem staðið hefur í nokkurn tíma á gámastöð í Tårnby í útjaðri Kaupmannahafnar. Þar hefur verið þróaður og settur upp pressugámur sem pressar loftið úr plastinu og minnkar umfang þess, þannig að 6 tonn af frauðplasti sem áður fylltu 46 vörubíla komast nú á einn vörubíl. Plastið er síðan hitað og meðhöndlað með efnum og unnar úr því pólýstýrenperlur sem nýtast í framleiðslu á nýju frauðplasti af svipuðum gæðum og upphaflega plastið. Fyrir hvert tonn af plasti sem endurunnið er með þessum hætti minnkar losun koldíoxíðs um 1,75 tonn.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur 17. september).

Einnota plastpokar bannaðir á Vanuatu

Ríkisstjórn Kyrrahafsríkisins Vanuatu hefur ákveðið að banna innflutning á einnota plastpokum og frauðplastílátum frá og með febrúarmánuði næstkomandi. Þetta er liður í að fylgja eftir stefnu stjórnvalda í málefnum hafsins, en Vanuatu er einmitt fyrsta Kyrrahafsríkið sem samþykkir slíka stefnu. Í framhaldinu er stefnt að því að banna einnig innflutning á plasthnífapörum og drykkjarrörum úr plasti.
(Sjá frétt PlanetArk 18. janúar).

Geta mjölormar losað okkur við frauðplast?

Ormar ENN (160x107)Í ljós hefur komið að mjölormar geta étið frauðplast eins og það sem notað er í einnota drykkjarmál. Frauðplastið er gert úr pólýstýreni, sem hingað til hefur verið mjög erfitt í endurvinnslu. Bandarískir neytendur henda árlega um 25 milljörðum frauðplastmála og þar í landi lenda samtals um 2 milljónir tonna af efninu í urðun á hverju ári. Svo virðist sem mjölormar geti étið pólýstýren án þess að verða fyrir heilsutjóni, en talin er þörf á að rannsaka það atriði nánar, svo og hvort ormar sem aldir hafa verið á pólýstýreni séu jafngott fóður og aðrir ormar. Gríðarlegan fjölda orma þyrfti til að brjóta niður pólýstýren í stórum stíl en vísindamenn binda vonir við að hægt verði að einangra og rækta bakteríur sem væntanlega gera ormunum kleift að melta plastið.
(Sjá frétt ENN 2. október).

Nýir möguleikar í endurvinnslu frauðplasts

fraudplastMexíkóskir frumkvöðlar hjá fyrirtækinu Rennueva hafa hannað vél sem getur umbreytt frauðplasti í plastperlur sem nýtast sem hráefni við framleiðslu á glæru harðplasti. Tæknin sem notuð er byggist á því að hita frauðplastið og þjappa því saman, en í raun eru 95% af venjulegu frauðplasti ekkert annað en loft. Vélin getur unnið úr 100 kílóum af frauðplasti á klukkustund og er nýtnin um 97%. Meðhöndlun frauðplasts er vaxandi vandamál í heiminum þar sem mikið er notað af efninu en fátt um valkosti í endurvinnslu. Söfnun hefur ekki verið nógu markviss, en æskilegt er að frauðplastið sé ómengað af öðru plasti þegar því er safnað. Rennueva hefur tekið upp samstarf við umbúðafyrirtæki til að finna bestu leiðirnar í þessu.
(Sjá frétt Science Daily 18. nóvember).

Japanskt frauðplast á fjörum Alaska

FrauðplastGríðarlegt magn af japönsku frauðplasti hefur rekið á fjörur Alaska síðustu mánuði. Þetta er ein af afleiðingum jarðskjálftans mikla í Japan í mars 2011 og flóðbylgjunnar sem fylgdi í kjölfarið. Plastið er m.a. úr einangrun húsa sem skemmdust í hamförunum og úr flotholtum á sjó. Plastið hefur nú náð að berast þvert yfir Kyrrahafið og er víða að finna á vesturströnd Bandaríkjanna. Erfiðast verður þó að hreinsa strendur Alaska, þar sem svæðið er afskekkt og strandlínan löng. Umhverfisverndarsinnar hafa áhyggjur af áhrifum plastsins á dýralíf, en frauðplast brotnar seint eða aldrei niður í náttúrunni og getur m.a. valdið köfnun og stíflað meltingarvegi dýra.
(Sjá frétt PlanetArk 31. janúar).