Þalöt, rokgjörn lífræn efni (VOCs) og pólý- og perflúorefni (PFAS) finnast í mörgum gerðum gólfteppa sem sérstaklega eru ætluð í barnaherbergi. Þetta kom fram í rannsókn sem Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) gekkst nýlega fyrir. Styrkur efnanna reyndist hins vegar minni en svo að börnum sé talin stafa hætta af. Engu að síður ráðleggur Miljøstyrelsen húseigendum að viðra ný gólfteppi í 1-2 daga í bílskúrnum eða úti á svölum áður en þau eru sett inn í barnaherbergi og reyna síðan að lofta vel út í 2-5 mínútur á hverjum degi. Þannig minnkar hættan á að varasöm efni safnist fyrir í inniloftinu, sem getur vel að merkja í mörgum tilvikum verið mengaðra en útiloft. Þá er fólki ráðlagt að kaupa ekki gólfteppi sem sterk lykt er af. Miljøstyrelsen vinnur nú að stærra verkefni þar sem kannað verður nánar hvort efni í gólfteppum geti reynst hættuleg börnum vegna samverkandi áhrifa með öðrum efnum (kokteiláhrifa). Von er á niðurstöðum úr þeirri rannsókn í ársbyrjun 2017.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í dag).
Greinasafn fyrir merki: kokkteiláhrif
Er rúsínan í pylsuendanum full af varnarefnum?
Leifar af 15 mismunandi varnarefnum fundust í einni og sömu rúsínutegundinni sem tekin var með í rannsókn sænsku neytendasamtakanna Råd & Rön á eiturefnum í rúsínum sem seldar eru í sænskum matvöruverslunum. Af þessum 15 efnum er tvö bönnuð í löndum ESB. Um var að ræða rúsínur frá fyrirtækinu Montedos sem eru markaðsettar sérstaklega fyrir börn. Varnarefnaleifar í snefilmagni eru ekki taldar hafa mikil eituráhrif, en hins vegar er ekkert vitað um samverkandi áhrif efnanna, þ.e.a.s. svonefnd kokkteiláhrif. Áhrif efna ráðast eðlilega af neyslumagni, auk þess sem börn eru viðkvæmari fyrir eiturefnum en fullorðnir þar sem þau fá í sig meira magn á hverja þyngdareiningu. Í rannsókninni kom í ljós að lífrænt vottaðar rúsínur innihéldu engar varnarefnaleifar, en 7 af 14 sýnum í rannsókninni voru með lífræna vottun. Allar hinar rúsínurnar innihéldu einhverjar varnarefnaleifar.
(Sjá frétt Råd&Rön 25. nóvember).
Varnarefni geta skaðað ófædda drengi
Tilraun sem vísindamenn við Tækniháskóla Danmerkur (DTU) gerðu nýverið á rottum bendir til að drengir sem hafa fengið í sig mismunandi varnarefni á fósturskeiði séu líklegri en aðrir til að glíma við námsörðugleika og skerta sæðisframleiðslu síðar á lífsleiðinni, jafnvel þótt styrkur varnarefnanna hafi verið innan viðmiðunarmarka fyrir hvert efni um sig. Í tilrauninni var notað óverulegt magn af 5 varnarnefnum, sem flest eru notuð sem sveppaeitur í kornrækt og eiga það öll sameiginlegt að geta truflað hormónastarfsemi líkamans. Ulla Hass, prófessor við DTU sem stjórnaði rannsókninni, segir niðurstöðurnar gefa tilefni til að lækka viðmiðunarmörk fyrir umrædd efni, þar sem samlegðaráhrif þeirra („kokkteiláhrif“) hafi að öllum líkindum verið vanmetin.
(Sjá umfjöllun Information 30. nóvember).