Lítið um hættuleg efni í drykkjarbrúsum

drikkedunke-artikel-webFlestir drykkjarbrúsar á borð við þá sem gjarnan eiga sér vísan stað í skólatöskum barna og unglinga standast þær kröfur sem eðlilegt er að gera til slíkrar vöru um efnainnihald og hugsanlegan leka efna í drykki. Þetta kom fram í nýrri rannsókn á vegum dönsku neytendasamtakanna Tænk, þar sem kannaðar voru 8 tegundir drykkjarbrúsa úr plasti, gleri og málmum. Gerð var sérstök leit að þungmálmum og hormónaraskandi efnum á borð við þalöt og BPA. Allir brúsarnir stóðust prófið í öllum aðalatriðum en úr einum brúsanum lak óverulegt magn af áli út í viðkomandi drykk. Í einu öðru tilviki varð vart við óverulega efnamegnun þegar í hlut áttu súrir drykkir. Allt var þetta þó innan marka.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 20. janúar).

Perflúorefni í barnafötum innan marka

PFOAPólý- og perflúorefni (PFAS) fundust í 15 af 30 textílvörum fyrir börn sem tekin voru fyrir í könnun Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen). Efni af þessu tagi eru notuð til yfirborðsmeðhöndlunar á ýmsum varningi til að gera hann vatns- og fitufráhrindandi. Efnin brotna seint niður í náttúrunni og geta skaðað heilsu fólks. Í könnun Miljøstyrelsen var leitað að efnunum í regnfötum, útigöllum, bílstólum og kerrupokum. Efnin fundust sem fyrr segir í 50% tilfella, en að mati Miljøstyrelsen stafar börnum ekki hætta af við venjulega notkun umrædds varnings. Engu að síður sé ástæða til að velja frekar textílvörur sem vottaðar eru með Svaninum eða Umhverfismerki ESB, enda ekki hægt að útiloka heilsufarslega áhættu ef börn komast líka í snertingu við efnin í öðrum varningi á sama tíma.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í dag).

ESB bannar 4 skaðleg efni í leikföngum fyrir börn

MI_kosmetikEvrópusambandið samþykkti í dag bann við notkun metýlísóþíasólínóns (MI) og þriggja annarra efna í leikföng fyrir börn undir þriggja ára aldri og í öllum nagleikföngum. MI er rotvarnarefni sem m.a. hefur verið notað í andlitsmálningu fyrir börn og hafa ofnæmisviðbrögð við efninu farið mjög í vöxt á síðustu árum. Tvö hinna efnanna eru einnig ofnæmisvaldandi rotvarnarefni, en þar er um að ræða bensísóþíasólínón (BIT) og klórmetýlísóþíasólínón (CMI). Fjórða efnið er formamíð sem talið er hormónaraskandi og má meðal annars finna í leikmottum fyrir börn. Eftir sem áður má nota rotvarnarefnin þrjú í snyrtivörur fyrir fullorðna, en norrænir neytendur geta varast þessi efni með því að velja Svansmerktar snyrtivörur.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur í dag).

Skaðleg flúorsambönd í barnaúlpum

barnejakke_160Sex barnaúlpur sem norsku neytendasamtökin (Forbrukerrådet) rannsökuðu á dögunum reyndust allar innihalda skaðleg flúorsambönd sem geta verið krabbameinsvaldandi eða haft áhrif á æxlun og þroska. Úlpa frá norska framleiðandanum Helly Hansen kom verst út, en hún innihélt meðal annars PFOA (perflúoroktansýru) ásamt mörgum fleiri flúorsamböndum. Notkun PFOA var bönnuð í Noregi á síðasta ári, en það útilokar ekki að efnið finnist í vörum sem framleiddar voru fyrir 2014. Flúorsamböndin sem um ræðir hafa m.a. verið notuð í föt, skó og matarumbúðir. Erfitt er fyrir neytendur að forðast efnin þar sem þessir vöruflokkir eru ekki endilega með innihaldsmerkingum. Efnin brotna hægt niður í líkamanum og geta meðal annars komist frá móður til barns í gegnum naflastreng og móðurmjólk. Norðmenn og Þjóðverjar hafa lagt til að notkun PFOA og líkra efna verði bönnuð innan ESB.
(Sjá frétt Forbrukerrådet 8. apríl).

Barnakerrur innihalda skaðleg efni

barnavagnar_160Helmingur af þeim barnakerrum sem dönsku neytendasamtökin Tænk skoðuðu á dögunum reyndust innihalda hormónaraskandi og/eða krabbameinsvaldandi efni í áklæði, ólum, regnhlífum, öryggisslám eða handföngum. Efni á borð við TCPP (trísklóróísóprópýl-fosfat), klóróparaffín og naftalín fundust í fjórum kerrum af átta. Tvö fyrrnefndu efnin eru notuð sem eldvarnarefni og sem plastmýkingarefni en naftalín er tjöruefni. Bannað er að nota TCPP í leikföng og vörur sem börn stinga upp í sig, en barnavagnar falla ekki undir þær reglur. Klóróparaffín er á lista Umhverfisstofnunar Danmerkur yfir óæskileg efni en notkun þess er ekki bönnuð. Neytendasamtökin hafa barist fyrir því að skaðleg efni verði bönnuð í öllum vörum ætluðum börnum en ekki einungis leikföngum.
(Sjá frétt Tænk í dag).

Skaðleg efni í snyrtivörum fyrir börn

baby_kosmetik_160Tíu vörur sem flokkast sem snyrtivörur fyrir börn reyndust allar innihalda skaðleg efni þegar norsku neytendasamtökin (Forbrukerrådet) könnuðu innihald þeirra á dögunum í leit sinni að ofnæmisvaldandi og hormónaraskandi efnum. Sex vörutegundir innihéldu sérstaka tegund af útblámasíu (e. UV-filter) sem ESB hefur skilgreint sem hormónaraskandi og mælt með að ekki sé notuð í vörur fyrir börn. Þá fannst ilmefnið Lyral í þremur vörum, en árið 2011 lagði vísindanefnd ESB til að Lyral yrði bannað í vörum fyrir börn vegna þess hversu öflugur ofnæmisvaldur það er. Að mati Forbrukerrådet gefa þessar niðurstöður skýrt til kynna að þörf sé á strangari reglugerðum um efni í neytendavörum, og þá sérstaklega þegar um er að ræða vörur sem markaðsettar eru fyrir börn.
(Sjá frétt Forbrukerrådet 22. janúar).

Barnavörur innihalda enn skaðleg efni

pennaveskiÓlöglegt magn skaðlegra efna finnst enn í ýmsum vörum sem markaðsettar eru fyrir börn. Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet (MD)) birti á dögunum niðurstöður rannsóknar á 90 barnavörum og reyndust fjórar þeirra innihalda ólöglegt magn af skaðlegum efnum. Þannig fannst SCCP (keðjustutt klórparaffín) og þalatið DEHP í einni gerð pennaveskis og í barnapeysu, nánar tiltekið í aukahlutum á vörunum svo sem rennilásum og hnöppum. Bæði SCCP og þalöt eru notuð sem mýkingarefni í plast. Umhverfisstofnunin hefur krafist þess að þær fjórar vörur sem ekki stóðust lagakröfur verði teknar af markaði í Noregi. Stofnunin telur eftirlit með barnavörum sérstaklega mikilvægt þar sem börn eigi til að stinga hlutum upp í sig, jafnvel þótt þeir séu ekki sérstaklega til þess ætlaðir.
(Sjá frétt Miljødirektoratet í dag).

Óleyfileg efni í tímaritum fyrir börn

spiderman_maske800Í nýrri rannsókn dönsku neytendasamtakanna Tænk fundust óæskileg efni í 5 af 18 leikföngum sem fylgdu með tímaritum fyrir börn. Í framhaldi af þessu hafa þrjú tímaritanna verið kærð til yfirvalda fyrir ólöglega efnanotkun. Með umræddum tímaritum fylgdu leikföng á borð við bolta, dúkkur, prumpublöðrur og strokleður og fundust meðal annars þalöt og blý í þessum vörum. Samkvæmt dönskum lögum mega leikföng ekki innihalda meira en 0,1% af þalatinu DEHP sem er hormónaraskandi efni. Tvö leikföng voru yfir mörkum hvað þetta varðar. Þannig innihélt plastútvarp sem fylgdi með tímaritinu Prinzessin Lillifee 15% DEHP, auk þess sem styrkur blýs í leikfanginu var 2.560 mg/kg. Umhverfisstofnun Danmerkur ætlar ekki að verða við beiðni Tænk um að beita sér fyrir því að strokleður sem fylgdi með tímaritinu Wendy verði tekið af markaði þar sem strokleður séu ekki skilgreind sem leikföng í dönskum lögum. Tænk bendir hins vegar á að reglur um leikföng hljóti að eiga að gilda um strokleður sem séu beinlínis markaðsett fyrir börn.
(Sjá frétt Tænk 13. nóvember).

Skaðleg efni finnast enn í blautþerrum

vaadservietter_huggies_800x387Nýjar blautþerrur frá Huggies innihalda rotvarnarefnið fenóxýetanól, en eldri gerð af þessum þerrum var tekin af markaði þegar í ljós kom að þær innihéldu rotvarnarefnið metýlísóthiazólínon (MI), sem er þekktur ofnæmisvaldur. Vísindanefnd ESB hefur ekki komist að niðurstöðu um það hvort öruggt sé að nota fenóxýetanól í neytendavörur og reyndar telja frönsk heilbrigðisyfirvöld óráðlegt að nota efnið í vörur sem notaðar eru á bleyjusvæði barna. Dönsku neytendasamtökin Tænk furða sig á því að Huggies hafi ákveðið að skipta MI út fyrir annað efni sem kann einnig að vera skaðlegt. Í yfirlýsingu frá Huggies kemur hins vegar fram að hætt verði að nota fenóxýetanól í þessar vörur frá og með næsta ári.
(Sjá frétt Tænk 6. október).

Þalöt í barnavagni

barnevogn-scandia800xMikið magn af díetýlhexýl þalati (DEHP) mældist í skyggni barnavagns af gerðinni Scandia Run í rannsókn sem dönsku neytendasamtökin Tænk stóðu nýlega fyrir. Skyggnið innihélt um 20% DEHP, en leyfilegur styrkur þalata í leikföngum og öðrum ungbarnavörum er 0,1% skv. reglum ESB. Í framhaldi af rannsókninni hefur Tænk sent kæru til Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) og hvatt til þess að vagninn verði tekinn úr sölu. DEHP er eitt af skaðlegustu þalötunum og getur m.a. haft neikvæð áhrif á þroska barna. Þalöt eru notuð sem mýkingarefni í plast en eru ekki bundin plastinu og geta því auðveldlega borist í lífverur við snertingu. Miljøstyrelsen hefur ekki enn brugðist við ábendingu Tænk, en einhverjar verslanir hafa þegar tekið vagninn úr sölu í framhaldi af þessum niðurstöðum.
(Sjá frétt Tænk 31. maí).