Vísindamenn við Princeton háskólann í New Jersey hafa fundið bakteríu sem getur brotið niður pólý- og perflúorefni (PFAS). Vegna vatns- og fitufráhrindandi eiginleika sinna hafa efnin verið notuð í ýmsan varning (m.a. undir nöfnunum teflon og goretex), en efnin eru mjög þrávirk og safnast upp í lífverum. Umrædd baktería, Acidimicrobiaceae sp. (A6), finnst í votlendi í New Jersey og í fyrri rannsóknum hafði komið í ljós að hún getur brotið ammóníum niður í súrefnissnauðu umhverfi með því að nýta járn úr jarðvegi sem efnahvata. Nú hefur komið í ljós að á sama hátt getur bakterían rofið kolefnis-flúortengi (C-F tengi) í PFAS og þannig sundrað efninu. C-F tengið er það sterkasta sem fyrirfinnst í lífrænni efnafræði og fram að þessu hafa menn ekki vitað um neina lífveru sem gæti rofið það. Þetta vekur vonir um að hægt sé að nota A6 til að brjóta umrædd efni niður í menguðum jarðvegi.
(Sjá frétt á heimasíðu American Chemical Society (ACS) 18. september).
Greinasafn fyrir merki: PFAS
Svansmerking skíðaáburðar á döfinni
Í nánustu framtíð verður væntanlega hægt að kaupa skíðaáburð með vottun Norræna svansins, en drög að viðmiðunarkröfum fyrir þennan varning eru nú í opnu umsagnarferli. Í drögunum er gert ráð fyrir að til að fá Svansvottun þurfi skíðaáburður m.a. að vera laus við flúorefni, gefa gott rennsli, hrinda frá sér óhreinindum, endast vel og standast gæðasamanburð við samsvarandi áburð sem inniheldur flúor. Hægt er að senda inn umsagnir um drögin fram til 10. mars nk.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 10. janúar).
Varasöm efni finnast í gólfteppum fyrir barnaherbergi
Þalöt, rokgjörn lífræn efni (VOCs) og pólý- og perflúorefni (PFAS) finnast í mörgum gerðum gólfteppa sem sérstaklega eru ætluð í barnaherbergi. Þetta kom fram í rannsókn sem Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) gekkst nýlega fyrir. Styrkur efnanna reyndist hins vegar minni en svo að börnum sé talin stafa hætta af. Engu að síður ráðleggur Miljøstyrelsen húseigendum að viðra ný gólfteppi í 1-2 daga í bílskúrnum eða úti á svölum áður en þau eru sett inn í barnaherbergi og reyna síðan að lofta vel út í 2-5 mínútur á hverjum degi. Þannig minnkar hættan á að varasöm efni safnist fyrir í inniloftinu, sem getur vel að merkja í mörgum tilvikum verið mengaðra en útiloft. Þá er fólki ráðlagt að kaupa ekki gólfteppi sem sterk lykt er af. Miljøstyrelsen vinnur nú að stærra verkefni þar sem kannað verður nánar hvort efni í gólfteppum geti reynst hættuleg börnum vegna samverkandi áhrifa með öðrum efnum (kokteiláhrifa). Von er á niðurstöðum úr þeirri rannsókn í ársbyrjun 2017.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í dag).
Skíðaáburður í ánamöðkum
Mikið magn perflúoraðra efna (PFAS-efna) fannst í ánamöðkum í grennd við Osló í rannsókn sem rannsóknarstofnanirnar NILU og NINA hafa unnið að fyrir Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet). Í rannsókninni voru m.a. skoðaðir maðkar sem halda til á vinsælum skíðagöngusvæðum og reyndust þeir innihalda áttfalt meira af þessum efnum en ánamaðkar á fáfarnari slóðum. Talið er líklegt að rekja megi þessa mengun m.a. til skíðaáburðar sem inniheldur gjarnan efni af þessu tagi sem er ætlað að gera skíðin sleipari, en skyld efni hafa einnig verið notuð í slökkvifroðu og útivistarföt, svo dæmi séu tekin. Perflúoruð efni brotna seint eða aldrei niður í náttúrunni, safnast fyrir í lífverum og geta valdið ýmiss konar heilsutjóni.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratets í dag).
Perflúorefni í barnafötum innan marka
Pólý- og perflúorefni (PFAS) fundust í 15 af 30 textílvörum fyrir börn sem tekin voru fyrir í könnun Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen). Efni af þessu tagi eru notuð til yfirborðsmeðhöndlunar á ýmsum varningi til að gera hann vatns- og fitufráhrindandi. Efnin brotna seint niður í náttúrunni og geta skaðað heilsu fólks. Í könnun Miljøstyrelsen var leitað að efnunum í regnfötum, útigöllum, bílstólum og kerrupokum. Efnin fundust sem fyrr segir í 50% tilfella, en að mati Miljøstyrelsen stafar börnum ekki hætta af við venjulega notkun umrædds varnings. Engu að síður sé ástæða til að velja frekar textílvörur sem vottaðar eru með Svaninum eða Umhverfismerki ESB, enda ekki hægt að útiloka heilsufarslega áhættu ef börn komast líka í snertingu við efnin í öðrum varningi á sama tíma.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í dag).