Vel heppnuð endurvinnsla á frauðplasti

Danir hafa fundið færa leið til að endurvinna frauðplast (blásið pólýstýren (EPS)). Þetta er afrakstur tilraunaverkefnis sem staðið hefur í nokkurn tíma á gámastöð í Tårnby í útjaðri Kaupmannahafnar. Þar hefur verið þróaður og settur upp pressugámur sem pressar loftið úr plastinu og minnkar umfang þess, þannig að 6 tonn af frauðplasti sem áður fylltu 46 vörubíla komast nú á einn vörubíl. Plastið er síðan hitað og meðhöndlað með efnum og unnar úr því pólýstýrenperlur sem nýtast í framleiðslu á nýju frauðplasti af svipuðum gæðum og upphaflega plastið. Fyrir hvert tonn af plasti sem endurunnið er með þessum hætti minnkar losun koldíoxíðs um 1,75 tonn.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur 17. september).