Græn útileiksvæði styrkja ónæmiskerfið

Leikskólabörn sem leika sér á náttúrulegum leiksvæðum með fjölbreyttum gróðri hafa sterkara ónæmiskerfi en börn sem leika sér í sandkössum og á malarlóðum. Með því að gera leiksvæðin náttúrulegri er meira að segja hægt að styrkja ónæmiskerfi barnanna umtalsvert á aðeins fjórum vikum. Þetta er niðurstaða rannsóknar finnskra vísindamanna sem sagt var frá í tímaritinu Science Advances í fyrradag. Eftir 28 daga höfðu náttúrusvæðabörnin þriðjungi fjölbreyttari örverur á húðinni en sandkassabörnin og munurinn á örveruflórunni í þörmum barnanna var marktækur. Þá sýndu blóðprufur jákvæðar breytingar í mælingum á mörgum próteinum og frumum sem tengjast ónæmiskerfinu, þ.m.t. T-frumum. Jákvæð áhrif náttúrulegu svæðanna eru talin liggja í því að þar eru börnin í snertingu við mun fjölbreyttara lífríki, sem er lykillinn að styrkingu ónæmiskerfisins. Þetta getur hugsanlega skipt máli til að fyrirbyggja sjálfsofnæmissjúkdóma á borð við astma, excem, sykursýki 1, MS og bólgusjúkdóma í meltingarfærum (IBD), en tíðni þessara sjúkdóma hefur vaxið hratt á Vesturlöndum á síðustu árum.
(Sjá frétt The Guardian 14. október).

Fyrstu Svansmerktu kaffimálin komin á markað

mugg_liggande-160x93Nú er í fyrsta sinn hægt að drekka morgunkaffið úr Svansmerktum einnota kaffimálum. Finnska fyrirtækið Huhtamaki sem framleiðir kaffimál fyrir mörg stórfyrirtæki fékk á dögunum leyfi til að merkja þessa framleiðsluvöru sína með Svaninum. Til að fá Svaninn þurfa drykkjarmálin að vera a.m.k. að níu tíunduhlutum úr endurnýjanlegu hráefni, pappinn sem notaður er verður að koma úr sjálfbærri skógrækt og rekjanleiki efnisins verður að vera tryggður. Lím, litarefni og efni til yfirborðsmeðhöndlunar verða að vera samþykkt af Svaninum og málin mega ekki innihalda efni sem geta skaðað umhverfi eða heilsu.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 30. ágúst).

Saurgerlar framleiða eldsneyti

Specialist Jelena Kovalkova works to isolate the Escherichia coli (E.coli) bacteria strain in RigaBreskir og finnskir vísindamenn hafa þróað aðferð til að láta E. coli bakteríuna framleiða própangas, en E. coli er mjög algengur saurgerill sem finnst í meltingarfærum manna. Própan er aðaluppistaðan í fljótandi jarðolíugasi (LPG) sem notað er sem eldsneyti á bíla, til upphitunar og sem gas fyrir grillið. Framleiðsla própans er hagkvæm að því leyti að víða er til staðar dreifikerfi fyrir efnið. Própan er tiltölulega hreint eldsneyti með lágt kolefnisinnihald og er aukaafurð við hreinsun olíu og vinnslu á jarðgasi. E. coli aðferðin er enn á þróunarstigi, en hún byggir á því að láta bakteríurnar framleiða própan úr fitusýrum sem annars væru notaðar sem byggingarefni í frumuhimnu. Vísindamennirnir vonast til að eftir 5-10 ár verði hægt að nota tæknina til framleiðslu á samkeppnishæfu endurnýjanlegu eldsneyti sem komið getur í stað jarðefnaeldsneytis.
(Sjá frétt PlanetArk í gær)