Svifryksagnir fósturmegin á fylgju

Talsvert magn af ögnum úr menguðu lofti, svo sem frá umferð, er að finna fósturmegin á fylgjum að því er fram kemur í nýrri rannsókn Hasselt háskóla í Belgíu. Fjöldi agnanna er jafnframt meiri eftir því sem hinar verðandi mæður hafa andað að sér meiru af menguðu lofti. Þetta þýðir að fóstur í móðurkviði komast í beina snertingu við agnir af þessu tagi. Áður hefur verið sýnt fram á tengsl loftmengunar við fósturlát, fyrirburafæðingar og lækkaða fæðingarþyngd, en þessar nýju niðurstöður gefa sterkari vísbendingar en áður um að agnirnar sjálfar hafi þessi áhrif frekar en að þau séu afleiðing bólgusvörunar í líkama móðurinnar. Höfundar rannsóknarinnar benda á að það sé á ábyrgð stjórnvalda að draga úr loftmengun, en að verðandi mæður ættu jafnframt að halda sig sem fjærst stórum umferðaræðum og öðrum uppsprettum loftmengunar.
(Sjá frétt Guardian 17. september).

Parasetamól truflar þroskun eistna

panodil_gravid_0Inntaka á parasetamóli (sem m.a. er virka efnið í verkjalyfinu Panodil) á meðgöngu getur haft áhrif á framleiðslu testósterons og þroskun kynfæra drengja á fósturstigi samkvæmt nýrri rannsókn Háskólans í Edinborg. Í rannsókninni kom í ljós að sjö daga notkun á parasetamóli helmingar framleiðslu testósterons, en rannsóknin var gerð með því að koma vef úr eistum fyrir í músum sem síðan var gefið mismunandi magn af parasetamóli. Vísindamenn við Háskólann í Århus segja niðurstöðurnar vera í takt við danskar rannsóknir, en ógerlegt sé þó að segja hvort áhrif á menn séu meiri eða minni en á mýs. Þörf sé á fleiri rannsóknum áður en gerðar verði ráðstafanir til að minnka parasetamólnotkun kvenna á meðgöngu, en um 50% danskra kvenna segist hafa notað verkjastillandi lyf á meðgöngunni.
(Sjá frétt Videnskab DK í dag).

Loftmengun dregur úr fæðingarþyngd

beijing_160Börn sem fæddust mánuði eftir Ólympíuleikana í Peking 2008 voru um 23 g þyngri en börn sem fæddust á sama tíma árs árin 2007 og 2009. Í aðdraganda leikanna og á meðan á þeim stóð gripu stjórnvöld til margvíslegra aðgerða til að draga úr loftmengun í borginni, svo sem með því að takmarka umferð, loka stóriðjuverum og stöðva byggingarverkefni. Þessar aðgerðir höfðu í för með sér 60% samdrátt í styrk brennisteinstvíoxíðs (SO2), 48% minni kolsýring (CO), 43% minna köfnunarefnistvíoxíð (NO2) og samdrátt í magni svifryks. Raundæmarannsókn Læknaseturs Háskólans í Rochester benti til að meiri fæðingarþyngd á þessu tímabili væri afleiðing af aðgerðum til að draga úr loftmengun. Loftmengun getur haft mikil áhrif á vöxt og þróun fósturs á síðasta stigi meðgöngu, enda fer mikið af líkamlegum vexti, þróun miðtaugakerfis, hjarta- og æðakerfis og vöðvakerfis fram á þessu stigi.
(Sjá frétt Science Daily í dag).

Efnavörur í umhverfinu auka líkur á fósturláti

gravid_160Barnshafandi konur sem eru í mikilli nálægð við hormónaraskandi efni eru um 16 sinnum líklegri en aðrar til að missa fóstur samkvæmt nýrri rannsókn Odense Børnekohorte og Syddansk Universitet. Í rannsókninni var skoðað sambandið milli styrks tiltekinna hormónaraskandi efna í blóði barnshafandi kvenna og tíðni fósturláta. Mest hætta virtist stafa af tveimur perflúoruðum efnum sem eru m.a notuð í föt, húsgögn og matarumbúðir til að gera þessar vörur vatns- og fitufráhrindandi. Tina Kold Jensen, prófessor við Syddansk Universitet, segir að niðurstöðurnar hafi komið mjög á óvart. Sextánföld áhætta sé mjög óvenjuleg í rannsóknum af þessu tagi.
(Sjá frétt BT í dag).

Hormónaraskandi efni í flestum ófrískum konum

Gravid ØkoHormónaraskandi efni fundust í miklum meirihluta blóðsýna sem tekin voru úr 565 ófrískum konum í Odense í nýlegri rannsókn á vegum Syddansk Universitet. Þarna var meðal annars um að ræða þalöt, parabena, BPA, tríklósan og perflúoruð efni. Þessi efni er að finna í margs konar vörum, svo sem í leikföngum, lækningatækjum, sólarvörn, snyrtivörum, plasti, byggingarefnum og yfirborðsefnum á húsgögnum, regnfötum og öðrum fatnaði. Hormónaraskandi efni eru talin hafa sérlega skaðleg áhrif á fóstur. Þeir sem stóðu fyrir rannsókninni telja niðurstöðurnar gefa tilefni til að hafa áhyggjur af stöðu mála, en hins vegar sé jákvætt að styrkur efnanna hafi í flestum tilvikum verið lægri en gerist og gengur hjá verðandi mæðrum í öðrum Evrópulöndum og vestanhafs. Ábendingar um leiðir til að forðast hormónaraskandi efni á meðgöngunni er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur.
(Sjá frétt á heimasíðu Syddansk Universitet 11. apríl).