Vel heppnuð endurvinnsla á frauðplasti

Danir hafa fundið færa leið til að endurvinna frauðplast (blásið pólýstýren (EPS)). Þetta er afrakstur tilraunaverkefnis sem staðið hefur í nokkurn tíma á gámastöð í Tårnby í útjaðri Kaupmannahafnar. Þar hefur verið þróaður og settur upp pressugámur sem pressar loftið úr plastinu og minnkar umfang þess, þannig að 6 tonn af frauðplasti sem áður fylltu 46 vörubíla komast nú á einn vörubíl. Plastið er síðan hitað og meðhöndlað með efnum og unnar úr því pólýstýrenperlur sem nýtast í framleiðslu á nýju frauðplasti af svipuðum gæðum og upphaflega plastið. Fyrir hvert tonn af plasti sem endurunnið er með þessum hætti minnkar losun koldíoxíðs um 1,75 tonn.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur 17. september).

Flokkun lífræns úrgangs komin í tísku

Níu af hverjum tíu Dönum sem eiga þess kost að flokka lífrænan úrgang frá öðrum úrgangi sem til fellur á heimilinu eru ánægðir með fyrirkomulagið samkvæmt niðurstöðum könnunar Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen). Enn hafa aðeins um 30% þjóðarinnar aðstöðu til slíkrar flokkunar en um helmingur hinna 70 prósentanna segist gjarnan vilja hafa þennan möguleika. Aðeins um 15% segja flokkun úrgangs vera erfiða og um 3% vilja hafa færri flokkunarmöguleika en þeir hafa í í dag. Lífrænn heimilisúrgangur er rúmlega 40% af öllum heimilisúrgangi sem til fellur í Kaupmannahöfn.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. september).

Fleiri reiðhjól en bílar á götum Kaupmannahafnar

5210-160x96Í nóvember voru reiðhjól á götum Kaupmannahafnar í fyrsta sinn fleiri en bílarnir. Samkvæmt umferðartalningu fóru að meðaltali 265.700 hjól um miðborgina á hverjum degi mánaðarins en aðeins 252.600 bílar. Á einu ári hefur hjólaumferð í borginni aukist um 15% á sama tíma og bílaumferð hefur dregist saman um 1%. Forsvarsmenn borgarinnar telja að þessa þróun megi fyrst og fremst rekja til markvissrar stefnumótunar og mikilla fjárfestinga í innviðum fyrir umferð reiðhjóla.
(Sjá frétt The Guardian 30. nóvember).

Umbúðalaus verslun opnuð í Kaupmannahöfn

crate-895939-960-720Fyrsta umbúðalausa verslunin á Norðurlöndunum verður opnuð í Kaupmannahöfn á næstu vikum, en búðin er fjármögnuð með hópfjármögnun (e. crowdfunding). Hingað til hefur yfirleitt aðeins verið hægt að kaupa þurrvöru svo sem grjón, kornmeti o.þ.h. án umbúða, en nýja verslunin mun einnig selja vörur á borð við hunang, vín, sápu og matarolíu án umbúða. Viðskiptavinir taka þá margnotaumbúðir með sér að heiman eða taka þátt í skilagjaldskerfi búðarinnar þar sem þeir geta keypt flösku og skilað henni fyrir hreina flösku við næstu heimsókn. Árlega falla til um 156 kg af umbúðaúrgangi á hvern íbúa innan ESB og er markmið verslunarinnar að lækka þessa tölu. Um leið er gert ráð fyrir að matarsóun minnki með hentugri stærðareiningum, auk þess sem hægt verður að lækka kílóverð lífrænna vara með því að selja þær í stærri einingum.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).

Mengunarsíur í strætisvagna bæta loftgæði í Kaupmannahöfn

busserLoftmengun á götum Kaupmannahafnar hefur minnkað verulega eftir að nýjum úblásturssíum var komið fyrir í 300 strætisvögnum þar í borg. Síurnar minnka mengun í útblæstri um 95% og munar þar mestu um samdrátt í útblæstri köfnunarefnisoxíða (NOx) og svifryks sem eru taldar vera meðal helstu orsaka krabbameins og öndunarfærasjúkdóma í borginni. Þessi samdráttur í mengun samsvarar því að 15-20% af mest mengandi ökutækjum borgarinnar væru tekin úr umferð. Verkefnið er hluti af samstarfi Kaupmannahafnarborgar, sveitarfélagsins Fredriksberg, flutningafyrirtækisins Movia og Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen).
(Sjá frétt Miljøstyrelsen 29. febrúar).

Loftmengun mæld með snjallsímum

ispexÍ þessum mánuði og þeim næsta munu 500 íbúar Kaupmannahafnar mæla svifryksmengun í nánasta umhverfi sínu með þar til gerðu appi og búnaði sem tengist myndavélum iPhone síma. Þessar mælingar eru hluti af evrópsku verkefni sem gengur undir nafninu iSPEX og hefur það markmiði að kortleggja loftmengun í evrópskum borgum með meiri nákvæmni en áður og auka þannig þekkingu manna á áhrifum loftmengunar á heilsu og umhverfi.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur í gær).

Hröð uppbygging vatnsaflsvirkjana

hydropower_boomOrkuframleiðsla vatnsaflsvirkjana í heiminum mun tvöfaldast á þessum áratug ef marka má niðurstöður sem kynntar voru á ráðstefnunni Global Challenges: Achieving Sustainability sem Kaupmannahafnarháskóli stóð fyrir á dögunum. Þessi uppbygging, sem aðallega mun verða í þróunarríkjum og í löndum með vaxandi hagkerfi, mun hafa í för með sér að um 20% af óheftum ám heimsins verði virkjuð. Nýting vatnsafls er mikilvægur liður í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis en getur jafnframt ógnað líffræðilegri fjölbreytni með skiptingu búsvæða og breytingum í setlögum. Vísindamenn við Laibniz-stofnunina um vistfræði ferskvatns (IGB) hafa þróað gagnagrunn til að aðstoða ríki við að meta mögulegar staðsetningar vatnsaflsvirkjana með það í huga að draga úr áhrifum á líffríkið.
(Sjá frétt Science Daily 24. október).

Hálfmaraþon í Kaupmannahöfn stuðlar að betri heimi

IAAF halfmaraHeimsmeistaramótið í hálfu maraþonhlaupi, sem fram fer í Kaupmannahöfn laugardaginn 29. mars, er fyrsti íþróttaviðburðurinn sem hlýtur sérstaka viðurkenningu Alþjóða frjálsíþróttasambandsins (IAAF) fyrir framlag sitt til samfélagslegrar ábyrgðar. Viðurkenningin, sem nefnist á ensku Athletics Better World award, verður framvegis veitt þeim mótshöldurum sem þykja skara framúr í áherslum sínum á heilbrigðismál, umhverfismál, félagslegan jöfnuð og frið. Ein ástæða þess að hlaupið í Kaupmannahöfn fær þennan stimpil er sú að þar ákváðu mótshaldarar að gefa almenningi sömu tækifæri til þátttöku og helstu stjörnunum í íþróttinni. Fá dæmi eru um íþróttaviðburði þar sem öllum gefast sömu tækifæri til að glíma við sömu áskoranir á sömu braut og á sama tíma og mestu stjörnur íþróttaheimsins.
(Sjá frétt á heimasíðu IAAF í gær).

Kaupmannahöfn í fararbroddi

Kaupmannahöfn er í fararbroddi á heimsvísu að mati OECD hvað varðar atvinnusköpun í anda græns hagkerfis. Til marks um þetta er bent á að útflutningur fyrirtækja á Kaupmannahafnarsvæðinu á grænum vörum og þjónustu jókst um 55% á milli áranna 2004 og 2009 og næstum þriðjungur fyrirtækja í grænni tækni jók útflutning sinn milli áranna 2010 og 2011. Þessar upplýsingar koma fram í nýrri skýrslu OECD sem kynnt var á ráðstefnunni Global Green Growth Forum á dögunum.
(Sjá nánar í fréttatilkynningu Copenhagen Capacity 8. október).